Ódýr nýting náttúruauðlinda Íslands



Þessi grein var send Fréttablaðinu til birtingar 25. júní sl.
Blaðið hefur birt margar greinar síðan sem það hefur greinilega fengið sendar
seinna en þessa. Það má velta því fyrir sér hvers vegna Fréttablaðið hefur
lítinn áhuga á að birta þessa grein.

Nýting
náttúruauðlinda Íslands

Eignarrétturinn er mikilvægur. Undir þessari yfirskrift er leiðari Fréttablaðsins 2. sept. 2006, sem skrifaður er til stuðnings tryggum eignarrétti útgerðarinnar á aflaheimildum. Vísað var
til þess að Ragnar Árnason, prófessor, áætlaði þá að ríkið sparaði sér um þrjá milljarða fengi sjávarútvegurinn að ráða sér sjálfur án afskipta hins opinbera. Það álit prófessorsins átti að vega þungt í þeirri röksemdafærslu að útgerðin ætti að fá sjávarauðlindina til fullrar eignar og umráða. Útgerðin hefur lengi rekið öflugan áróður gegn því að þjóðin hefði öll umráð yfir mestu auðlind sinni, nýtingu fiskimiðanna umhverfis landið. Ráðstefna var haldin árið 2006 í Reykjavík sem fjallaði um eignarrétt á náttúruauðlindum Íslands, sérstaklega sjávarauðlindinni. Verkefni ráðstefnunnar var einkum að sýna fram á, með „fræðilegri" umræðu, þjóðfélagslega hagkvæmni þess að útgerðin ætti fiskimiðin eins og hverja aðra fasteign og stjórnaði sjálf allri nýtingu þeirra og eftirliti. Niðurstaða ráðstefnunnar var einmitt sú. Enda var ráðstefnan, sem haldin var á vegum Rannsóknarmiðstöðvar um samfélags- og efnahagsmál (RSE), stofnun sem virðist vera stýrt af forstjórum stórfyrirtækja, fjármálafyrirtækja og þekktum frjálshyggjumönnum, miðað við skipan stjórnar samtakanna, eingöngu haldin í áróðursskini. Lítið hefur farið fyrir þeirri stofnun síðan og líklega er hún flestum gleymd. Hafin var mikil áróðursherferð í fjölmiðlum, sem ætlað var að sýna fram á að veiðiheimildir útgerðarinnar væru betur komnar sem formleg eign hennar en ekki sameign þjóðarinnar eins og lög mæla fyrir um. Og undanfarið hefur dunið á þjóðinni áróður, ósannur hræðsluáróður í þvílíku magni að engin dæmi eru um slíkt á Íslandi. Haldið var fram að fjöldagjaldþrot útgerðarfyrirtækja blasti við ef breytingar á lögum umstjórn fiskveiða sem fyrirhugaðar voru til að hefta braskið með veiðiheimildir, yrðu gerðar. Hóflegt gjald af veiðiheimildum til ríkisins - þjóðarinnar mundi ríða sjávarútveginum á slig. Gjald sem er aðeins hluti þess gjalds sem útgerðarmenn krefjast af öðrum þegar þeir leigja frá sér veiðiheimildir. Og hræðsluáróðurinn heldur áfram eftir að Alþingi samþykkti veiðileyfagjald sem var mun lægra en lagt var upp með í upphafi. Hamrað er á því að drápsklyfjar hafi verið lagðar á útgerðina. Fáir muni standast gjaldtökuna. Hvernig stenst það þegar algengasta leiguverð sem veiðirétthafar taka af öðrum fyrir veiðiréttinn er um 300 krónur á kg. en gjaldið sem samþykkt var er um 37 krónur á kg? Fyrrum sjávarútvegsráðherra Sjálfstæðisflokksins hefur lýst því yfir að komist flokkur hans til valda verði veiðileyfagjaldið lækkað verulega. Það er líklega einsdæmi að stjórnmálamaður lýsi því yfir með jafn afgerandi hætti og hann gerir að flokkur hans verji sérhagsmuni fárra gegn hagsmunum almennings. Frjálshyggjumönnum, sem einkum skipa sér í Sjálfstæðisflokkinn, hefur löngum sviðið í augum að ríkið - þjóðfélagið - eigi einhver verðmæti sem samfélagið getur haft tekjur af. Þannig er með nytjastofnana á Íslandsmiðum. Þeirra skoðun er að aflaheimildir eigi að vera að fullu í eign og umráðum útgerðarinnar, án gjaldtöku ríkisins. Gróðinn skal renna óskiptur til einstaklinganna sem eiga útgerðarfyrirtækin. Þessi skoðun virðist vera ráðandi í þingliði Sjálfstæðisflokksins þannig að hlutverk þess liðs er að vera varnarlið einkagróðans á kostnað almennings. Eignarrétturinn yfir náttúruauðlindum landsins er þjóðinni mjög mikilvægur þannig að einstökum útgerðarfyrirtækjum sem eiga búnað til fiskveiða eða þeim sem nýta með einhverjum hætti náttúruauðlindir Íslands verði gert að greiða sanngjarnt gjald til ríkisins fyrir afnotin. Þannig er eignarréttur þjóðarinnar á öllum auðlindum landsins mjög mikilvægur. Sérstaklega eignarrétturinn á öllum nytjastofnum á Íslandsmiðum. Nytjastofnum sem íslendingar börðust um aldir við útlendinga um yfirráð yfir og háðu 10 "þorskastríð" til að halda lífsbjörginni í eigu landsins.







« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Þú talar hér, eins og nú er í tísku, um einhverja „sameign þjóðarinnar“ þegar þú meinar einfaldlega „ríkssjóð“. „Þjóðin“ kemur hvergi nærri þeim peningum sem þar lenda, heldur ráðherrann og staffsmenn hans, sem úthluta síðan eftir sínum hentugleikum ekki „þjóðarinnar“. Þetta er í rauninni sama hjalið um þjóðnýtingu sem kommúnistar hafa klifað á í hundrað ár. Almenningur ræður engu um þá fjármuni sem fara í ríkiskassann, heldur þeir sem völd hafa í kerfinu. 

Hitt er svo annað mál að það er sjálfsagt að útgerðin greiði hóflegan, réttlátan skatt af tekjum sínum, eins og aðrir þegnar og fyrirtæki þessa lands. Menn ættu hins vegar alveg að hætta þessu hjali um „þjóðina“ hér og „þjóðina“ þar þegar þeir meina einfaldlega ríkissjóð.

Vilhjálmur Eyþórsson, 14.7.2012 kl. 22:22

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband