Verður Ríkisútvarpið eyðilagt

Verður Ríkisútvarpið eyðilagt?
Enn er sóknin að Ríkisútvarpinu hert. Það hefur lengi verið krafa margra sem reka fjölmiðla, einkum þeirra sem reka ljósvakamiðla, að Ríkisúrvarpið verði tekið af auglýsingamarkaði. Nýlega skoruðu fimm stjórnendur einkarekinna ljósvakamiðla, þ.e. Símans, 365 fjölmiðla, sjónvarpsstöðvarinnar ÍNN, Útvarps Sögu og miðla Hringbrautar, á stjórnvöld að taka Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði eigi síðar en um næstu áramót. Jafnframt leggja þessir aðilar til að útvarpsgjald verði hækkað til fyrra horfs og þannig verði tryggð áframhaldandi starfsemi RÚV. Greiðendur útvarpsgjalds eiga samkvæmt þessari kröfu að bæta upp það sem frá RÚV er tekið og fært þeirra fölmiðlum. Þetta kalla stjórnendurnir að gera „nauðsynlegar, málefnalegar og tímabærar breytingar á íslenskri löggjöf til þess að jafna samkeppnisstöðu félaga á íslenskum fjölmiðlamarkaði“. Þessi krafa fjölmiðlanna er einfaldlega krafa einkarekinna fjölmiðla um ríkisstyrk. Krafa um að þeim verði færðar tekjur sem Ríkisútvarpið hefur haft af auglýsingum frá upphafi. Skattborgarar verði látnir borga tekjutap RÚV. Þannig á almenningur beinlínis að borga fyrir starfsemi þessara einkareknu miðla sem allir urðu til áratugum seinna en RÚV. Þessi einkafyrirtæki hafa væntanlega reiknað með í rekstraráætlunum sínum við stofnun að afla tekna á auglýsingamarkaði í samkeppni sem þau stofnuðu til við RÚV. Eða hafa þessi félög alltaf reiknað með að þeim yrðu færðar auglýsingatekjur RÚV á kostnað skattborgaranna? Greiðendur útvarpsgjalds hljóta að eiga rétt á að njóta auglýsinga í dagskrá sinna miðla. Stöð 2 selur dagskrá sína í áskrift og þar eru auglýsingar hluti af dagskránni. Líta verður á RÚV sjónvarp sem það sé í áskrift vegna útvarpsgjaldsins sem þorri landsmanna greiðir og eru auglýsingar hluti dagskrárinnar. Verði RÚV tekið af auglýsingamarkaði á að sjálfsögðu að taka Stöð 2 ásamt öðrum áskriftarstöðvun, ef til eru, af auglýsingamarkaði. Einkareknu sjónvarpsstöðvarnar, sem ekki selja dagskrá sína í áskrift, sóma sér vel í fjölmiðaflórunni og hafa staðið sig ágætlega í að framleiða og sýna innlent efni. En það á ekki að þýða að þegar þær stöðvar vilja auka umfang sitt eigi þær að ganga í tekjustofna RÚV með þeim hætti sem stjórnendur einkastöðvanna leggja til og fjármagna þannig starfsemi sína. Það sama á við um einkareknu útvarpsstöðvarnar. Þessir ljósvakafjölmiðlar verða að leita annarra leiða til að auka umfang starfsemi sinnar. Þeir eiga að sjálfsögðu að sýna yfirburði sína í einkarekstri og taka áhorfið frá RÚV með því að sýna betra og fjölbreyttara efni. Það væri heilbrigð samkeppni. Auglýsendur fara þangað sem áhorfið er mest. Nú er áhorf og hlustun mest á RÚV og því væntanlega mestur árangur af því að auglýsa þar. Áskorendum ofnagreindra fjölmiðla virðist þykja það réttlátt gagnvart auglýsendum að takmarka val þeirra á fjölmiðlum til að birta í auglýsingar sínar. Það er undarlegt réttlæti og getur varla verið í anda hinnar frjálsu samkeppni. Það er augljóst að ef kröfur ljósvakamiðlana ná fram að ganga verður RÚV að skerða dagskrá sína enn frekar en orðið er. RÚV hefur á undanförnum árum látið undan síga í starfsemi sinni vegna þess að pólitískir ráðamenn hafa gefið eftir og viljað takmarka getu RÚV til dagskrárgerðar og því tekið hluta útvarpsgjaldsins til annarra þarfa ríkisins. Ljósvakamiðlar sem vissu við stofnun þeirra að þeir yrðu í samkeppni við RÚV eiga að spjara sig án ríkisstyrks en ekki ganga fyrir tekjum sem teknar eru frá RÚV með valdi. Að taka RÚV af auglýsingamarkaði er eyðilegging þessarar mikilvægu menningarstofnunar.

Birt í Mbl. 23.07.16


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband