Hafna ber frumvarpi Stjórnlagaráðs

  Eftirfarandi grein birtist í Morgunblaðinu 11.10.12

Hafna ber frumvarpi Stjórnlagaráðs.

Það styttist í  að þjóðinni verði boðið að kjósa um sex spurningar vegna væntanlegrar umræðu á Alþingi um frumvarp Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá fyrir Ísland. Bæklingi um málið hefur verið dreift til þjóðarinnar. Í bæklingnum er ekki fjallað um aðdraganda stjórnarskrármálsins þótt ástæða væri til að fara lauslega yfir hann.

Hugmyndir um viðamiklar breytingar á stjórnarskránni komu fram í því pólitíska upplausnarástandi sem varð í landinu eftir hrunið. Fáeinir hrópendur á mótmælafundum og greinahöfundar í dagblöðum töluðu um nýja stjórnarskrá frá grunni eða jafnvel nýtt lýðveldi og virtust álíta að orsaka fjárhagslegs hruns þjóðarinnar væri að finna í ónýtri stjórnarskrá. Stjórnarskráin væri dönsk og úrelt án þess að nefnt væri hverju þyrfti að breyta.

Upp úr þessum óljósu upphrópunum myndaðist stemming fyrir einhverjum ótilgreindum breytingum á stjórnarskránni sem málefnafátækir alþingismenn, sem sífellt leita að einhverju sem beinir athygli frá eigin úrræðaleysi, gleyptu við og komu af stað því ferli sem leiddi til sérkennilegustu kosninga sem um getur á Íslandi og voru síðar ógiltar af Hæstarétti og síðan kosningu Alþingis á Stjórnlagaráði sem skilaði frumvarpi að stjórnarskrá sem er að verulegu leyti meiningarlaust orðagjálfur óhæft sem stjórnarskrá ríkis. Allur þessi ferill er mjög sérkennilegur vegna þess að það er hlutverk Alþingis að leggja tillögur um breytingar á stjórnarskránni fyrir þjóðina. Nú tala stjórnlagaráðsmenn um frumvarp sitt sem stjórnarskrá fólksins eða stjórnarskrá frá þjóðinni í stað hinnar gömlu dönsku stjórnarskrár.

Engar kröfur höfðu verið uppi hjá einstökum alþingismönnum, stjórnmálaflokkum eða frambjóðendum til Alþingis um aðrar stjórnarskrárbreytingar, en gerðar hafa verið, í áratugi. Þó hafa á lýðveldistímanum starfað nefndir á vegum Alþingis sem fjölluðu um hugsanlegar breytingar á stjórnarskránni án þess að skila tillögum. Úti í þjóðfélaginu voru engar umræður um breytingar á stjórnarskránni í áratugi fyrir hrun. Og af hverju var svo hljótt um stjórnarskrána? Eflaust vegna þess að þjóðin var sátt við stjórnarskrána af því að hún tryggir þegnunum öll þau réttindi sem nútímaþjóðfélag krefst og þar með stjórnarfar sem er með því lýðræðislegasta sem þekkist í heiminum. Orsaka hrunsins og afleiðinga þess er ekki að finna í stjórnarskránni. Þær er að finna í veikri löggjöf um fjármálastarfsemi, lögbrotum og siðbrotum bankamanna og tiltölulega fámenns hóps fjárglæframanna ásamt almennri spillingu í stjórnkerfinu og skipulegu sinnuleysi eftirlitsstofnana og æðstu stjórnvalda. Ýmsir, t.m. nokkrir þingmenn, láta er eins og frumvarp Stjórnlagaráðs, ef það verður samþykkt, breyti stjórnmálaumhverfinu og jafnvel leysi þjóðina undan valdasjúkum og spilltum stjórnmálamönnum og því slæma stjórnkerfi sem öllu haldi í greipum sínum. Það er alrangt. Í frumvarpi Stjórnlagaráðs er ekkert sem heftir möguleika á spillingu eða breyti yfirleitt nokkru um spillingu í þjóðfélaginu, verði það samþykkt. Ekkert sem kallar á herta löggjöf gegn spillingu. Það er hinsvegar ljóst að í frumvarpinu er fjölmargt sem ylli óvissu um margt sem nú eru í föstum skorðum. Í rauninni eru margar tillögur ráðsins farsakenndar og sumar beinlínis innihaldlaust orðagjálfur. En frumvarpið er ekki alvont. Í því eru einnig greinar sem standa mega óbreyttar. En sem heild er frumvarpið að mínu mati ótækt sem stjórnarskrá lýðveldisins. Og það er einmitt það sem mestu máli skiptir.

Tillögur Stjórnlagaráðs um jöfnun á atkvæðavægi í landinu eru til bóta þótt það verði að gerast með öðrum hætti en lagt er til í frumvarpinu, og að ákvæði um að náttúruauðlindir verði þjóðareign er t.m. nauðsynlegt að komist í stjórnarskrána. Þá er einnig jákvætt að ákvæði um þjóðarákvæðagreiðslur komi skýrar inn en frumvarpið gerir ráð fyrir og með öðrum hætti og þrengri skilyrðum.

Frumvarpið að stjórnarskrá fyrir íslenska lýðveldið, sem Stjórnlagaráð skilaði Alþingi, er fullkomið að mati ráðsins. Frumvarpinu fylgdu efnismiklar greinargerðir og skýringar vegna frumvarpsins. Hin mikla vinna sem lögð var í margs konar upplýsingaöflum og greinargerðir við gerð frumvarpsins hefur að mínu mati litlu skilað til rökstuðnings á nauðsyn nýrrar stjórnarskrár eða breytingum á núverandi stjórnarskrá. Reyndar fer því fjarri að sýnt hafi verið fram á knýjandi nauðsyn sé  á stjórnarskrárbreytingum þótt einhverju megi breyta.

Mitt mat er það að þeir sem sömdu þetta frumvarp, og halda því fram að um gott verk sé að  ræða, sýni mikla sjálfumgleði og barnaskap. Skilningur þeirra á vandamálum þjóðfélagsins virðist afar takmarkaður ef þeir álíta að í þessu plaggi þeirra felist lausn á einhverjum þjóðfélagsvanda yrði það samþykkt. Þess vegna ber að hafna frumvarpi Stjórnlagaráðs í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. þ.m. 40 athugasemdir um stjórnarskrárfrumvarpið má lesa á bloggsíðu: arnithorm.blog.is

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband