Á að selja innviði samfélagsins

 

Sókn einkafjármagnsins í að eignast verðmætustu eignir samfélagsins hefur þyngst mjög það sem af er þessa kjörtímabils. Fjármagnseigendur sjá vini í núverandi þingmeirihluta. Vini sem í raun eru andsnúnir hagsmunum samfélagsins með stuðningi sínum við einkavæðingu samfélagseigna. Sem eru líklegir til að selja verðmætar eigur almennings til fésýslumanna. Í febrúar á síðasta ári birtist í vikublaðinu Reykjavík athygliverð grein byggð á viðtali við Heiðar Má Guðjónsson, fjárfesti, þar sem hann lýsir markmiðum sínum og félags hans Ursus I slhf. til að eignast fyrirtæki í grunnþjónustu samfélagsins og hagnast á þeim með eftirfarandi orðum: „félagið hefur það eina markmið að eignast fyrirtæki í grunnþjónustu samfélagsins og hagnast á slíkum kaupum“. Í stofnskrá félagsins er segir: „Félagið mun fjárfesta með arðsemi hluthafa félagsins að leiðarljósi.“ Fleira athyglivert er í viðtalinu, svo sem að í hluthafasamkomulagi skuldbinda hluthafar sig til: „ að arðsemi félagsins sé ávallt hámörkuð“ og hluthafar eigi að fá „bestu mögulegu ávöxtun“ á fjárfestingu sinni. Grunnþjónusta samfélagsins, sem einkafjármagnið sækist eftir að eignast eru fyrirtæki í almannaþjónustu sem samfélagið hefur frá upphafi fjármagnað og byggt upp. Þetta eru orku- og veitufyrirtæki, samgöngumannvirki, sorphirða og heilbrigðisþjónusta svo það helsta sé nefnt. Fyrirtæki sem samfélagið getur ekki verið án og eru grundvöllur þess að í landinu verði lifað menningarlífi. Þessi fyrirtæki hafa verið rekin þannig að tekjur þeirra standi undir kostnaði og skili arði til samfélagsins. Ekki til einhverra hluthafa sem hafa einsett sér að hagnast áhættulítið og á auðveldan hátt á samfélaginu. Við einkavæðingu mundi verð á orku og allri þjónustu fyrirtækjanna hækka verulega þar sem einkafjármagnið krefðist mikils arðs af eignum sínum. Arður til hluthafa einkavæddu grunnþjónustunnar verður ekki sóttur annað en til kaupenda þjónustunnar með verðhækkunum. Kaupendur þjónustunnar, almenningur, hefur ekki val. Verður að kaupa þjónustuna hjá þeim fáu sem selja hana og á því verði sem þeir ákveða eins og nú er. Samkeppni á heitavatns- og raforkumarkaði er nánast engin. Munurinn á núverandi eignarhaldi orku- og veitufyrirtækjanna og einkavæddu eignarhaldi er sá að ávinningurinn af rekstrinum rennur til eigandans, almennings, í raun viðskiptavinanna, en ekki til fjárfesta. Vill almenningur hlaða undir fjármagnseigendur enn betur en nú er gert með lágum sköttum af fjármagnstekjum með því að afhenda þeim grunnþjónustuna, innviði samfélagsins og sjálfdæmi um verð þjónustunnar? Viðskiptaráð kynnti nýlega hugmyndir ráðsins um að selja fyrirtæki í opinberri eigu fyrir 800 miljarða til að greiða niður skuldir ríkisins. Í þessu sambandi voru nefnd Landsbankinn, Landsvirkjun, Íslandspóstur og Sorpa. Þetta eru einmitt fyrirtæki sem alls ekki ætti að selja einkafjármagninu. Sérstaklega væri glapræði að selja Landsvirkjun að hluta eða alveg. Verðmæti Landsvirkjunar sem stórframleiðanda hreinnar raforku er gríðarlegt og vex með hverju ári jafnframt vaxandi eftirspurn eftir raforku. Viðskiptaráð, sem er einn helsti málsvari einkavæðingar og einkafjármagns, hefur undanfarið lagt sig fram við að gylla það fyrir þjóðinni að selja áðurnefnd fyrirtæki samfélagsins til að greiða skuldir þess. Það er mun hagkvæmara fyrir samfélagið að ráða yfir og eiga þessi arðsömu fyrirtæki í fullum rekstri fremur en selja einkafjárfestum þau. Að sjálfsögðu er áhugi einkafjármagnsins á eigum samfélagsins vegna augljóss hagnaðar af því að komast yfir áðurnefnd fákeppni- og einokunarfyrirtæki og taka til sín hagnaðinn sem nú fer til samfélagsins eins og lýst var í viðtalinu sem vísað er til hér að framan. Einkaframtakið, sem nánast gerði þjóðina gjaldþrota með græðgi og glæframennsku, vill nú enn hafa af þjóðinni verðmætustu eigur hennar. Þjóðin má ekki gleyma hverjir komu hruninu yfir hana. Það var einkaframtakið, einkafjármagnið, sem átti, stjórnaði og rak bankana og fjármálakerfið í þrot. Það ber ábyrgð á fjárhagslegu hruni fjölda fjölskyldna í landinu. Fyrir hrunið voru háværar kröfur þessara sömu aðila um um einkavæðingu á nánast öllum eignum og starfsemi samfélagsins. Engin ástæða er að ætla að því sama einkaframtaki farnist betur í framtíðinni en gerðist fyrir hrun. Allir vita hvernig það fór. Einkavæðing innviða samfélagsins er glapræði.

Árni Þormóðsson

Birt í Mbl. 04.03.15


Að hagnast á innviðum samfélagsins

Í vikublaðinu Reykjavík 15. febrúar sl. var frétt að, mestu byggð á viðtali við Heiðar Má Guðjónsson, fjárfesti, um fjárfestingar hans og félagsins Ursus I slhf. í grunnþjónustu samfélagsins. Sagt er að: „félagið hefur það eina markmið að eignast fyrirtæki í grunnþjónustu samfélagsins og hagnast á slíkum kaupum“. Í stofnskrá félagsins er sagt: „Félagið mun fjárfesta með arðsemi hluthafa félagsins að leiðarljósi.“ Fleira athyglivert er í fréttinni, svosem að í hluthafasamkomulagi skuldbinda hluthafar sig til: „ að arðsemi félagsins sé ávallt hámörkuð“ og hluthafar eigi að fá „bestu mögulegu ávöxtun“ á fjárfestingu sinni. Frétt sem þessi vekur líklega ekki mikla athygli  hvað þá að fólk geri sér grein fyrir áhrifum þess sem fréttin fjallar um gæti haft á hagsmuni þess. Sókn einkafjármagns inn í grunnþjónustu samfélagsins sem ríki og sveitarfélög stofnuðu til vegna uppbyggingar atvinnulífs og menningar í landinu. Hvers vegna og til hvers sækir einkafjármagn inn í þessi fyrirtæki? Svarið er: Þetta er öruggasta fjárfesting sem völ er á. Samfélagið kemst ekki af án orku- og veitufyrirtækja. Notendur þjónustunnar neyðast til að greiða uppsett verð. Orku- og veitufyrirtækin hafa verið rekin þannig að verð á þjónustu þeirra standi undir reksturskostnaði og endurnýjun. Hagnaður fer ekki til einkafjármagns hluthafa. Þessu vill einkafjármagnið breyta. Það vill troða sér inn í þessa innviði samfélagsins. Í krafti eignarhalds er hægt að ráða verði þjónustunnar. Hækka verð hennar þannig að tekjur verði verulega umfram það sem þarf til reksturs og viðhalds fyrirtækjanna. Þannig verði fengin sú besta mögulega ávöxtun og arðsemi hlutafjár sem Ursus I slhf. stefnir að og hefur að leiðarljósi. Til þess að ná fram nefndum markmiðum einkafjármagnsins og Ursus I slhf. þarf skammsýna og einfalda stjórnmálamenn Alþingis og sveitarstjórna. Eða menn úr þeim hópi sem auðvelt er að fá á mála. Hugsanlega verður fólk sem hefur alla þessa eiginleika í framboði til sveitarstjórna í vor. Á Alþingi er nú nægur fjöldi skammsýnna stjórnmálamanna sem væru tilbúnir til að selja, t.m. Landsvirkjun að hluta eða öllu leyti vegna stundarhags. Það hefur komið fram í málflutningi þeirra. Ekki aðeins þeirra sem eru málsvarar einkafjármagnsins heldur einnig þeirra sem telja sig málsvara jafnaðarstefnu. Helgi Hjörvar, alþm. vildi, samkvæmt greinum í Mbl. í september 2008, selja eða leigja Kárahnjúkavirkjun og aðrar virkjanir Landsvirkjunar til þeirra sem kaupa orkuna. Það er engin þörf á því fyrir samfélagið eða hagur þess að selja orku- og veitufyrirtæki að hluta eða að fullu. Að selja þau er ígildi þess að selja hluta af sjálfstæði þjóðarinnar. Þetta eru fyrirtæki sem samfélagið stofnaði til framþróunar í landinu. Verðmæti þeirra vex með hverju ári. Það veit einkafjármagnið sem vill þrengja sér inn í orkuframleiðslu og grunnþjónustu og hagnast þannig á innviðum samfélagsins. Taka meira fé úr vösum almennings. Hagnaðurinn verður ekki sóttur annað.Árni ÞormóðssonBirt í Mbl. 28.02.14

Hafna ber frumvarpi Stjórnlagaráðs

  Eftirfarandi grein birtist í Morgunblaðinu 11.10.12

Hafna ber frumvarpi Stjórnlagaráðs.

Það styttist í  að þjóðinni verði boðið að kjósa um sex spurningar vegna væntanlegrar umræðu á Alþingi um frumvarp Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá fyrir Ísland. Bæklingi um málið hefur verið dreift til þjóðarinnar. Í bæklingnum er ekki fjallað um aðdraganda stjórnarskrármálsins þótt ástæða væri til að fara lauslega yfir hann.

Hugmyndir um viðamiklar breytingar á stjórnarskránni komu fram í því pólitíska upplausnarástandi sem varð í landinu eftir hrunið. Fáeinir hrópendur á mótmælafundum og greinahöfundar í dagblöðum töluðu um nýja stjórnarskrá frá grunni eða jafnvel nýtt lýðveldi og virtust álíta að orsaka fjárhagslegs hruns þjóðarinnar væri að finna í ónýtri stjórnarskrá. Stjórnarskráin væri dönsk og úrelt án þess að nefnt væri hverju þyrfti að breyta.

Upp úr þessum óljósu upphrópunum myndaðist stemming fyrir einhverjum ótilgreindum breytingum á stjórnarskránni sem málefnafátækir alþingismenn, sem sífellt leita að einhverju sem beinir athygli frá eigin úrræðaleysi, gleyptu við og komu af stað því ferli sem leiddi til sérkennilegustu kosninga sem um getur á Íslandi og voru síðar ógiltar af Hæstarétti og síðan kosningu Alþingis á Stjórnlagaráði sem skilaði frumvarpi að stjórnarskrá sem er að verulegu leyti meiningarlaust orðagjálfur óhæft sem stjórnarskrá ríkis. Allur þessi ferill er mjög sérkennilegur vegna þess að það er hlutverk Alþingis að leggja tillögur um breytingar á stjórnarskránni fyrir þjóðina. Nú tala stjórnlagaráðsmenn um frumvarp sitt sem stjórnarskrá fólksins eða stjórnarskrá frá þjóðinni í stað hinnar gömlu dönsku stjórnarskrár.

Engar kröfur höfðu verið uppi hjá einstökum alþingismönnum, stjórnmálaflokkum eða frambjóðendum til Alþingis um aðrar stjórnarskrárbreytingar, en gerðar hafa verið, í áratugi. Þó hafa á lýðveldistímanum starfað nefndir á vegum Alþingis sem fjölluðu um hugsanlegar breytingar á stjórnarskránni án þess að skila tillögum. Úti í þjóðfélaginu voru engar umræður um breytingar á stjórnarskránni í áratugi fyrir hrun. Og af hverju var svo hljótt um stjórnarskrána? Eflaust vegna þess að þjóðin var sátt við stjórnarskrána af því að hún tryggir þegnunum öll þau réttindi sem nútímaþjóðfélag krefst og þar með stjórnarfar sem er með því lýðræðislegasta sem þekkist í heiminum. Orsaka hrunsins og afleiðinga þess er ekki að finna í stjórnarskránni. Þær er að finna í veikri löggjöf um fjármálastarfsemi, lögbrotum og siðbrotum bankamanna og tiltölulega fámenns hóps fjárglæframanna ásamt almennri spillingu í stjórnkerfinu og skipulegu sinnuleysi eftirlitsstofnana og æðstu stjórnvalda. Ýmsir, t.m. nokkrir þingmenn, láta er eins og frumvarp Stjórnlagaráðs, ef það verður samþykkt, breyti stjórnmálaumhverfinu og jafnvel leysi þjóðina undan valdasjúkum og spilltum stjórnmálamönnum og því slæma stjórnkerfi sem öllu haldi í greipum sínum. Það er alrangt. Í frumvarpi Stjórnlagaráðs er ekkert sem heftir möguleika á spillingu eða breyti yfirleitt nokkru um spillingu í þjóðfélaginu, verði það samþykkt. Ekkert sem kallar á herta löggjöf gegn spillingu. Það er hinsvegar ljóst að í frumvarpinu er fjölmargt sem ylli óvissu um margt sem nú eru í föstum skorðum. Í rauninni eru margar tillögur ráðsins farsakenndar og sumar beinlínis innihaldlaust orðagjálfur. En frumvarpið er ekki alvont. Í því eru einnig greinar sem standa mega óbreyttar. En sem heild er frumvarpið að mínu mati ótækt sem stjórnarskrá lýðveldisins. Og það er einmitt það sem mestu máli skiptir.

Tillögur Stjórnlagaráðs um jöfnun á atkvæðavægi í landinu eru til bóta þótt það verði að gerast með öðrum hætti en lagt er til í frumvarpinu, og að ákvæði um að náttúruauðlindir verði þjóðareign er t.m. nauðsynlegt að komist í stjórnarskrána. Þá er einnig jákvætt að ákvæði um þjóðarákvæðagreiðslur komi skýrar inn en frumvarpið gerir ráð fyrir og með öðrum hætti og þrengri skilyrðum.

Frumvarpið að stjórnarskrá fyrir íslenska lýðveldið, sem Stjórnlagaráð skilaði Alþingi, er fullkomið að mati ráðsins. Frumvarpinu fylgdu efnismiklar greinargerðir og skýringar vegna frumvarpsins. Hin mikla vinna sem lögð var í margs konar upplýsingaöflum og greinargerðir við gerð frumvarpsins hefur að mínu mati litlu skilað til rökstuðnings á nauðsyn nýrrar stjórnarskrár eða breytingum á núverandi stjórnarskrá. Reyndar fer því fjarri að sýnt hafi verið fram á knýjandi nauðsyn sé  á stjórnarskrárbreytingum þótt einhverju megi breyta.

Mitt mat er það að þeir sem sömdu þetta frumvarp, og halda því fram að um gott verk sé að  ræða, sýni mikla sjálfumgleði og barnaskap. Skilningur þeirra á vandamálum þjóðfélagsins virðist afar takmarkaður ef þeir álíta að í þessu plaggi þeirra felist lausn á einhverjum þjóðfélagsvanda yrði það samþykkt. Þess vegna ber að hafna frumvarpi Stjórnlagaráðs í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. þ.m. 40 athugasemdir um stjórnarskrárfrumvarpið má lesa á bloggsíðu: arnithorm.blog.is

 


40 athugasmdir við stjórnarskrárfrumvarp

 

Hér að framan á blogginu eru 40 athugasemdir sem ég hef gert við einstakar greinar frumvarps Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá fyrir Ísland. Tilgangurinn með þessum athugasemdum er að reyna að sýna þeim fáu sem nenna að lesa þessi skrif mín hve farsakenndar margar tillögur ráðsins eru og sumar beinlínis innihaldlaust orðagjálfur. En í frumvarpinu eru einnig greinar sem ég tel að standa megi óbreyttar og séu jafnvel til bóta. En sem heild er frumvarpið að mínu mati ótækt sem stjórnarskrá lýðveldisins.

Hugmyndir um viðamiklar breytingar á stjórnarskránni komu fram í því pólitíska upplausnarástandi sem varð í landinu eftir hrunið. Fáeinir hrópendur á mótmælafundum og greinahöfundar í dagblöðum töluðu um nýja stjórnarskrá frá grunni eða jafnvel nýtt lýðveldi og virtust álíta að orsaka fjárhagslegs hruns þjóðarinnar væri að finna í ónýtri stjórnarskrá. Ríkisstjórnarflokkarnir núverandi sáu í þessu tækifæri til að búa til mál sem beindi athygli fólks frá vandræðagangi  þeirra í flestum málum.

Engin krafa var frá þjóðinni um stjórnarskrárbreytingar og einstakir frambjóðendur til Alþingis, alþingismenn eða stjórnmálaflokkar höfðu ekki haft uppi tillögur um stjórnarskrárbreytingar. Enda vissu menn að orsaka hrunsins var ekki að leita í göllum á stjórnarskránni. Og það er algjörlega ljóst að stjórnarskráin, eða hugsanlegir gallar á henni, áttu engan þátt í þeim vanda sem íslenska þjóðin rataði í með hruni fjármálakerfis hennar. Það eru lögbrot og siðbrot bankamanna og tiltölulega fámenns hóps fjárglæframanna sem eiga sök á vandanum ásamt almennri spillingu í stjórnkerfinu og skipulegu sinnuleysi eftirlitsstofnana og æðstu stjórnvalda. Stjórnvöld, ríkisstjórnir og Alþingi undanfarinna ára eiga þar alla sök. Gömul stjórnarskrá átti þar engan hlut að máli.

Ýmsir, t.m. þingmenn smáflokkana, láta er eins og frumvarp Stjórnlagaráðs, ef það verður samþykkt, breyti stjórnmálaumhverfinu og jafnvel leysi þjóðina undan valdasjúkum og spilltum stjórnmálamönnum og því slæma stjórnkerfi sem öllu haldi í greipum sínum. Mér sýnist að ekkert sé í frumvarpinu sem heftir möguleika á spillingu eða breyti yfirleitt nokkru um spillingu í þjóðfélaginu, verði það samþykkt. Þó er ljóst að það ylli óvissu um fjölmargt sem nú er í föstum skorðum.

Núgildandi stjórnarskrá tryggir þegnunum öll þau réttindi sem nútímaþjóðfélag krefst og þar með stjórnarfar sem er með því lýðræðislegasta sem þekkist í heiminum. Síðan er það annað mál hvers kona fólk og stjórnmálaflokka þjóðin kýs til að fara með umboð sitt á Alþingi. Þar liggur vandinn. Fólkið sem þar situr ræður oft illa við verkefni sín, stundar ómálefnalegt þras og gerir iðulega allt annað en það lofaði í kosningabaráttunni að gera kæmist það á þing.

Ástæða þess að stjórnarskráin hefur í meginatriðum verið óbreytt frá 1944 er sú að engin þörf hefur verið á öðrum breytingum á henni en gerðar hafa verið varðandi kjördæmaskipan, mannréttindi og nokkur önnur atriði. En Alþingi kaus að elta þessar óljósu hugmyndir um breytingar á stjórnarskránni, eða nýja stjórnarskrá, og efndi til kosningar til stjórnlagaþings sem Hæstiréttur ógilti. Alþingi skipaði síðan Stjórnlagaráð eftir að Hæstiréttur hafði ógilt kosningarnar til stjórnlagaþingsins. Í Stjórnlagaráðið völdust þeir sem kosningu hlutu í hinum ógiltu kosningum. Ýmsum þótti sem Alþingi sýndi Hæstarétti óvirðingu með því vali. Ég er reyndar ekki sammála því þótt frumvarp Stjórnlagaráðsins sýni að betur hafi mátt vanda til mannvalsins.

Stjórnlagaráð skilaði Alþingi frumvarpi að stjórnarskrá fyrir íslenska lýðveldið, fullkomnu að mati ráðsins. Frumvarpinu fylgdu efnismiklar greinargerðir og skýringar vegna frumvarpsins. Hin mikla vinna sem lögð var í margs konar upplýsingaöflum og greinargerðir við gerð frumvarpsins hefur að mínu mati litlu skilað til rökstuðnings á nauðsyn nýrrar stjórnarskrár eða breytingum á núverandi stjórnarskrá. Reyndar fer því fjarri að sýnt hafi verið fram á knýjandi nauðsyn sé  á stjórnarskrárbreytingum þótt einhverju megi breyta.

 Mitt mat er það að þeir sem sömdu þetta frumvarp, og halda því fram að um gott verk sé að  ræða, sýni mikla sjálfumgleði og barnaskap. Skilningur þeirra á vandamálum þjóðfélagsins virðist afar takmarkaður ef þeir álíta að í þessu plaggi þeirra felist lausn á einhverju yrði það samþykkt.

Þjóðaratkvæðagreiðsla 20. október 2012

Í atkvæðagreiðslunni verða eftirfarandi spurningar lagðar fyrir kjósendur. Svör mín við spurningunum fylgja með:

  • 1. Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?

Svar: Nei

  • 2. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign?

Svar: Já

  • 3. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?

Svar: Nei

  • 4. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í meira mæli en nú er?

Svar: Nei

  • 5. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt?

Svar: Já

  • 6. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningarbærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu?

Svar: Já

 


Stjórnarskrárklúður 40

 

Um 112. grein.

Stjórnlagaráð leggur til að greinin verði eftirfarandi:

„Öllum handhöfum ríkisvalds ber að virða mannréttindareglur sem bindandi eru fyrir ríkið að þjóðarétti og tryggja framkvæmd þeirra og virkni eftir því sem samræmist hlutverki þeirra að lögum og valdmörkum. Alþingi er heimilt að lögfesta alþjóðlega mannréttindasáttmála og umhverfissamninga og ganga þeir þá framar almennum lögum."

Athugasemd:

Rétt væri að allir samningar samkvæmt  þessari grein þurfi aukinn meirihluta til að hljóta samþykki

 


Stjórnarskrárklúður 39

 

Um 111. grein.

Stjórnlagaráð leggur til að greinin verði eftirfarandi:

„Heimilt er að gera þjóðréttarsamninga sem fela í sér framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að í þágu friðar og efnahagssamvinnu. Framsal ríkisvalds skal ávallt vera afturkræft. Með lögum skal afmarka nánar í hverju framsal ríkisvalds samkvæmt þjóðréttarsamningi felst. Samþykki Alþingi fullgildingu samnings sem felur í sér framsal ríkisvalds skal ákvörðunin borin undir þjóðaratkvæði til samþykktar eða synjunar. Niðurstaða slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu er bindandi."

Athugasemd:

Samþykki framsals ríkisvalds - fullveldis ætti, auk þess að vera afturkræft, ávallt að vera háð samþykki 2/3 hluta fullskipaðs Alþingis.


Stjórnarskrárklúður 38

 

Um 105. grein.

Stjórnlagaráð leggur til að greinin verði eftirfarandi:

„Sveitarfélög ráða sjálf málefnum sínum eftir því sem lög ákveða. Sveitarfélög skulu hafa nægilega burði og tekjur til að sinna lögbundnum verkefnum. Tekjustofnar sveitarfélaga skulu ákveðnir með lögum, svo og réttur þeirra til að ákveða hvort og hvernig þeir eru nýttir."

Athugasemd:

Greinin eins og hún er kallar á miklar breytingar á sveitarstjórnarlögum og lögum um tekjustofna sveitarfélaga.Fleiri atriði má nefna. Hver á t.d.að ákveða hvar þjónustu er best fyrir komið?

Um 106. grein.

Stjórnlagaráð leggur til að greinin verði eftirfarandi:

„Á hendi sveitarfélaga, eða samtaka í umboði þeirra, eru þeir þættir opinberrar þjónustu sem best þykir fyrir komið í héraði svo sem nánar skal kveðið á um í lögum."

Athugasemd: Athugasemd samhljóða 105 gr.


Stjórnarskrárklúður 37

 

Um 104. grein. Ákæruvald og ríkissaksóknari

Stjórnlagaráð leggur til að greinin verði eftirfarandi:

„Skipan ákæruvaldsins skal ákveðin með lögum. Ríkissaksóknari er æðsti handhafi ákæruvaldsins. Hann skal í embættisverkum sínum fara einungis eftir lögum. Ráðherra skipar ríkissaksóknara og veitir honum lausn. Ríkissaksóknari er sjálfstæður í störfum sínum og nýtur sömu verndar í starfi og dómarar."

Breytingartillaga:

Greinin hljóði svo:

„Forseti lýðveldisins skipar ríkissaksóknara  og veitir þeim lausn. Bera skal skipun ríkissaksóknara undir Alþingi og skal skipun hans hljóta 2/3 hluta atkvæða fullskipaðs Alþingis til að taka gildi.Ríkissaksóknari er sjálfstæður í störfum sínum og nýtur sömu verndar í starfi og dómarar."

Athugasemd:

Breytingartillagan skýrir sig sjálf en nefna má sem rök að ríkissaksóknari hefur sömu kjaralegu stöðu og hæstaréttardómarar.Þá virkar ríkissaksóknari í mörgum tilvikum eins og fjölskipað stjórnvald, eða dómstóll, t.m. við ákvörðun hvernig ákæra í sakamálum skuli vera ef brot gæti hugsanlega varðað fleiri en eina grein laga. Í mörgum tilvikum ætti ákvörðun um ákærur eða ákvörðun um að kæra ekki að vera ákveðnar af fleirum en einum saksóknara.

Stjórnarskrárklúður 36

 

Um 102. grein.

Stjórnlagaráð leggur til að greinin verði eftirfarandi:

„Dómarar eru þeir sem skipaðir hafa verið ótímabundið í embætti dómara eða settir til að gegna því um tiltekinn tíma. Til dómstarfa geta dómstólar ráðið eða kvatt aðra eftir því sem mælt er fyrir í lögum. Ráðherra skipar dómara og veitir þeim lausn. Dómara verður ekki vikið endanlega úr embætti nema með dómi, og þá aðeins ef hann uppfyllir ekki lengur skilyrði til að gegna embættinu eða sinni ekki skyldum sem starfanum tengjast."

Athugasemd:

Fella ber niður: „Ráðherra skipar dómara og veitir þeim lausn." Í stað þess komi: Forseti Íslands skipar dómendur og veitir þeim lausn. Skipan þeirra fer eftir ákvæðum 96. greinar stjórnarskrárinnar.

 


Stjórnarskrárklúður 35

 

Um 96. grein.

Stjórnlagaráð leggur til að greinir verði eftirfarandi:

„Ráðherrar og önnur stjórnvöld veita þau embætti er lög mæla. Hæfni og málefnaleg sjónarmið skulu ráða við skipun í embætti. Þegar ráðherra skipar í embætti dómara og ríkissaksóknara skal skipun borin undir forseta Íslands til staðfestingar. Synji forseti skipun staðfestingar þarf Alþingi að samþykkja skipunina með 2/3 atkvæða til að hún taki gildi. Ráðherra skipar í önnur æðstu embætti, eins og þau eru skilgreind í lögum, að fenginni tillögu sjálfstæðrar nefndar. Velji ráðherra ekki í slíkt embætti einn þeirra sem nefndin telur hæfasta er skipun háð samþykki Alþingis með 2/3 atkvæða. Forseti Íslands skipar formann nefndarinnar. Um nánari skipan hennar og störf skal mælt fyrir í lögum. Í lögum má kveða á um að í tiltekin embætti megi einungis skipa íslenska ríkisborgara. Krefja má embættismann um eiðstaf að stjórnarskránni."

Breytingartillaga:

Úr greininni falli:

„Þegar ráðherra skipar í embætti dómara og ríkissaksóknara skal skipun borin undir forseta Íslands til staðfestingar. Synji forseti skipun staðfestingar þarf Alþingi að samþykkja skipunina með 2/3 atkvæða til að hún taki gildi. Ákveða má með lögum að skipun í önnur embætti skuli fara fram með sama hætti."

Ákvæði um skipun í embætti dómara verði eftirfarandi:

Forseti lýðveldisins skipar dómara. Bera skal skipun dómara undir Alþingi til samþykktar. Skipun dómara í Hæstarétt Íslands skal hljóta samþykki ¾ hluta fullskipaðs Alþingis en skipun dómara Héraðsdóma 2/3 hluta atkvæða til að taka gildi. Forseti má setja dómara í dómstóla til skemmri tíma en eins árs án þess að bera það undir Alþingi. Skipun dómsvaldsins að öðru leyti verður eigi ákveðin nema með lögum."

Athugasemd:

Með ákvæðum sem eru strangari en Stjórnlagaráð leggur til og með aðkomu bæði forseta og Alþingis um embættisveitingar í dómskerfinu ætti að vera tryggt svo sem verða má að skipanir í þau embætti væru lítt umdeildar. Margar hatrammar deilur hafa orðið vegna skipunar ráðherra á dómurum. Þær deilur hafa rýrt traust á réttarfarinu og verið erfiðar þeim sem skipaðir hafa verið.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband