Óhagkvæm einkavæðing

Einn ötulasti talsmaður einkavæðingarinnar í landinu, Óli Björn Kárason, alþingismaður, skrifar í grein í Mbl. 5. apríl sl. að fjárfestingar í innviðum sé forsenda þess að hægt sé að standa undir kröfum um góð lífsskilyrði í landinu. Þetta er auðvitað rétt en meginefni greinarinnar er hins vegar að ítreka þá hugsjón hans að selja Flugstöð Leifs Eiríkssonar, sem er ein mikilvægasta stoð innviða samfélagsins, til einkafjárfesta. Um það segir hann m.a.:

„Sá er þetta skrifar er sannfærður um að hagsmunum almennings og fyrirtækja er betur borgið með því að nýta fjármuni í umfangsmiklar umbætur í samgöngum en að binda þá í flugstöð, sem aðrir en ríkið eru betur færir um að reka“.

Þetta eru fremur kaldar kveðjur til þeirra sem reka Flugstöðina nú eða hvaðan kemur þingmanninum sú vissa að aðrir séu betur færir um að reka hana en þeir sem það hafa gert hingað til? Er það Fjármálafyrirtækið Gamma sem hann á við að sé betur fært um að reka Flugstöðina en núverandi eigandi? Gamma gaf á sl. ári út skýrslu, ætlaða fyrir útlendinga, um vænleg fjárfestingarverkefni á Íslandi. Isavia (Keflavíkurflugvöllur Flugstöð) var eitt af mörgum vænlegum verkefnum sem Gamma taldi upp í skýrslunni sem vænlegan kost fyrir fjárfestingu útlendinga í innviðum og grunnstoðum samfélagsins.

Reynslan af einkavæðingu

Er það reynslan af einkavæðingu bankanna sem hann á við með fullyrðingu sinni um að aðrir en ríkið (Isvia) séu betur færir um reksturinn? Rétt er eð minna á að áður en bankarnir voru einkavæddir klifaði viðskiptalífið og fulltrúar þess á Alþingi á því að ríkið ætti ekki að vasast í bankastarfsemi. Því fylgdi svo mikil spilling. Það yrði að selja bankana einkafjárfestum. Og það var gert. Hver varð svo reynslan af einkavæðingu bankanna? Stórkostlegasta spilling og mesti skaði sem samfélagið á Íslandi hefur orðið fyrir og ekki sér fyrir endann á þeim málum þótt margir gerendur í því spili hafi endað í fangelsi.

Vanhugsuð áform

Litlu munaði að Íbúðalánasjóður yrði einkavæddur 2006 og afhentur bönkunum að kröfu samtaka fjármálafyrirtækja. Þáverandi ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hafði komist að samkomulagi um það í taumlausri þjónkun sinni við fjármálafyrirtækin. Hefðu þau áform tekist væri sá sjóður í eigu kröfuhafa bakanna. Að sú einkavæðing tókst ekki var einkum vegna andstöðu almennra félaga í Framsóknarflokknum.

Hverju skilar einkavæðing samfélaginu

Hverju skilaði sala og einkavæðing Símans samfélaginu? Hvað varð um söluandvirðið 66,7 miljarða? Það átti að byggja sjúkrahús fyrir þá milljarða. Þá má minna á nýlega ályktun Viðskiptaráðs sem leggur til að nánast allar fasteignir ríkisins verði seldar einkafjárfestum. Væri það gert þyrfti ríkið að leigja af fjárfestunum fasteignirnar undir starfsemina sem í þeim er. Fjárfestar kaupa ekki fasteign til annars en að ná andvirði þeirra fljótt aftur ásamt ríflegum arði til hluthafa.

Gamalkunnur áróður

Skrif þingmannsins er gamalkunnur áróður þeirra sem vilja koma öllum arðberandi verðmætum samfélagsins í hendur einkafjárfesta. Sérstaklega grunnstoðum innviðanna svo sem orku- og veitufyrirtækjum og samgöngumannvirkjum. Þar yrðu tekjur fjárfestanna öruggastar vegna þess að án þeirra fyrirtækja getur samfélagið ekki verið. Almenningur er háður þjónustu þeirra og verður að borga uppsett verð. Flugstöð Leifs Eiríkssonar og Keflavíkurflugvöllur, sem er hlið fólksflutninga til og frá landinu, er vel statt fyrirtæki sem skilar arði sem fer í uppbyggingu og eignaaukningu. Ríkið þarf ekki að leggja fé í framkvæmdir við stækkun Flugstöðvarinnar sem hefur fjármagnað framkvæmdir án beinnar ríkisábyrgðar. Það fyrirtæki á skilyrðislaust að vera í fullri eign og umráðum ríkisins þannig að tekjur af starfseminni gangi óskiptar til samfélagsins.

Þrýstingur á stjórnmálamenn

Fésýsluöflin leggjast með miklum þunga á stjórnmálamenn og telja sig nú eiga hollvini frjálshyggjunnar á Alþingi. Auk Óla Björns hefur m.a. forsætisráðherra, fjármálaráðherra og ferðamála- og iðnaðarráðherra lýst jákvæðri afstöðu til sölu Flugstöðvarinnar, Keflavíkurflugvallar, Landsnets og Landsvirkjunar. Almenningur þarf að átta sig á að sala ríkisins, á fasteignum og fyrirtækjum til einkafjárfesta er að færa fjármuni frá ríkinu, almenningi, í vasa fjárfestanna. Fjárfesta sem nú sjá helstu gróðamöguleika sína í að komast yfir verðmætar eigur samfélagsins. Fjárfesta sem virðast ekki geta fundið fjármagni sínu farveg í nýsköpun verðmæta. Þeim hentar betur er að komast yfir fyrirtæki sem samfélagið hefur byggt upp á áratugum og borið alla áhættu frá upphafi.

Birt í Mbl. 20.04.17


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband