Til varnar Íbúðalánasjóði

 

Til varnar Íbúðalánasjóði

Á síðasta tímabili ríkisstjórnarsamstarfs Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins höfðu leiðtogar flokkanna komið sér saman um að leggja Íbúðalánasjóð niður í þeirri mynd sem hann hafði verið. Leggja sjóðinn niður og afhenda hann bönkunum. Nóg er til af gögnum sem staðfesta þetta, m.a. viðtöl við ráðherra í fjölmiðlum. Ráðherrar Framsóknarflokksins gerðu þetta samkomulag við sjálfstæðismenn í óþökk meirihluta félaga í Framsóknarflokknum enda voru þessar fyrirætlanir stöðvaðar af flokksþingi Framsóknarflokksins. Þeim vannst ekki tími til að eyðileggja Íbúðalánasjóðinn áður en stjórnarsamstarfi þeirra við sjálfstæðismenn lauk.

Það er verðugt umhugsunarefni fyrir landsmenn að geta sér til um hvernig staða það væri ef Íbúðalánasjóður hefði við „hrun" verið í eigu bankanna og þar með nú í eigu útlendra kröfuhafa.

Þegar þessi mál voru ofarlega á baugi skrifaði ég eftirfarandi greinar til varnar Íbúðalánasjóði og gegn hugmyndum leiðtoganna um eyðileggingu Íbúðalánasjóðs.

ÁÞ

 

Hernaður bankanna gegn Íbúðalánasjóði.

Ríkisstjórnin virðist vera að láta undan viðskiptabönkunum, sem krefjast þess að Íbúðalánasjóður verði lagður niður og starfsemi hans fari til bankanna.  Samtök banka og verðbréfafyrirtækja, SBV, hafa barist gegn starfsemi Íbúðalánasjóðs. Samtökin halda því fram að Íbúðalánasjóður sé óþarfur og bankarnir gætu annast öll húsnæðislán. Starfsemi sjóðsins sé ólögmæt skv. reglum EFTA. SBV kærði starfsemi Íbúðalánasjóðs til Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, sem úrskurðaði að ESA andmælti ekki starfsemi Íbúðalánasjóðs. SBV áfrýjaði þeim úrskurði til EFTA dómstólsins. ESA hefur skv. ákvörðun dómsins fengið eldri úrskurð aftur til meðferðar. Úrslit þar geta oltið á vörnum íslenska ríkisins.

Rökstuðningur SBV hefur nánast eingöngu verið sá að bankarnir mættu þola óréttmæta samkeppnisaðstöðu þessa ríkisfyrirtækis, sem gæti, vegna aðstoðar ríkisins, sem væri fólgin í betra lánstrausti Íbúðalánasjóðs, sem ríkisfyrirtækis, sem fengi ódýrara fjármagn til starfsemi sinnar en bankarnir og gæti þannig boðið lægri vexti á húsnæðislánum en þeir.

Það er einmitt vegna þess að íbúðalánasjóður hefur möguleika á að veita landsmönnum ódýrari lán en viðskiptabankarnir sem starfrækja á Íbúðalánasjóð áfram með sama hætti og hingað til. Það er að sjóðurinn standi undir rekstrarkostnaði en skili ekki hagnaði til eiganda síns með sama hætti og krafa hlutafjáreigenda í viðskiptabönkunum er um hagnað af hlutum sínum í þeim. Hagnaðurinn af starfsemi Íbúðalánasjóðs skilar sér út í þjóðfélagið í þeim vaxtamun sem verður vegna almennt lægri vaxta af húsnæðislánum því tilvera sjóðsins með óbreytti sniði á lánamarkaði hamlar vaxtahækkunum. Hin óréttláta samkeppni sem viðskiptabankarnir telja sig verða fyrir er sú að til sé stofnun í eigu almennings sem lánar fé án arðsemiskröfu umfram það sem nauðsynlegt er til reksturs.

Það er ljóst að væri Íbúðalánasjóður ekki til staðar væru lánakjör íbúðalána almennt mun óhagstæðari þau eru í dag. Bankarnir hafa hækkað vexti af nýjum lánum verulega. Þeir hafa haldið því fram að húsnæðislán, sem þeir hafa þegar veitt, bæru of lága vexti og þeir töpuðu á lánunum. Bankarnir hafa hins vegar ekki skýrt frá á hvaða kjörum erlent lánsfé, sem þeir endurlána er. Íbúðalánasjóður, sem einnig hækkaði vexti, gerði það vegna niðurstöðu lánsfjárútboðs í mars.

Vegna þeirrar stöðu Íbúðalánasjóðs á lánamarkaði að hamla vaxtahækkunum, og lána jafnvel á lægri vöxtum en bankarnir, lögðust SBV í hernað gegn starfsemi sjóðsins fyrir EFTA dómstólnum. Sú barátta SBV er barátta gegn hagsmunum almennings. Barátta gegn því að kostur sé á lánum án þess að greiða aðilum SBV verulegan hagnaðarhlut í vöxtum og lántökukostnaði. Það er ljóst að erindrekstur SBV á erlendum vettvangi er fyrir enn frekari fákeppni á lánamarkaði en nú er. Barátta fyrir auknum hagnaði aðila SBV, úr vasa lántakenda. Það er skylda ríkisstjórnarinnar vað verjast ásókn SBV fyrir ESA og verja þannig hagsmuni almennings.

  Birt í Mbl. 21.04.06

Íbúðalánasjóður lagður niður

 

Nú er orðið ljóst, sem margir óttuðust, að ríkisstjórnin ætlar að verða við kröfum viðskiptabankanna um að leggja Íbúðalánasjóð niður að mestu og afhenda þeim starfsemi sjóðsins. Þannig er ljóst að ríkisstjórnin tekur hagsmuni bankanna fram yfir hagsmuni almennings.

Félagsmálaráðherra fullyrti eftirfarandi í fréttaviðtali nýlega: - "Það er ljóst að það gengur ekki til langframa að Íbúðalánasjóður starfi með ríkisábyrgð þegar samkeppni er orðin á þessum markaði" Þetta er undarleg staðhæfing. Íbúðalánasjóður hóf ekki samkeppni um lánveitingar. Íbúðalánasjóður og forverar hans höfðu sinnt íbúðalánastarfsemi einir í áratugi vegna þess að bankarnir sinntu ekki þeim viðskiptum. Starfsemi Íbúðalánasjóðs hafði verið stórbætt undir stjórn og fyrir forystu framsóknarmanna, lánin hækkuð og skilyrði fyrir lánveitingum rýmkuð þó þar hefði þurft að gera mun betur. Bankarnir hófu samkeppni við Íbúðalánasjóð með hærri lánum en sjóðurinn veitti og á svipuðum vöxtum en með rýmri skilyrðum. Eitt af markmiðum bankanna með þessum lánveitingum var að stuðla að miklum uppgreiðslum íbúðasjóðslána og kæfa með því Íbúðalánasjóð og ná sjóðnum og viðskiptum hans til sín. Íbúðalánasjóður stóðst þessa raun og þá fóru bankarnir að halda því fram að þeir töpuðu á íbúðalánum sínum. Að halda slíku fram núna þýðir örugglega hækkun lánskjara fái bankarnir Íbúðalánasjóð. Varla ætla þeir að halda áfram að lána með tapi. En eru bankarnir að tapa á íbúðalánum sínum? Það er ósennilegt. Ekki tapar Íbúðalánasjóður á sinni lánastarfsemi. Á hvaða kjörum eru erlendu lánin sem bankarnir endurlána hér? Það er óupplýst. Bankarnir hafa hins vegar upplýst að lánshæfismat þeirra hjá erlendum matsfyrirtækjum væri nánast það sama og íslenska ríkisins. Samkvæmt því er líklegt að bankarnir greiði ekki hærri vexti en 2,0 - 2,5% af endurlánafé sínu, sem þeir lána síðan hér með 4,8 - 5,5% vöxtum, verðtryggt auk þjónustugjalda. Það er mjög undarleg röksemd fyrir kröfu bankanna um niðurlagningu Íbúðalánasjóðs að vegna taps á einni grein útlánastarfsemi verði keppinauturinn Íbúðalánasjóður að hætta starfsemi vegna þess að bankarnir græddu ekki á samkeppni sem þeir stofnuðu til Ef svo ólíklega vill til að bankarnir séu að tapa á íbúðalánum eiga þeir að sjálfsögðu sjálfir að bera af því skaðann. Á því hafa þeir næg efni. Á síðasta ári var ávöxtun eigin fjár bankanna um og yfir 40% T d var hagnaður Landsbanka Íslands á sl. ári 33,8 miljarðar króna.

Fáir skilja nauðsyn þess að breyta Íbúðalánasjóði í þjónustustofnun fyrir bankana eins og félagsmálaráðherra boðaði í fyrrnefndu fréttaviðtali eftir ríkisstjórnarfund 18. þ m Enda voru skýringar hans á nauðsyn breytinganna engar og litlar á því hverjar fyrirhugaðar breytingar væru. Að leggja niður Íbúðalánasjóð og auka fákeppni á lánamarkaði er fráleitt vegna hagsmuna almennings Bankarnir hafa ekki sýnt fram á að þeir bjóði til langframa betri kjör en Íbúðalánasjóður Spurningin er: Hvers vegna ver ríkisstjórnin hag bankanna í þessu máli en ekki almennings?

Birt í Mbl. 03.05.06

Hagsmunum almennings fórnað

Forsætisráðherra ítrekaði í kvöldfréttum NFS 23. maí að Íbúðalánasjóði yrði breytt. Miðað við það sem áður hefur komið fram verður að draga þá ályktun að sjóðurinn verði lagður niður eða gerð úr honum þjónustustofnun fyrir viðskiptabankana Þá getur Samaband bankanna (SBV) snúið sér að áframhaldandi árásum á hagsmuni viðskiptavina sinna sem verður að fá bann við því að lífeyrissjóðirnir láni sjóðfélögum Í maímánuði 2004 kom í fjölmiðlum að SBV teldu brýnt að lokað yrði fyrir heimildir lífeyrissjóðanna til að lána einstaklingum eða þeim sniðin mun þrengri stakkur

Lífeyrissjóðirnir hafa lánað sjóðfélögum frá stofnun sjóðanna og voru þau lán lengst af einu fasteignalánin sem sjóðfélagarnir áttu kost á utan lána Íbúðalánasjóðs og forvera hans Lífeyrissjóðir hafa því lánað sjóðfélögum í um 70 ár og hefur það verið  þýðingarmikill þáttur í því að sjóðfélagar eignuðust þak yfir höfuðið Þá er ótalin sú mikla þýðing sem lánastarfsemi lífeyrissjóðanna hefur haft fyrir þjóðfélagið í heild sérstaklega á landsbyggðinni

Landssamband lífeyrissjóða birti athugasemdir við kröfu SBV um að lífeyrissjóðirnir hyrfu af lánamarkaðnum og þar segir m.a:

"Það hljóta allir landsmenn að sjá í gegn um látlausan áróður bankanna sem vilja sölsa undir sig alla lánastarfsemi í landinu Þannig hamast þeir daginn út og inn á starfsemi Íbúðalánasjóðs og nú þarf að henda lífeyrissjóðunum út af veðlánamarkaði Allar fjölskyldur kunna sögur af lánveitingum bankanna til húsnæðismála Þar var almennt engin lán að finna þar til nýlega."

Barátta SBV fyrir fákeppni á lánamarkaði er því ekki ný Barátta SBV hefur verið lævís og lipur og oft rekin í nafni viðskiptafrelsis og frjálsrar samkeppni Hún á lítið skylt við samkeppni Það blasir við öllum sem vilja sjá að það að fækka aðilum á markaði eykur fákeppni Það að ryðja lífeyrissjóðum og Íbúðalánasjóði af markaði, aðilum sem ekki gera kröfur til hagnaðar af hlutafé er, bein ráðstöfun til hækkunar alls kostnaðar lántakenda Þá staðreynd hafa SBV sjálfir staðfest með því að tína til kostnaðarliði sem Íbúðalánasjóður og lífeyrissjóðir bera ekki en þeir bera Er samúð almennings með SBV svo mikil að menn séu reiðubúnir til að greiða stórfé fyrir "réttlæti" SBV? Er það svo að stjórnmálamenn dagsins í dag séu svo glámskyggnir, hagsmunatengdir eða leiðitamir bönkunum að þeir séu reiðubúnir að fórna hagsmunum almennings, umbjóðenda sinna, með því að leggja niður Íbúðalánasjóð? Sé svo er illa komið. Þá er eins víst að næst verði lífeyrissjóðum bannað með lögum að lána sjóðfélögum

En í þessari umræðu allri hefur enginn talsmaður þess að breyta starfsemi Íbúðalánasjóðs nefnt og því síður sýnt fram á útgjaldasparnað eða annan hag skuldara af því að losna við Íbúðalánasjóð af markaði Það er mjög undarlegt  Hækkar, lækkar eða stendur lánakostnaður í stað? Það er það sem skiptir máli Síðan félagsmálaráðherra tilkynnti breytingar á Íbúðalánasjóði hafa bankarnir hækkað vexti af fasteignalánum og lækkað lánshlutfall miðað við verðmæti eigna. Það er athygli vert!

Birt í Mbl. 30.05.06

Áróðurinn gegn Íbúðalánasjóði

Áróðurinn gegn Íbúðalánasjóði heldur áfram með auknum þunga. Sérfræðingar ýmissa fjármálastofnana, innlendra sem erlendra koma fram í fjölmiðlum og hamra á því að starfsemi Íbúðalánasjóðs "hamli virkni peningamálastefnu Seðlabankans". Íbúðalánasjóður er gerður einn aðal meinvætturinn í íslensku efnahagslífi og verðbólguvaldur. Höfuðeinkenni þessa málflutnings fulltrúa fjármálastofnananna er að engin rök fylgja fullyrðingum þeirra um skaðsemi Íbúðalánasjóðs. Engin lýsing kemur fram á því hvernig skaðsemi lánastarfsemi sjóðsins er háttað umfram lánastarfsemi bankanna. Aðeins er vitnað með óljósum hætti í skýrslur eins og Seðlabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hverjir eru að skaðast á starfsemi Íbúðalánasjóðs? Hverjir eru græða minna en ella vegna lánastarfsemi sjóðsins? Eru það ekki bankarnir?

Hvaða ráð hafa svo þessir sérfræðingar og fjármálastofnanir til að auka "virkni peningamálastefnu Seðlabankans?" Ráð þeirra er að gera Íbúðalánasjóð að einkareknum heildsölubanka. Og hvað er það sem breytist við það að Íbúðalánasjóður verði einkarekinn heildsölubanki? Jú það að þá fá bankarnir að lána almenningi þá peninga sem sjóðurinn lánar nú milliliðalaust. Það verður til milliliður sem krefst aukins kostnaðar fyrir lántakandann í hærri vöxtum og þjónustugjöldum. Og hluthafar bankanna krefjast arðsemi af starfsemi þeirra. Íbúðalánasjóður er hins vegar rekinn þannig að hann standi aðeins undir rekstarkostnaði. Við boðaða breytingu yrði fákeppni og kostnaður aukin á íbúðalánamaraði. Eru það hagsmunir almennings að svo sé að málum staðið? Hvað segja launþegar um það?

Ráð áðurnefndra sérfræðinga og stofnana eru einnig þau að hækka beri stýrivexti Seðlabankans sem nú eru 13% Slík ráðstöfun drægi eitthvað úr eftirspurn eftir lánum, sem þýddi aðeins það í raun að bankarnir tækju eitthvað minna af erlendum lánum á lágum vöxtum til að endurlána hér á háum vöxtum. En stýrivaxtahækkun þýddi aðallega almenna vaxtahækkun á lánum sem þegar hafa verið tekin. Sem aftur þýðir aukinn hagnað lánveitenda - bankanna úr vasa skuldaranna í landinu. Þannig yrði enn frekari tilfærsla á fjármunum frá þeim til bankanna. Ráð innlendu og erlendu fjármálasérfræðinga miða þannig öll að því að þjarma að almenningi í þágu auðugra fjármálastofnana.

Íbúðalánasjóður hefur það sem af er þessu ári lánað um 15 miljörðum minna en á sama tímabili í fyrra en heildarútlán bankanna hafa aukist á sama tíma. Af hverju skýra sérfræðingarnir ekki hversvegna lán Íbúðalánasjóðs eru meiri skaðvaldur í efnahagslífinu en lán bankanna? Það er einfaldlega vegna þess að rök þeirra standast ekki. Málflutningur þeirra er áróður fyrir hagsmunum bankanna gegn hagsmunum almennings. Þeir eru starfsmenn fjármálastofnananna. Hvað gengur þeim stjórnmálamönnum til sem lepja athugasemdalaust upp "fræði" fjármálastofnananna? Þeir verða að gera almenningi grein fyrir því hvers vegna þeir virða hagsmuni bankanna meir en hagsmuni almennings. Frá stjórnmálamönnum hefur ekkert heyrst annað en bergmál af hrópum bankanna

Birt í Mbl. 24.08.06

Staðreyndir um Íbúðalánasjóð

Guðjón Rúnarsson, framkv.stj. framkvæmdastjóri Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja skrifa grein í Mbl. 5. sept. sl. þar sem hann er að reyna að andmæla staðreyndum í grein sem starfsmenn Íbúðalánasjóðs skrifuðu í Mbl. 31. ágúst sl. Margt er undarlegt í grein framkvæmdastjórans og virðist markmiðið vera að villa um fyrir lesendum varðandi starfsemi Íbúðalánasjóðs. Til að mynda gerir hann lítið úr þeirri staðreynd að innkoma bankarna á íbúðalánamarkaðinn, sem hrein viðbót við Íbúðalánasjóð og lífeyrissjóði, hafi átt mikinn þátt í aukinni verðbólgu frá þeim tíma. Þó segir framkvæmdastjórinn að ekki sé um það deilt að lækkaður fjármagnskostnaður húsnæðis hafi átt sinn þátt í að auka verðbólguþrýsting.

Í upphafi samkeppninnar við Íbúðalánasjóð buðu bankarnir að lána allt að 100% kaupverðs/matsverðs íbúðar með 4,15%  sem voru svipaðir vextir og Íbúðalánasjóður bauð. Engin takmörk voru á lánsfjárhæð hjá bönkunum. Bankarnir lánuðu einnig veðlán með þessum kjörum án þess að viðskipti færu fram með íbúðir. Margir greiddu upp íbúðalánasjóðslán sín og tóku verulega hærri lán í bönkunum og mismunurinn fór til neyslu. Þetta stóraukna aðgengi að lánsfé, sem varið var til annars en íbúða var aðalástæða aukinnar verðbólgu.

Það að stjórnvöld boðuðu 2004 hækkun veðhlutfalla Íbúðalánasjóðs úr 66% í 90% með þröngum skilyrðum um hámark lánsfjárhæðar við 18 milj. og bindingu láns við kaup eða byggingu íbúðar vega lítið í verðbólgumyndun og stuðluðu ekki að henni.

Þá segir framkvæmdastjórinn um boðaða hækkun lána Íbúðalánasjóðs: "Slík niðurgreidd ríkiskjör skyldu opin öllum og óháð félagslegum þáttum."

Það er algerlega rangt að lán Íbúðalánasjóðs séu á nokkurn hátt niðurgreidd af ríkinu. Ríkið leggur ekkert fé til niðurgreiðslu lánskjara hjá Íbúðalánasjóði. Ríkið hefur engan kostnað af Íbúðalánasjóði. Ríkissjóður hagnast á sjóðnum og hjá honum er stöðug eignaaukning. Það er því sérkennilegur misskilningur hjá framkvæmdastjóranum að ríkið greiði lán sjóðsins niður.

Til glöggvunar fyrir framkvæmdastjórann eru það niðurgreiðslur á vöru og þjónustu þegar að framleiðanda/seljanda er greitt með vörunni eða þjónustunni þannig að neytandinn greiðir ekki framleiðanda/seljanda fullt verð fyrir. (Ýmsar landbúnaðarvörur eru t.d. niðurgreiddar)

Í þessu sambandi er rétt að geta þess að Íbúðalánasjóður fjármagnar starfsemi sína með lánsfjárútboðum á innlendum markaði. Markaðsvextir sem Íbúðalánasjóður er að greiða eru hærri en vextir sem viðskiptabankarnir eru að greiða af þeim erlendu lánum sem þeir hafa tekið að undanförnu til að fjármagna og endurfjármagna sína lánastarfsemi.

Framkvæmdastjórinn segir: "Íbúðalánasjóður brást við samkeppninni með því að gerast leiðandi í lækkun vaxta af íbúðalánum sem aftur jók á þenslu og þar með verðbólgu."

Í þessu sambandi verður að geta þess að Íbúðalánasjóður lánar aðeins út á íbúðir sem lántaki er að kaupa eða byggja. Það gerðu bankarnir ekki. Þeir lánuðu þeim sem höfðu gott veð og eins og áður sagði fór verulegur hluti lána þeirra í aðra neyslu. Þess vegna hafa Íbúðalánasjóðslán mun minni verðbólguáhrif en lán bankanna. Átti Íbúðalánasjóður að hafa samráð við bankana um vextina? Þarna kemur fákeppnisstefna bankanna vel fram. Fulltrúi bankanna segir í raun: Íbúðalánasjóður heldur niðri vöxtunum. Eru það ekki augljósir hagsmunir almennings að halda áfram starfsemi Íbúðalánasjóðs til að verjast vaxtaokri? Er ekki augljóst að komist bankarnir yfir starfsemi Íbúðalánasjóðs hækka vextir?

Þá segir framkvæmdastjórinn: "Húsnæðislán eru áhættuminnstu lán sem veitt eru og mikilvægt fyrir alhliða fjármálafyrirtæki að hafa þau í eignasafni sínu til að dreifa áhættu."

Þarna gerir framkvæmdastjórinn ljósar aðalástæður þess að bankarnir sækja svo fast að hrifsa til sín Íbúðalánasjóð. Þarf frekari vitna við um það hverra erinda þeir stjórnmálamenn ganga sem hafa lýst því yfir að þeir vilji leggja niður starfsemi Íbúðalánasjóðs í núverandi mynd og gera hann að þjónustustofnun fyrir bankana. Um þetta þarf almenningur að hugsa nú í aðdraganda kosninga.

Birt í Mbl. 19.09 06

Undarleg gagnrýni

Í marga áratugi var það ein af helstu kröfum verkalýðshreyfingarinnar að lán til hóflegs húsnæðis launafólks yrðu 90% af kaupverði eða byggingarkostnaði íbúðarhúsnæðis. Þessi gamla krafa verkalýðshreyfingarinnar hefur ekki verið aflögð svo eftir því væri tekið. Ég held að hún sé í fullu gildi í dag. Krafan náði hins vegar ekki almennt fram fyrr en á þessu kjörtímabili er félagsmálaráðherra Framsóknarflokksins ákvað að lán Íbúðalánasjóðs skyldu vera allt að 90% af verðmæti húseigna með vissum skilyrðum.

Nokkrum mánuðum áður en Íbúðalánasjóður hóf að lána samkvæmt 90% reglunni hófu bankarnir að lána íbúðalán allt að 100% verðs húsnæðis með mun rýmri skilyrðum en Íbúðalánasjóður. Um 120 miljörðum króna, mikið til 40 ára, var dælt úr bönkunum án annarra skilyrða en tryggð veðs. Margir tóku þannig há lán, greiddu upp íbúðalánasjóðslánin og höfðu vænan afgang til neyslufjárfestinga. Þetta ráðslag átti mikinn, ef ekki mestan, þátt í verðbólguskotinu sem eftir fylgdi. Bankarnir og andfélagslegi hluti ríkisstjórnarinnar gerði kröfu um að Íbúðalánasjóður yrði lagður niður og afhentur bönkunum. Slík ráðstöfum hefði að sjálfsögðu þýtt enn meiri fákeppni á íbúðalánamarkaði og meira vaxtaokur. Hörð andstaða almennings og almennra flokksmanna Framsóknarflokksins kom í veg fyrir að af slíkum gerningi yrði. Hins vegar var það knúið fram í ríkisstjórninni að lán Íbúðalánasjóðs, sem þá voru orðin 90% með 18 miljóna króna hámarki voru lækkuð tímabundið í 80% með 17 miljóna hámarki. Látið var heita að sú ráðstöfum væri liður í því að lækka verðbólguna, sem er mjög vafasamt að hafi haft nokkra þýðingu til minnkunar verðbólgunnar vegna þess hve hámarkslánveitingar Íbúðalánasjóðs voru fáar.

Þegar félagsmálaráðherra hefur nú, 1. mars, staðið við fyrirheit sín um að tímabundin skerðing íbúðasjóðslána stæði aðeins yfir um skamman tíma, gerist það að upphefst kór ýmissa andfélagssinnaðra aðila, sem telja ákvörðun félagsmálaráðherra afleik, eða eitthvað verra. Eða komi ekki á stöðugleika eins og framkvæmdastjóri ASÍ orðar það í Blaðinu 2. mars. Þar segir framkvæmdastjórinn að ákvörðun ráðherra gagnist mörgum en gefur í skin að hún tengist komandi kosningum og pólitískri ásýnd fremur en raunverulegum afleiðingum.

Það að framkvæmdastjóri ASÍ gagnrýni gerðir ráðherrans með þessum hætti er hvað undarlegast af því sem komið hefur fram í áróðrinum gegn hinni sjálfsögðu aðgerð félagsmálaráðherra að hækka lán Íbúðalánasjóðs til fyrra horfs. Framkvæmdastjóri ASÍ á að verja hagsmuni síns fólks. Það eru fyrst og fremst hagsmunir láglaunafólks að íbúðalán fáist sem hæst hlutfall af verði íbúða og á sem lægstum vöxtum. Framkvæmdastjóri ASÍ getur ekki fremur en aðrir sýnt fram á að lánveitingar Íbúðalánasjóðs séu frekar verðbólguvaldandi en lánveitingar bankanna. Staðreyndin er sú að bankarnir stórjuku verbólguna með sínum hömlulausu lánveitingum á sínum tíma. Ekki Íbúðalánasjóður.

Starfsmenn ASÍ ættu að vita að frá því fyrir miðja síðustu öld var krafan um að láglaunafólkið ætti möguleika að eignast mannsæmandi húsnæði ein af aðalkröfum verkalýðshreyfingarinnar. Fyrir baráttu hennar voru í  áföngum gerðar úrbætur í húsnæðismálum, m.a. lögin um verkamannabústaði og Byggingasjóð verkamanna, lög um byggingasamvinnufélög og í framhald af því Húsnæðismálastofnun og hennar lán og síðast Íbúðalánasjóður.

Það er því fyrst með hinum nýju 90% lánum Íbúðalánasjóðs sem lánamöguleikar almennings til húsnæðismála eru að komast í viðunandi horf þótt enn séu skilyrði fyrir þeim lánum of  ströng og raunvextir of háir. Því er gagnrýni framkvæmdastjóra ASÍ á hækkun Íbúðalánasjóðslána nú mjög undarleg.

Birt í Blaðinu 06.03.07

Íbúðalánasjóður til hjápar.

Ríkisstjórnin ætlar að nota Íbúðalánasjóð til að örva húsnæðismarkaðinn og að hluta bjarga bönkunum úr því klúðri sem þeir hafa komið sér í. Af því tilefni er rétt að þjóðin minnist atlögu, sem viðskiptabankarnir og nokkrir stjórnmálamenn, gerðu að Íbúðalánasjóði fyrir tveimur til þremur árum. Starfsmenn fjármálastofnana skrifuðu látlaust greinar í dagblöðin um nauðsyn þess að afleggja sjóðinn. Lán sjóðsins væru svo mikill verðbólguvaldur. Bankarnir ættu að fá sjóðinn og annast hlutverk hans. Á sama tíma hófu viðskiptabankarnir "samkeppni" við sjóðinn og dældu út, á skömmum tíma, um 160 miljörðum í veðlánum. Þau veðlán voru ekki skilyrt því að lántakendur væru að afla sér húsnæðis. Meginhluti fjárins fór til uppgreiðslna á eldri lánum lántakenda hjá Íbúðalánasjóði um leið og neyslufjár var aflað til hluta, sem menn höfðu ekki áður haft fé til. Íbúðalánasjóður átti að sitja uppi með mikið óarðbært fé. Þannig átti að lama sjóðinn og neyða til uppgjafar. Þessi mikla aukning neyslufjár orsakaði verulegan hluta verðbólgunnar sem þjóðin líður nú fyrir.

Verðbólgan er því að miklu leyti afleiðing óhóflegra neyslulána bankanna, lána til skuldsettrar útrásar fyrirtækja, ásamt langvarandi almennri óstjórn peningamála í landinu. Og nú skal Íbúðalánasjóður, sem áður átti að drepa, notaður til að bjarga bönkunum úr klúðri sínu og koma fasteignamarkaðnum af stað. En er ekki líklegt að nú sé verið að læða í framkvæmd gömlum hugmyndum um að draga úr, eða leggja niður, starfsemi Íbúðalánasjóðs? Gera hann að þjónustustofnun fyrir viðskiptabankana. Búa til millilið fyrir þá sem eykur kostnað lántakenda. Könnun sem Capacent gerði á sl. ári sýndi að tæp 83% þjóðarinnar vildi óbreyttan Íbúðalánasjóð. Aðeins rúm 10% vildi sjóðinn sem heildsölubanka.

Viðskiptabankarnir hafa árum saman krafist þess að Íbúðalánasjóður væri lagður niður og starfsemi hans afhent þeim. Og þeir krefjast þess enn þótt bersýnilegt sé að þeir hafi stýrt sjálfum sér í vandræði og rýrt traust umheimsins á íslensku fjármálalífi. Fyrri ríkisstjórn hafði ákveðið að verða við kröfu bankanna árið 2006.

Þáverandi forsætisráðherra og félagsmálaráðherra Framsóknarflokksins lýstu því yfir í fjölmiðlum að Íbúðalánasjóði yrði breytt. Íbúðalán færu til bankanna. Einörð andstaða almennra félaga í Framsóknarflokknum kom í veg fyrir að ráðherrarnir framfylgdu ákvörðun sinni. Láta félagar í Samfylkingunni ráðherra sína eyðileggja Íbúðalánasjóð? Fari Íbúðalánasjóður af lánamarkaði, lánveitingar til einstaklinga verði skertar, eða hann verði heildsölubanki, þýðir það aukna fákeppni á íbúðalánamarkaði. Þá réði samhæfð fákeppni lánakjörum bankanna. Lánakjör versnuðu vegna arðsemiskröfu bankanna. Íbúðalánasjóður krefst ekki hagnaðar. Hann þarf aðeins að standa vel undir reksturskostnaði.

Hver væri staðan nú, ef Íbúðalánasjóður hefði verið afhentur bönkunum? Hver væri til að endurfjármagna bankana, sem vegna klúðurs þeirra, fá ekki lán á alþjóðamarkaði nema með ofurháu áhættuálagi. Íbúðalánasjóður endurfjármagnar sig nú með lægri kostnaði en áður og lækkar vexti af lánum.

Þann vanda, sem íbúðalánasjóður á nú að leysa, hefði verið óleystur og leitt til algers öngþveitis í fjármálum, eða ríkið orðið að leysa með beinum framlögum til bankanna.

Ástandið á fasteignamarkaði undanfarið hefur sýnt að óbreyttur Íbúðalánasjóður er bráðnauðsynlegur og auka á hlutverk hans. Einkaframtakinu, svo gott sem það nú getur verið, er ekki treystandi í fákeppni hvað þá einokun.

Birt í Mbl. 28.06.08

Gegn hagsmunum viðskiptavinanna

Samtök fjármálafyrirtækja, SF, áður Samtök banka og verðbréfafyrirtækja, SBV, berjast hatrammlega gegn hagsmunum viðskiptavina sinna með baráttunni gegn Íbúðalánasjóði. Það gerir SF m.a. með því að berja í gegn, með málarekstri fyrir stofnunum EFTA, að starfsemi Íbúðalánasjóðs verði úrskurðuð ólögmæt vegna þess að sjóðurinn greiði ekki ríkisábyrgðargjald. En það að Íbúðalánasjóður greiðir ekki slíkt gjald, fremur en forverar hans, telja SF vera ríkisstyrk.

Framkvæmdastjóri SF sagði í fjölmiðlum nýlega að Íbúðalánasjóði yrði líklega gert að endurgreiðagreiða þann ríkisstyrk sem sjóðurinn hafi fengið. Það þýðir væntanlega að meta þarf hve hátt ábyrgðargjaldið hefði verið ef þess hefði verið krafist af ríkinu, eiganda sjóðsins. Slíkar greiðslur, ef af verður, mundu rýra eiginfé Íbúðalánasjóðs en stækka ríkissjóð. Síðan yrði væntanlega lagt á Íbúðalánasjóð ríkisábyrgðargjald, sem sjóðurinn legði síðan á lán sín. Þar með hefði SF náð fram þeim markmiðum sínum að rýra kjör lántakenda hjá Íbúðalánasjóði, en þeir eru flestir einnig viðskiptavinir bankanna. Og hvað hefðu bankarnir annað út úr þessu en að hækka útgjöld lántakenda Íbúðalánasjóðs sem næmi ríkisábyrgðargjaldinu, sem í raun virkaði eins og skattur þar sem ríkið á Íbúðalánasjóð? Jú það yrði auðveldara fyrir bankana að hækka kostnað lántaka við sín útlán. Til þess er barist. Ekki fyrir hagsmunum viðskiptavina bankanna.

Það að bankarnir í landinu berjist með þessum hætti gegn hagsmunum flestra viðskiptavina sinna þarf almenningur að hafa í huga þegar tekin er afstaða til bankanna almennt. Það er staðreynd að það er fákeppni á fjármálamarkaði á Íslandi og ákaflega lítill munur er á viðskiptakjörum bankanna til almennings, jafnt innláns- og útlánakjörum.

Samkeppni milli bankanna er þess vegna í raun mjög lítil og viðskiptavild þeirra hjá almenningi veltur mest á hver þeirra er slyngastur að auglýsa sig. Það er einnig ljóst að núverandi staða bankanna er slík, að á peningamarkaði fá þeir ekki fé til endurlána á jafn góðum kjörum og Íbúðalánasjóður. Og það er óháð ríkiseign á sjóðnum og því að hann greiðir ekki ríkisábyrgðargjald. Og hvers vegna skyldi staða bankanna vera þannig? Ætli orsakanna sé ekki að leita í fyrirhyggjulítilli og áhættusamri lánastarfsemi þeirra í ýmsu braski, oft kallað útrás, en hefur gengið illa og miklar sögur ganga um í erlendum fjármálaheimi.

Tilgangur bankanna með því að ná undir sig Íbúðalánasjóði er að hagnast á útlánum, sem sjóðurinn annast nú. Sá aukni hagnaður myndaðist því aðeins hjá bönkunum að útlánin yrðu dýrari en þau eru nú hjá Íbúðalánasjóði. Og ekki þarf að vitna til annars en að endurlánafjármögnun er bönkunum nú dýrari en Íbúðalánasjóði eins og áður sagði.

Allar kröfur um breytingar á Íbúðalánasjóði, sem hingað til hafa komið frá SF og SBV, og stjórnmálamönnum, tengdum þeirra skoðunum og hagsmunum, yrðu í framkvæmd, sama hvernig litið er á, til verulegs óhagræðis fyrir almenning. Flestir þurfa einhvern tíma á æviskeiðinu að taka lán vegna öflunar húsnæðis. Lán til hóflegs húsnæðis er ekki neysla í venjulegum skilningi heldur nauðsyn, sem ekki er komist hjá. Íbúðalánasjóður og forverar hans urðu til vegna þess að bankarnir lánuðu almenningi ekki íbúðalán til langs tíma. Það var og er því eðlilegt að ríkið, þ.e. þjóðfélagið, beiti styrk sínum og aðstöðu til að jafna kjör þegnanna í fjármögnun íbúðarhúsnæðis. Þeir stjórnmálamenn, sem taka undir kröfur bankanna um breytingar á Íbúðalánasjóði, eru að vinna beint gegn hagsmunum  almennings. Of stór hluti ævistarfs fólks fer til að afla húsnæðis. Of stór hluti tekna fólks fer til bankanna. Á það er ekki bætandi.

Birt í Mbl. 22.07.08

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband