Glapræði að selja fasteignir ríkisins


Viðskiptaráð Íslands birti nýlega úttekt á fasteignum ríkissjóðs. Úttektin á að sýna almenningi og stjórnmálamönnum að það sé mjög óhagkvæmt fyrir ríkið að eiga fasteignir sem hýsa stofnanir samfélagsins. Nær væri að selja fjárfestum nánast allt húsnæði ríkisstofnana og leigja það síðan af fjárfestunum, væntanlega undir sömu starfsemi og í þeim er t.m. skóla. Fasteignarekstur eigi heima hjá einkaaðilum segir í úttektinni sem telur það sóun og áhættu hjá ríkinu að eiga húsnæði til eigin nota. Úttektin er áróður ætlaður til að blekkja stjórnmálamenn og almenning í þágu fjárfesta sem ásælast nú verðmætar eigur samfélagsins með auknum þunga. Áróðurinn er m.a. fólginn í því að útlista hve óhagkvæmt sé að ríkið eigi fasteignirnar sem það notar. Því til rökstuðnings segir m.a. í úttektinni: â€žÍ þriðja lagi skapar opinber fasteignarekstur hagsmunaárekstra. Þannig leigir ríkið sjálfu sér húsnæði sitt og situr því beggja megin borðsins í samningaviðræðum“ Það var og. Hvernig ætli sé að semja við sjálfan sig? Í hverju eru hagsmunaárekstrarnir fólgnir? Margar mótsagnir eru í þessari úttekt VÍ og langt frá því að hún sýni fram á hagkvæmi þess að „stjórnmálamenn leiti leiða til að lágmarka eignarhald ríkisins á fasteignum“ eins og sagt er í úttektinni. Úttekt sem þessi gæti hins vegar dugað til að blekkja stjórnmálamenn til að selja fjárfestum húsnæði ofan af stofnunum samfélagsins og leigja það síðan af þeim undir sömu starfsemi. Stjórnmálamönnum hafa oft verið mislagðar hendur við stjórn fjármála ríkis og sveitarfélaga vegna blindrar trúar sinnar á einkareksturinn og andfélagslegra viðhorfa. Í því sambandi má nefna einkavæðingu bankanna og fjárhag sveitarfélaga eins og t.m. Hafnarfjarðar og Reykjanesbæjar sem seldu frá sér verðmætar eigur sem sveitarfélögin leigðu síðan undir sömu starfsemi. Ekki er í úttekt VÍ minnst á þá áhættu sem fólgin væri í því að afhenda einkaaðilum ráð á öllu húsnæði sem hið opinbera þarf að nota eða þau völd sem þeim væru fengin með slíkri eignasöfnun frá samfélaginu. Einkaaðilarnir réðu leiguverðinu. Samningsaðstaða ríkisins væri þröng þar sem það hefði selt ofan af stofnunum sínum. Ekki er í úttektinni minnst á þann arð sem einkaaðilar tækju sér af leigu fasteigna sem þeir keyptu af ríkinu og leigðu því aftur. Arðs sem nú er hjá ríkinu sem eiganda fasteignanna, fólginn í lægri útgjöldum ríkisins vegna fasteignanna sem það á og notar undir starfsemi.Samtök eins og Viðskiptaráð Íslands hafa það hlutverk að gæta hagsmuna viðskiptalífsins og efla „skilning“ almennings á frjálsræði í viðskiptum. VÍ og önnur svipuð samtök svo sem Samtök fjármálafyrirtækja og einstök fyrirtæki tengd þeim hafa ítrekað lagt til að samfélagið selji fjárfestum öll helstu verðmæti samfélagsins svo sem Landsvirkjun, Keflavíkurflugvöll og mikilvæg veitu- og samgöngumannvirki. Fjármálafyrirtækið Gamma upplýsti nýlega í fjölmiðlum að það hefði fundað með fjárfestum beggja vegna Atlantshafsins til að kynna þeim að hér á landi væri hægt að græða meira á samfélaginu en víða annarsstaðar. Öll starfsemi samtaka fyrirtækja og einstaklinga í fjármálastarfsemi miðar að því að efla og verja hagsmuni þeirra. Ekki hagsmuni almennings. Almenningur þarf að vera vel á verði gagnvart „fínum“ skýrslum og úttektum fjármálafyrirtækja og skyldum félögum sem eiga að sýna hagkvæmni þess að fjarfestar eignist innviði samfélagsins. Engar niðurgreiðslur skulda ríkisins eða framkvæmdir á þess vegum eru svo nauðsynlegar og aðkallandi að verjandi sé að selja eitthvað af grunnstoðum og innviðum samfélagsins þeirra vegna. Slíkt væri glapræði og afsal á hluta sjálfstæðis þjóðarinnar í hendur fjárfesta. Almenningur þarf að fylgjast með því hvaða stjórnmálamenn og samtök taka undir áróður VÍ og fjármálafyrirtækja. Öllum ætti að vera ljóst að innviðir samfélagsins, þ.e. fasteignir sem notaðar eru til samfélagslegra þarfa, orku- og veitufyrirtæki, samgöngumannvirki og ýmis þjónustufyrirtæki sem sækja tekjur sínar beint eða óbeint til almennings eiga að vera í eigu og stjórn samfélagsins. Sé þessum þáttum samfélagsins ekki stjórnað á viðunandi hátt verður að skipta um stjórnendur en ekki láta fyrirtækin af hendi til fjárfesta.
Birt í Mbl. 11.02.17

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband