Á að selja raforkuverin?



 

Þessi gamla grein heldur enn gildi sínu þar sem efni skylt því sem hún fjallar um er sífellt á sveimi, nú nýlega um stórútflutning á raforku um rafstreng í sjó. Greinin var skrifuð vegna greina sem Helgi Hjörvar, alþm. skrifaði í Mbl. á „hruntímanum" 2008. Greinar Helga sýndu vel froðukenndan hugsanagang lélegra stjórnmálamanna sem reyna að afla sér fylgis með því að setja fram ruglingslegar hugmyndir til lausnar erfiðra mála. Þannig var um greinar Helga. 

Lítil búhyggindi að
selja raforkuverin

Helgi Hjörvar, alþingismaður Samfylkingarinnar, telur sig hafa fundið leið fyrir þjóðina út úr
efnahagsþrengingum sem nú ganga yfir. Í tveimur greinum í Mbl. 24. og 25. sept. greinir hann m.a. frá sóknarfærum sem hann telur fólgna í  því að selja einkaaðilum t.d. Kárahnjúkavirkjun og fleiri virkjanir íeigu hins opinbera. Stofnaður verði auðlindasjóður úr andvirði virkjananna handa komandi kynslóðum. Sá sjóður fari með umsjá og eignarhald hinna seldu eða leigðu auðlinda. Að vísu verði ekki um varanlegt framsal að ræða heldur verði virkjanirnar seldar á leigu til 20 til 40 ára. Þessi viðskiptahugmynd Helga, sem reyndar er óljós og þokukennd, er skyldari kredduhugmyndum, sem vænta má úr ákafasta frjálshyggjuhópi ungra hægrimanna, en úrræðum við efnahagsvanda, sem
búast mætti við frá þingmanni jafnaðarmanna. Virkjanirnar í landinu eru mjög arðsöm fyrirtæki sem verða verðmætari með hverju ári sem líður. Eftirspurn eftir orku fer hraðvaxandi í heiminum og þá sérstaklega hreinni orku. Þess vegna væru það lítil búhyggindi eigenda raforkuvera að selja þau eða leigja til langs tíma við slíkar aðstæður. Helgi nefnir Alcoa sem líklegan kaupanda/leigjanda Kárahnjúkavirkjunar til 40 ára. Alcoa, eða hver annar, sem keypti eða leigði þá virkjun, eða aðrar virkjanir, keypti þær eingöngu til að taka til sín hagnað sem ella færi til núverandi eiganda við áframhaldandi rekstur og orkusölu. Enginn keypti/leigði raforkuver fyrir hærra verð en fengist til baka ásamt góðri rentu á leigutímanum. Það væri því verið að láta frá sér gróðalindina, eða skipta með öðrum því sem þjóðin sæti ella ein að. Hugmyndir Helga eru því í raun um að skerða hagnað þjóðarinnar af auðlindunum. Helgi talar um að engin rök standi til að ríkið reki þá þjónustu við stóriðju að framleiða fyrir hana orku. Stóriðja, eða málmbræðslur, eru einfaldlega þeir aðilar sem sótt hafa í orkukaup hér á landi til þessa. Landsvirkjum hefur, vegna mikillar arðsemi raforkusölu til slíkra fyrirtækja, virkjað auðlindir tilraforkuframleiðslu en ekki til þess að vera í einhverju þjónshlutverki fyrir alþjóðleg málmfyrirtæki eins og Helgi segir í grein sinni.

Samkvæmt árshlutareikningi Landsvirkjunar 1. jan. til 30. júní sl. var hagnaður fyrirtækisins USD 83.449.000,-  eða kr. 7.905.958.000,- samkvæmt gengi 26. sept. Á árinu 2007 var hagnaður Landsvirkjunar eftir skatta um 28.500.000.000,- Tekjuskattur þess árs var um 10.000.000.000,-

Nánast þrír fjórðu rafmagnssölu Landsvirkjunar fer til stóriðju. Raforkusala Landsvirkjunar til álbræðslu er því mjög arðsöm. Arðsemi Kárahnjúkavirkjunar er mun meiri en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir. Sú virkjun ásamt öllum öðrum stórvirkjunum, í nútíð og framtíð, eiga að vera í eigu og umráðum fyrirtækja í samfélagslegri eigu. Auðlindirnar eru í dag í eigu íslendinga og verður aðeins ráðstafað með lögum frá Alþingi. Það þarf því ekki sérstakan auðlindasjóð til að eiga og ráðstafa auðlindunum. Landsvirkjun er í eigu þjóðarinnar og er í raun auðlindasjóður sem á gríðarlegar eignir og gefur
af sér miklar tekjur. Helga Hjörvar hefur tekist að vekja á sér töluverða athygli með þessum frjálshyggjuhugmyndum sínum. Þannig vill það oft verða þegar kastað er fram illa ígrunduðum hugmyndum eða tillögum. Athyglin sem með því fæst er það sem skiptir suma stjórnmálamenn mestu máli. Meira en gagnsemi tillagna þeirra. En það hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir samflokksmenn hans, sérstaklega þá sem telja sig til vinstri, þegar þingmaður þeirra gengur jafn grímulaust  erinda
hörðustu hægriafla Sjálfstæðisflokksins.

Birt í Mbl. 01.10.08



 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband