Hefndin

 

 Hefndin

Ekki stóð lengi á hefndaraðgerðum útgerðarinnar vegna veiðigjaldsins. Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum hefur boðað uppsögn 41 starfsmanna að sögn vegna ofurskattlagningar sem fólgin er í veiðigjaldinu sem samþykkt var á Alþingi í þinglokin. Framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar segir þetta reyndar vera varúðarráðstöfun þar sem ekki sé enn ljóst hvert veiðigjaldið (skattlagningin) verður. Það liggur mikið við fyrir útgerðina að koma höggi á ríkisstjórn og Alþingi. Ekki verður horft í kostnaðinn. Það verður að halda vel á spöðunum fram að næstu alþingiskosningum, sem verða eftir tíu mánuði, ef takast á að koma Sjálfstæðisflokknum til valda en sá flokkur hefur lofað því að afturkalla veiðigjaldið fái hann vald til þess. Enda er flokkurinn og málgagn hans og útgerðarmanna Morgunblaðið gerður út af útgerðinni til að gæta hagsmuna hennar gegn hagsmunum almennings. Nú á að sanna hverskonar flan það var hjá Alþingi að skerða gróða útgerðarmanna með því að láta þá greiða brot af gróða sínum af braski með veiðiheimildir til samfélagsins. Það verður gert með því að gera verkafólk og sjómenn atvinnulaust og tekjulaust. Það er auðvelt að blekkja fólk í nauðum, sérstaklega þegar að því hafur verið unnið skipulega lengi að telja fólki trú um að útgerðir þoli alls ekki veiðigjöldin. Þannig atti útgerðin sjómönnum með sér í mótmæli gegn veiðigjöldunum með því að sigla skipum sínum til Reykjavíkur og láta þá standa á Austurvelli undir ræðum útgerðarmanna. Hvað áttu mennirnir að gera? Komnir til Reykjavíkur á skipum útgerðarinnar og það færi ekki framhjá neinum hverjir sætu eftir um borð. Auk þess hefur auðvitað skefjalaus ósannur hræðsluáróður útgerðarmanna undanfarna mánuði fyllt sjómennina efasemdum um réttmæti veiðigjaldsins. Efinn segir: Hugsanlega væri þetta allt rétt hjá útgerðarmönnum. Getur verið að útgerðarmennirnir séu svo ómerkilegir að skrökva svo grimmt að okkur? Þeir hella yfir okkur tölum sem við höfum ekki möguleika á að sannreyna. Þannig hugsa áreiðanlega margir. En hinsvegar vita allir sjómenn að sá þeirra sem talar gegn hagsmunum útgerðarmanna tapar plássinu. Landvinnslufólk sem vinnur hjá þeim sem eiga fiskvinnslu og útgerð og vinna eigin afla er undir sömu pressu sérstaklega það fólk sem gegnir einhverskonar yfirmannsstöðum. Auðvitað ætti fólk að spyrja sig hvort það sé ástæða til að trúa þeim sem beita slíkum kúgunaraðferðum. Er eitthvað vit í að trúa slíkum föntum? Er ekki líklegt að þeirra sannleikur sé af sama meiði og kúgunaraðferðir þeirra? Nefnilega óheiðarleg barátta fyrir eigin hag algerlega án tillits til samfélagsins. Það er skipt um andlit þegar þeir fá ekki það sem þeir ætlast til fyrir jólabónusana og kaupaukana; algera hlýðni og stuðning við þeirra hagsmuni sem eru mög hundruð faldir jólabónusar. Þú getur bara farið í aðra vinnu. Þú ert á móti okkur er sagt við þá sem kyngja ekki öllu sem útgerðarmennirnir segja. Fréttir af fyrirhuguðum uppsögnum hjá Vinnslustöðinni eru birtar athugasemda- og spurningalaust í fjölmiðlunum. Engar spurningar eins og allir eigi að skilja brýna nauðsyn þess fyrir útgerðina, sem verði í miklum þrengingum, að draga starfsemina saman. Líklega verða þeir að hætta að fiska! En það er ekki nóg með að ráðandi hluthafar í útgerðarfélögum kúgi starfsmenn sína. Þeir kúga líka minnihlutann í eigin félögum. Það má lesa í viðtali við Guðmund í Brimi í Mbl. 30.06. Hann telur uppsagnirnar hjá Vinnslustöðinni „látaleik". „Guðmundur vísar á bug þeim málflutningi Sigurgeirs (í Vinnslustöðinni) að veiðigjöldin eigi þátt í uppsögnum á 41 starfsmanni og fyrirhugaðri sölu Gandís" segir í viðtalinu. Þá telur Guðmundur arðgreiðslur til hluthafa Vinnslustöðvarinnar óeðlilegar. Peningana hefði átt að nýta til uppbyggingar félagsins. Fyrirtækið sé illa rekið. Ekki þarf frekari vitna við en Guðmund, sem þekkir vel til í heimi útgerðarinnar, til að sýna að málflutningur útvegsmanna er algerlega rangur. Hræðsluáróður til að rugla almenning í rýminu og til að kúga Alþingi.

30.06.12


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband