Undarleg jafnaðarmennska



Undarleg
jafnaðarmennska.

Það er undarleg jafnaðarmennskan í Samfylkingunni og Vinstri grænum. Í fréttaviðtali á RÚV 12.05 setur Helgi Hjörvar, alþingismaður, þá kröfu að lífeyrissjóðir gefi eftir fjármuni sem þeir hafa lánað sjóðfélögum gegn veðum í eignum sem lántakar eiga ekki. Steingrímur J. ítrekar þessa kröfu
í þingræðu 15.05. Þetta er krafa um ólögmæta eignaupptöku lífeyrissparnaðar sjóðfélagana. Sem þýðir að lífeyrisþegar nútíðar og framtíðar eiga að greiða niður lán sem eru þeim flestum algerlega óviðkomandi. Með þessu vilja jafnaðarmenn láta tiltekinn hóp manna, ekki þjóðina alla, gjalda fyrir ástand sem rekja má til óstjórnar ríkisstjórna, sem m.a. þessir jafnaðarmenn bera að hluta ábyrgð á og óþarft er að rekja hér. Helgi Hjörvar og Steingrímur J. og félagar þeirra, eru reyndar ójafnaðarmenn, sem vilja fénýta eigur fólks, lífeyrisþega, sem ekki hafa  möguleika á öðrum tekjum en lífeyrinum á ævikvöldinu, í þágu fólks sem flest er á vinnumarkaði, væntanlega enn um langa framtíð. Með þessari kröfu er ekki verið að hirða um hag þeirra sem veikasta stöðu hafa til tekjuöflunar.

Það eru furðulega margir sem virðast ekki gera sér grein fyrir að fjármunir lífeyrissjóða eru sparnaður sjóðfélaga til greiðslu örorku- og ellilífeyris. Allt tap og afskriftir fjármuna lífeyrissjóðanna þýðir lækkun á lífeyrisgreiðslumtil sjóðfélaga. Ávöxtun sjóðanna og verðtrygging þeirra er nauðsynleg til að þeir geti greitt sjóðfélögum  lífeyri, sem er nálægt raunvirði iðgjalda sem sjóðfélagar greiddu til sjóðanna á starfsævinni, þegar þar að kemur.

Almennu lífeyrissjóðirnir eru verðtryggðir að því leyti sem þeir ávaxta fé sitt með verðtryggðum
útlánum, en 1979 var með lögum heimiluð verðtrygging lána. Fyrir þann tíma var óheimilt að verðtryggja lán. Þá eyddust fjármunir í óðaverðbólgu. Það var því almenn krafa sjóðfélaga og verkalýðsfélaga, á þeim tíma, að lífeyrissjóðirnir væru verðtryggðir. Frá 1980 hafa lífeyrissjóðirnir nær eingöngu lánað verðtryggð lán. Hefði verðtryggingin ekki verið tekin upp hjá lífeyrissjóðunum þá
væru þeir í dag ófærir um að greiða nema hluta þess lífeyris sem þeir greiða í
dag. Er það ástand sem menn vildu sjá í dag?

Í umræðunni um afleiðingar „hrunsins" er oft ráðist á verðtrygginguna sem einn mesta bölvald skuldugs almennings vegna mikilla krónutöluhækkana fjárskuldbindinga. Oft skuldbindinga sem eigin hús og annarra voru veðsett fyrir án þess að lánsfjárhæðin væru öll notuð til öflunar húsnæðis. Gjarnan er litið framhjá því að lánveitandinn þurfi að fá raunvirði þess sem hann lánaði til baka.Ella væri hann að tapa fjármunum.Verðlækkun fasteigna frá yfirverði æðis „uppsveiflunnar" eiga ekki sérstaklega að leiða til lækkunar á kjörum lífeyrisþega. Sé pólitískur vilji til að greiða niður lán þeirra sem tóku lánsveð fyrir lánum sínum er réttast að það sé gert af skattreiðendum almennt. Stjórnmálamenn ræða lítið um orsakirástandsins í þjóðfélaginu. Þeir reyna að láta sem svo að verðbólgan sé einhverskonar náttúrulögmál. Óviðráðanleg og þeir hafa jafnan haft lag á því að kenna einhverju öðru en eigin getuleysi um það sem miður fer í þjóðfélaginu. En það er nú samt svo að öll vandræði íslenska þjóðfélagsins í dag eru á ábyrgð stjórnmálanna í landinu fyrr og síðar. En með því að ráðast sérstaklega að kjörum lífeyrisþega eins og fyrirhugað er bæta stjórnarflokkarnir enn einu hneykslinu við skömm sína.

Árni Þormóðsson

Birt í Mbl. 19.05.12


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband