Að hagnast á innviðum samfélagsins

Í vikublaðinu Reykjavík 15. febrúar sl. var frétt að, mestu byggð á viðtali við Heiðar Má Guðjónsson, fjárfesti, um fjárfestingar hans og félagsins Ursus I slhf. í grunnþjónustu samfélagsins. Sagt er að: „félagið hefur það eina markmið að eignast fyrirtæki í grunnþjónustu samfélagsins og hagnast á slíkum kaupum“. Í stofnskrá félagsins er sagt: „Félagið mun fjárfesta með arðsemi hluthafa félagsins að leiðarljósi.“ Fleira athyglivert er í fréttinni, svosem að í hluthafasamkomulagi skuldbinda hluthafar sig til: „ að arðsemi félagsins sé ávallt hámörkuð“ og hluthafar eigi að fá „bestu mögulegu ávöxtun“ á fjárfestingu sinni. Frétt sem þessi vekur líklega ekki mikla athygli  hvað þá að fólk geri sér grein fyrir áhrifum þess sem fréttin fjallar um gæti haft á hagsmuni þess. Sókn einkafjármagns inn í grunnþjónustu samfélagsins sem ríki og sveitarfélög stofnuðu til vegna uppbyggingar atvinnulífs og menningar í landinu. Hvers vegna og til hvers sækir einkafjármagn inn í þessi fyrirtæki? Svarið er: Þetta er öruggasta fjárfesting sem völ er á. Samfélagið kemst ekki af án orku- og veitufyrirtækja. Notendur þjónustunnar neyðast til að greiða uppsett verð. Orku- og veitufyrirtækin hafa verið rekin þannig að verð á þjónustu þeirra standi undir reksturskostnaði og endurnýjun. Hagnaður fer ekki til einkafjármagns hluthafa. Þessu vill einkafjármagnið breyta. Það vill troða sér inn í þessa innviði samfélagsins. Í krafti eignarhalds er hægt að ráða verði þjónustunnar. Hækka verð hennar þannig að tekjur verði verulega umfram það sem þarf til reksturs og viðhalds fyrirtækjanna. Þannig verði fengin sú besta mögulega ávöxtun og arðsemi hlutafjár sem Ursus I slhf. stefnir að og hefur að leiðarljósi. Til þess að ná fram nefndum markmiðum einkafjármagnsins og Ursus I slhf. þarf skammsýna og einfalda stjórnmálamenn Alþingis og sveitarstjórna. Eða menn úr þeim hópi sem auðvelt er að fá á mála. Hugsanlega verður fólk sem hefur alla þessa eiginleika í framboði til sveitarstjórna í vor. Á Alþingi er nú nægur fjöldi skammsýnna stjórnmálamanna sem væru tilbúnir til að selja, t.m. Landsvirkjun að hluta eða öllu leyti vegna stundarhags. Það hefur komið fram í málflutningi þeirra. Ekki aðeins þeirra sem eru málsvarar einkafjármagnsins heldur einnig þeirra sem telja sig málsvara jafnaðarstefnu. Helgi Hjörvar, alþm. vildi, samkvæmt greinum í Mbl. í september 2008, selja eða leigja Kárahnjúkavirkjun og aðrar virkjanir Landsvirkjunar til þeirra sem kaupa orkuna. Það er engin þörf á því fyrir samfélagið eða hagur þess að selja orku- og veitufyrirtæki að hluta eða að fullu. Að selja þau er ígildi þess að selja hluta af sjálfstæði þjóðarinnar. Þetta eru fyrirtæki sem samfélagið stofnaði til framþróunar í landinu. Verðmæti þeirra vex með hverju ári. Það veit einkafjármagnið sem vill þrengja sér inn í orkuframleiðslu og grunnþjónustu og hagnast þannig á innviðum samfélagsins. Taka meira fé úr vösum almennings. Hagnaðurinn verður ekki sóttur annað.Árni ÞormóðssonBirt í Mbl. 28.02.14

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband