Á að taka RÚV af auglýsingamarkaði?

Atlaga einkarekinna fjölmiðla, einkum ljósvakafjölmiða, að Ríkisútvarpinu, sem hófst fyrir allmörgum árum með því að þeir kröfðust þess að RÚV yrði tekið af auglýsingamarkaði heldur áfram. Nú með stuðningi nefndar sem menntamálaráðherra skipaði. Rökin eru þau að samkeppnisstaða einkareknu fjölmiðlana gagnvart RÚV væri mjög veik. Þeir berðust í bökkum og væru reknir með tapi. Nú er það svo að allir ljósvakafjölmiðlar, sem eru með daglega starfsemi, eru stofnaðir áratugum eftir að RÚV hóf starfsemi sína. Sama á við um prentmiðla, aðra en Morgunblaðið, sem er eldra en RÚV. Þessi ítrekaða krafa einkareknu fjölmiðlanna er einfaldlega krafa þeirra um ríkisstyrk. Krafa um að þeim verði færðar tekjur sem RÚV hefur haft af auglýsingum frá upphafi. Þetta er ekki einungis krafa um að svipta RÚV tekjum og færa þær til þeirra. Þetta er einnig krafa um að svipta notendur RÚV, sem er meirihluti þjóðarinnar, þeirri þjónustu og dagskrárefni, sem tilkynningar og auglýsingar eru.

Sjöfalt áskriftargjald RÚV

Greiðendur útvarpsgjalds, sem er þorri landsmanna, eru í raun áskrifendur að RÚV, hljóta að eiga rétt á að njóta auglýsinga og þeirra upplýsinga, sem í þeim felast, í dagskrá sinna miðla. Ljósvakafjölmiðlarnir, sem ekki selja sig í áskrift, hafa væntanlega reiknað með því í upphafi að afla auglýsingatekna í þeirri samkeppni, sem þeir stofnuðu til við RÚV og Stöð 2. Stöð 2, sem er áskriftarfjölmiðill, býður ódýrasta „áskriftarpakkann“ á kr. 9.990,- á mánuði eða kr. 119.880 á ári á meðan útvarpsgjald er á einstakling kr. 17.100,- á ári, sem RÚV fær reyndar ekki allt. Áskrifendur Stöðvar 2 greiða sjöfalt áskriftargjald RÚV fyrir að horfa á auglýsingar í dagskrá í þess sjónvarps. RÚV hefur á undanförnum árum orðið að draga úr starfsemi sinni vegna þess að pólitískir ráðamenn hafa viljað takmarka getu RÚV til dagskrárgerðar og því tekið hluta útvarpsgjaldsins til annarra þarfa ríkisins.

Auglýsendur þvingaðir

Takmörkun á starfsemi RÚV er að sjálfsögðu til hagsbóta fyrir einkareknu fjölmiðlana. Ljósvakafjölmiðlar, sem ekki eru í áskrift, ættu að leita annarra leiða en að sækja í tekjur RÚV til að tryggja starfsemi sína. Þeir stofnuðu til samkeppni við RÚV, sem fyrirsjáanlega yrði erfið, og eiga því að að sýna yfirburði einkareksturs með því taka áhorfið frá RÚV með betri dagskrá. Það væri heilbrigð samkeppni. Auglýsendur fara þangað sem áhorfið er mest. Nú er áhorf og hlustun mest á RÚV og því væntanlega mestur árangur af því að auglýsa þar. Talsmönnum einkareknu fjölmiðlanna virðist þykja það réttlátt gagnvart auglýsendum, sem þeir sækjast eftir viðskiptum við, að takmarka val þeirra á fjölmiðlum til að birta í auglýsingar sínar og þvinga þá til að auglýsa ekki þar sem áhorf og hlustun er mest. Slíkt er undarlegt réttlæti og furðuleg túlkun á anda hinnar frjálsu samkeppni, en það eru einmitt þeir, sem í stjórnmálum eru, og telja sig hina einu sönnu talsmenn frjálsrar samkeppni og viðskiptafrelsis, sem ákafast vilja taka RÚV af auglýsingamarkaði. Nefndin var ekki einhuga Nefndin, sem mennta- og menningarmálaráðherra skipaði til að fjalla um bætt rekstarumhverfi einkarekinna fjölmiðla, skilaði í janúar skýrslu um umfjöllunarefni sitt og tillögum til úrbóta á rekstrarumhverfi fjölmiðla.

Nefndin var ekki einhuga.

Meirihluti nefndarinnar lagði til að RÚV færi hið fyrsta af auglýsingamarkaði og lagðist þar með á sveif með hagsmunum einkareknu fjölmiðlana gegn hagsmunum almennings og auglýsenda. Ef einkareknir fjölmiðlar þurfa ríkisaðstoð við að auka umfang sitt á það ekki að þýða að þeir fái að ganga í tekjustofna RÚV með þeim hætti sem stjórnendur einkastöðvanna, og talsmenn þeirra í stjórnmálunum leggja til. En á ríkið að styrkja einkarekna fjölmiðla? Já það getur verið æskilegt og jafnvel nauðsynlegt til að stuðla að málefnalegri umræðu um þjóðmál og landshlutabundin málefni ásamt margskonar menningarlegri starfsemi, sem héraðsfréttablöð og minni sjónvarpsstöðvar gera í dag. Þannig styrkir ættu að ákvarðast í fjárlögum samkvæmt reglum um slíkar styrkveitingar án þess að leiða til beinnar skerðingar á starfsemi RÚV. Árni Þormóðsson

Birt í Mbl. 2018-03-03


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband