40 athugasmdir við stjórnarskrárfrumvarp

 

Hér að framan á blogginu eru 40 athugasemdir sem ég hef gert við einstakar greinar frumvarps Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá fyrir Ísland. Tilgangurinn með þessum athugasemdum er að reyna að sýna þeim fáu sem nenna að lesa þessi skrif mín hve farsakenndar margar tillögur ráðsins eru og sumar beinlínis innihaldlaust orðagjálfur. En í frumvarpinu eru einnig greinar sem ég tel að standa megi óbreyttar og séu jafnvel til bóta. En sem heild er frumvarpið að mínu mati ótækt sem stjórnarskrá lýðveldisins.

Hugmyndir um viðamiklar breytingar á stjórnarskránni komu fram í því pólitíska upplausnarástandi sem varð í landinu eftir hrunið. Fáeinir hrópendur á mótmælafundum og greinahöfundar í dagblöðum töluðu um nýja stjórnarskrá frá grunni eða jafnvel nýtt lýðveldi og virtust álíta að orsaka fjárhagslegs hruns þjóðarinnar væri að finna í ónýtri stjórnarskrá. Ríkisstjórnarflokkarnir núverandi sáu í þessu tækifæri til að búa til mál sem beindi athygli fólks frá vandræðagangi  þeirra í flestum málum.

Engin krafa var frá þjóðinni um stjórnarskrárbreytingar og einstakir frambjóðendur til Alþingis, alþingismenn eða stjórnmálaflokkar höfðu ekki haft uppi tillögur um stjórnarskrárbreytingar. Enda vissu menn að orsaka hrunsins var ekki að leita í göllum á stjórnarskránni. Og það er algjörlega ljóst að stjórnarskráin, eða hugsanlegir gallar á henni, áttu engan þátt í þeim vanda sem íslenska þjóðin rataði í með hruni fjármálakerfis hennar. Það eru lögbrot og siðbrot bankamanna og tiltölulega fámenns hóps fjárglæframanna sem eiga sök á vandanum ásamt almennri spillingu í stjórnkerfinu og skipulegu sinnuleysi eftirlitsstofnana og æðstu stjórnvalda. Stjórnvöld, ríkisstjórnir og Alþingi undanfarinna ára eiga þar alla sök. Gömul stjórnarskrá átti þar engan hlut að máli.

Ýmsir, t.m. þingmenn smáflokkana, láta er eins og frumvarp Stjórnlagaráðs, ef það verður samþykkt, breyti stjórnmálaumhverfinu og jafnvel leysi þjóðina undan valdasjúkum og spilltum stjórnmálamönnum og því slæma stjórnkerfi sem öllu haldi í greipum sínum. Mér sýnist að ekkert sé í frumvarpinu sem heftir möguleika á spillingu eða breyti yfirleitt nokkru um spillingu í þjóðfélaginu, verði það samþykkt. Þó er ljóst að það ylli óvissu um fjölmargt sem nú er í föstum skorðum.

Núgildandi stjórnarskrá tryggir þegnunum öll þau réttindi sem nútímaþjóðfélag krefst og þar með stjórnarfar sem er með því lýðræðislegasta sem þekkist í heiminum. Síðan er það annað mál hvers kona fólk og stjórnmálaflokka þjóðin kýs til að fara með umboð sitt á Alþingi. Þar liggur vandinn. Fólkið sem þar situr ræður oft illa við verkefni sín, stundar ómálefnalegt þras og gerir iðulega allt annað en það lofaði í kosningabaráttunni að gera kæmist það á þing.

Ástæða þess að stjórnarskráin hefur í meginatriðum verið óbreytt frá 1944 er sú að engin þörf hefur verið á öðrum breytingum á henni en gerðar hafa verið varðandi kjördæmaskipan, mannréttindi og nokkur önnur atriði. En Alþingi kaus að elta þessar óljósu hugmyndir um breytingar á stjórnarskránni, eða nýja stjórnarskrá, og efndi til kosningar til stjórnlagaþings sem Hæstiréttur ógilti. Alþingi skipaði síðan Stjórnlagaráð eftir að Hæstiréttur hafði ógilt kosningarnar til stjórnlagaþingsins. Í Stjórnlagaráðið völdust þeir sem kosningu hlutu í hinum ógiltu kosningum. Ýmsum þótti sem Alþingi sýndi Hæstarétti óvirðingu með því vali. Ég er reyndar ekki sammála því þótt frumvarp Stjórnlagaráðsins sýni að betur hafi mátt vanda til mannvalsins.

Stjórnlagaráð skilaði Alþingi frumvarpi að stjórnarskrá fyrir íslenska lýðveldið, fullkomnu að mati ráðsins. Frumvarpinu fylgdu efnismiklar greinargerðir og skýringar vegna frumvarpsins. Hin mikla vinna sem lögð var í margs konar upplýsingaöflum og greinargerðir við gerð frumvarpsins hefur að mínu mati litlu skilað til rökstuðnings á nauðsyn nýrrar stjórnarskrár eða breytingum á núverandi stjórnarskrá. Reyndar fer því fjarri að sýnt hafi verið fram á knýjandi nauðsyn sé  á stjórnarskrárbreytingum þótt einhverju megi breyta.

 Mitt mat er það að þeir sem sömdu þetta frumvarp, og halda því fram að um gott verk sé að  ræða, sýni mikla sjálfumgleði og barnaskap. Skilningur þeirra á vandamálum þjóðfélagsins virðist afar takmarkaður ef þeir álíta að í þessu plaggi þeirra felist lausn á einhverju yrði það samþykkt.

Þjóðaratkvæðagreiðsla 20. október 2012

Í atkvæðagreiðslunni verða eftirfarandi spurningar lagðar fyrir kjósendur. Svör mín við spurningunum fylgja með:

  • 1. Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?

Svar: Nei

  • 2. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign?

Svar: Já

  • 3. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?

Svar: Nei

  • 4. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í meira mæli en nú er?

Svar: Nei

  • 5. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt?

Svar: Já

  • 6. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningarbærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu?

Svar: Já

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband