Gamma kallar á innviðina


Fjármálafyrirtækið Gamma hefur gefið út skýrslu sem á að sýna útlendingum hagkvæmni þess að festa fé sitt í grunnstoðum og innviðum íslensks samfélags. Áróður fyrir aðkomu einkafjármagns, þ.e. fjármálafyrirtækja, að nýbyggingu og rekstri nauðsynlegra grunnstoða samfélagsins hefur aukist mjög að undanförnu. Fjármálafyrirtæki leggja talsvert í að reka áróður fyrir hagkvæmi þess að samfélagið selji til þeirra fyrirtæki sem eru innviðir samfélagsins. Skýrslur þeirra um þetta fá mikla auglýsingu í fjölmiðlum. Vafasömum málflutningi er beitt við að útbreiða boðskap fjárfestanna um hagkvæmi þess að þeir eigi og reki helstu innviði samfélagsins. Til að gera boðskapinn trúverðugan í augum almennings er skýrslunum gefið fræðilegt yfirbragð af fræðimönnum, gjarnan tengdum fjármálafyrirtækjunum, sem rita jákvætt um efni þeirra. Skýrslurnar eiga ekki síst að sýna stjórnmálamönnum Alþingis og sveitarstjórna fram á hagkvæmi þess að ríki og sveitarfélög losi sig frá rekstri sem flestra mikilvægustu grunnstoða samfélagsins og fái þær fjárfestum í hendur. Allt á þetta á við fyrirtæki sem samfélagið getur ekki verið án svo sem orku- og veitufyrirtæki, samgöngumannvirki og ýmis þjónustufyrirtæki, sem sækja tekjur sínar beint og óbeint til almennings. Fyrirtæki og mannvirki sem samfélagið hefur byggt upp á löngum tíma til framþróunar samfélagsins og án aðkomu fjárfesta. Fjárfesta sem nú sjá mikla möguleika á hagnaði orkufyrirtækja vegna hækkandi orkuverðs í heiminum. Rekstur vatnsveitna og holræsa sveitarfélaga sem yrðu í eigu fjárfesta verðlegðu þjónustu þeirra með öðrum hætti en nú er gert þar sem eigendurnir krefðust arðs af hlutafé sínu. Tekjur slíkra fyrirtækja er öruggar. Almenningur verður að greiða uppsett verð og samkeppni er engin. Þá er fyrirsjáanlegur mikill hagnaður Landsvirkjunar á næstu árum af raforkusölu til stóriðju. Í þann hagnað vilja fjárfestar komast með því að kaupa sig inn í eða kaupa allt fyrirtækið. Orkufyrirtæki sem eru í opinberri eigu og dreifa og selja orku til almennra nota eru rekin þannig að rekstartekjur standi undir kostnaði og skili hóflegum arði til eigandans sem er samfélagið. Ekki til hluthafa fjárfestingarfélaga, sem að hluta eða öllu leyti væru í eigu útlendinga sem flyttu arðinn úr landi. Í skýrslunni sem Gamma fjármálafyrirtæki gaf nýlega út, og ætluð er til að benda útlendum fjárfestum á möguleika á hagkvæmum fjárfestingum í innviðum samfélagsins á Íslandi eru tilgreind, samkvæmt frétt sem birtist í Markaðnum, fylgirti Fréttablaðsins, „vænleg innviðaverkefni svo sem Sundabraut, Stækkun Hvalfjarðarganga, Breikkun vega, Orkufyrirtæki, Landsnet, Isavia (alþjóðaflugvöllur), Sæstrengur til Bretlands, Landspítali, Léttlestakerfi á höfuðborgarsvæðinu, Lest milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar“. Gísli Hauksson, forstjóri Gamma segir m.a. í viðtali í Markaðnum: „Vextir í heiminum hafa verið í sögulegu lágmarki sem þýðir að lánsfé er sögulega ódýrt. Fjárfestar þurfa því að hafa talsvert fyrir því að finna fjárfestingar sem skila viðunandi ávöxtun.“ Og síðar segir Gísli: „Við höfum fundað með stórum innviðafjárfestum beggja vegna Atlantshafsins og finnum fyrir miklum áhuga þeirra á að fjárfesta í innviðaverkefnum hér á landi.“ Samkvæmt þessu virðist Gamma vera að gylla fyrir útlendum fjárfestum að vænlegt sé að hagnast á íslendingum. Hér væri mögulegt að fá meiri arð af fé þeirra en fáist með þeim lágu vöxtum, sem Gísli segir að séu í sögulegu lágmarki, með því að kaupa fyrirtæki sem eru innviðir samfélagsins á Íslandi. Arður fjárfestanna fengist aðeins með hækkun allra þjónustugjalda fyrirtækjanna. Með því væru lagðar byrðar á almenning í þágu fjárfesta. Ekki vegna hagsmuna samfélagsins. Engin framkvæmd vegna innviða samfélagsins er svo nauðsynleg og aðkallandi að verjandi sé að selja eitthvað af grunnstoðum og innviðum samfélagsins hennar vegna. Öllum ætti að vera ljóst hve mikið glapræði það væri að selja þær og þar með hluta sjálfstæðis þjóðarinnar í hendur fjárfesta. Eru íslenskir stjórnmálamenn tilbúnir til að láta teyma sig í slík viðskipti?
Árni Þormóðsson
Birt Mbl. 17.11.16

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband