Á að selja innviði samfélagsins

 

Sókn einkafjármagnsins í að eignast verðmætustu eignir samfélagsins hefur þyngst mjög það sem af er þessa kjörtímabils. Fjármagnseigendur sjá vini í núverandi þingmeirihluta. Vini sem í raun eru andsnúnir hagsmunum samfélagsins með stuðningi sínum við einkavæðingu samfélagseigna. Sem eru líklegir til að selja verðmætar eigur almennings til fésýslumanna. Í febrúar á síðasta ári birtist í vikublaðinu Reykjavík athygliverð grein byggð á viðtali við Heiðar Má Guðjónsson, fjárfesti, þar sem hann lýsir markmiðum sínum og félags hans Ursus I slhf. til að eignast fyrirtæki í grunnþjónustu samfélagsins og hagnast á þeim með eftirfarandi orðum: „félagið hefur það eina markmið að eignast fyrirtæki í grunnþjónustu samfélagsins og hagnast á slíkum kaupum“. Í stofnskrá félagsins er segir: „Félagið mun fjárfesta með arðsemi hluthafa félagsins að leiðarljósi.“ Fleira athyglivert er í viðtalinu, svo sem að í hluthafasamkomulagi skuldbinda hluthafar sig til: „ að arðsemi félagsins sé ávallt hámörkuð“ og hluthafar eigi að fá „bestu mögulegu ávöxtun“ á fjárfestingu sinni. Grunnþjónusta samfélagsins, sem einkafjármagnið sækist eftir að eignast eru fyrirtæki í almannaþjónustu sem samfélagið hefur frá upphafi fjármagnað og byggt upp. Þetta eru orku- og veitufyrirtæki, samgöngumannvirki, sorphirða og heilbrigðisþjónusta svo það helsta sé nefnt. Fyrirtæki sem samfélagið getur ekki verið án og eru grundvöllur þess að í landinu verði lifað menningarlífi. Þessi fyrirtæki hafa verið rekin þannig að tekjur þeirra standi undir kostnaði og skili arði til samfélagsins. Ekki til einhverra hluthafa sem hafa einsett sér að hagnast áhættulítið og á auðveldan hátt á samfélaginu. Við einkavæðingu mundi verð á orku og allri þjónustu fyrirtækjanna hækka verulega þar sem einkafjármagnið krefðist mikils arðs af eignum sínum. Arður til hluthafa einkavæddu grunnþjónustunnar verður ekki sóttur annað en til kaupenda þjónustunnar með verðhækkunum. Kaupendur þjónustunnar, almenningur, hefur ekki val. Verður að kaupa þjónustuna hjá þeim fáu sem selja hana og á því verði sem þeir ákveða eins og nú er. Samkeppni á heitavatns- og raforkumarkaði er nánast engin. Munurinn á núverandi eignarhaldi orku- og veitufyrirtækjanna og einkavæddu eignarhaldi er sá að ávinningurinn af rekstrinum rennur til eigandans, almennings, í raun viðskiptavinanna, en ekki til fjárfesta. Vill almenningur hlaða undir fjármagnseigendur enn betur en nú er gert með lágum sköttum af fjármagnstekjum með því að afhenda þeim grunnþjónustuna, innviði samfélagsins og sjálfdæmi um verð þjónustunnar? Viðskiptaráð kynnti nýlega hugmyndir ráðsins um að selja fyrirtæki í opinberri eigu fyrir 800 miljarða til að greiða niður skuldir ríkisins. Í þessu sambandi voru nefnd Landsbankinn, Landsvirkjun, Íslandspóstur og Sorpa. Þetta eru einmitt fyrirtæki sem alls ekki ætti að selja einkafjármagninu. Sérstaklega væri glapræði að selja Landsvirkjun að hluta eða alveg. Verðmæti Landsvirkjunar sem stórframleiðanda hreinnar raforku er gríðarlegt og vex með hverju ári jafnframt vaxandi eftirspurn eftir raforku. Viðskiptaráð, sem er einn helsti málsvari einkavæðingar og einkafjármagns, hefur undanfarið lagt sig fram við að gylla það fyrir þjóðinni að selja áðurnefnd fyrirtæki samfélagsins til að greiða skuldir þess. Það er mun hagkvæmara fyrir samfélagið að ráða yfir og eiga þessi arðsömu fyrirtæki í fullum rekstri fremur en selja einkafjárfestum þau. Að sjálfsögðu er áhugi einkafjármagnsins á eigum samfélagsins vegna augljóss hagnaðar af því að komast yfir áðurnefnd fákeppni- og einokunarfyrirtæki og taka til sín hagnaðinn sem nú fer til samfélagsins eins og lýst var í viðtalinu sem vísað er til hér að framan. Einkaframtakið, sem nánast gerði þjóðina gjaldþrota með græðgi og glæframennsku, vill nú enn hafa af þjóðinni verðmætustu eigur hennar. Þjóðin má ekki gleyma hverjir komu hruninu yfir hana. Það var einkaframtakið, einkafjármagnið, sem átti, stjórnaði og rak bankana og fjármálakerfið í þrot. Það ber ábyrgð á fjárhagslegu hruni fjölda fjölskyldna í landinu. Fyrir hrunið voru háværar kröfur þessara sömu aðila um um einkavæðingu á nánast öllum eignum og starfsemi samfélagsins. Engin ástæða er að ætla að því sama einkaframtaki farnist betur í framtíðinni en gerðist fyrir hrun. Allir vita hvernig það fór. Einkavæðing innviða samfélagsins er glapræði.

Árni Þormóðsson

Birt í Mbl. 04.03.15


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband