20.7.2012 | 21:59
Stjórnarskrárklúðrið
Nokkur þungi hefur verið í umræðunni um frumvarp Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá lýðveldisins og væntanlega óskuldbindandi þjóðaratkvæðagreiðslu um frumvarpið. Ég hef alla tíð haft miklar efasemdir um allan málatilbúnað í stjórnarskrármálinu, sérstaklega ríkisstjórnarflokkanna. Hér á eftir er hluti athugasemda minna um málið. Annarsstaðar á síðunni er umsögn sem ég sendi Alþingi um málið.
Stjórnarskrá íslenska lýðveldisins hlýtur að eiga að vera fáorð, auðskiljanleg, einföld í sniðum og lesist og skiljist samkvæmt texta hennar. Orðanna hljóðan en ekki einhverri síðari tíma þrætubókarlist stjórnmálamanna og lögfræðinga eins og gerst hefur með núgildandi stjórnarskrá íslendinga þar sem ýmsir lesa úr henni eitthvað sem alls ekki stendur í henni. Ákvæði sem lýtur að því að skrifaður texti stjórnarskrárinnar væri það sem í gildi er ætti jafnvel að setja í stjórnarskrá.
Núgildandi stjórnarskrá tryggir þegnunum öll þau réttindi sem nútímaþjóðfélag krefst og þar með stjórnarfar sem er með því lýðræðislegasta sem þekkist í heiminum. Ýmsu má þó breyta. Pólitíski hluti stjórnarskrárinnar verður alltaf deiluefni, einkum sá hluti sem lýtur að hlutverki og valdi forseta íslands, fyrirkomulag framkvæmdavaldsins í höndum ráðherranna og skipan dóms- og réttarkerfis.
Alþingi skipaði Stjórnlagaráð eftir að Hæstiréttur ógilti kosningar til stjórnlagaþings sem Alþingi stofnaði til. Stjórnlagaráðið skyldi semja tillögu til Alþingis að frumvarpi að stjórnarskrá íslenska lýðveldisins. Í ráðið völdust þeir sem kosningu hlutu í hinum ógiltu kosningum. Ýmsum þótti sem Alþingi sýndi Hæstarétti óvirðingu með því vali. Ég er reyndar ekki sammála því þótt frumvarp Stjórnlagaráðsins sýni að betur hafi mátt vanda til mannvalsins.
Tillaga Stjórnlagaráðs að frumvarpi var lögð fyrir Alþingi, sem síðan ákvað að hafa um frumvarpið óskuldbindandi þjóðaratkvæðagreiðslu í síðasta lagi 20. október til leiðbeiningar fyrir Alþingi. Deildar meiningar eru um hvort kjördagur hafi verið ákveðinn. Hvort orðalagið í síðasta lagi 20. október" standist lagalega sem kjördagur þann dag. Eitt klúðrið enn.
Nú er það svo að 79. gr. stjórnarskrárinnar mælir fyrir um hvernig með skuli fara breytingar á stjórnarskránni. Ekkert er í stjórnarskránni um utanaðkomandi ráðgjöf til eða leiðbeiningu til Alþingis eða stjórnlagaþing ef einhverjir vilja breyta stjórnarskránni. Slík ráðgjöf og Stjórnlagaráð virðist vera á skjön við stjórnarskrána og ekki í anda hennar. Í henni er einfaldlega gert ráð fyrir að þeir sem vilja breyta stjórnarskránni beri breytingartillöguna upp á Alþingi. Sé tillagan samþykkt er þing rofið og þjóðin kýs nýtt þing og samþykki það tillöguna óbreytta eru komin ný stjórnskipunarlög.
Þeir stjórnmálamenn, sem sömdu stjórnarskrána 1944, hefur greinilega ekki órað fyrir því að stjórnmálamenn framtíðarinnar yrðu svo aumir að á Alþingi gætu þeir ekki komið sér saman um breytingartillögur á stjórnarskránni til að leggja fyrir þjóðaratkvæði, ef einhver þörf væri á breytingu.
En er kannski ástæða þess að stjórnarskráin hefur í aðalatriðum verið óbreytt frá 1944 sú að engin þörf hefur verið á frekari breytingum en gerðar hafa verið varðandi kjördæmaskipan, mannréttindi og örfá önnur atriði.
Engin krafa hefur verið frá þjóðinni um stjórnarskrárbreytingar eða frá einstökum frambjóðendum til Alþingis í kosningabaráttu þeirra. Stjórnmálaflokkar hafa ekki haft uppi tillögur um stjórnarskrárbreytingar, aðrar en þær sem gerðar hafa verið. Í þeirri umræðu, sem verið hefur af og til í nokkur ár, og mest eftir ,,hrun", um breytingar á stjórnarskránni, hefur nánast ekkert verið rætt um hvað það er í stjórnarskránni sem menn telja að nauðsynlegt sé að breyta.
Þetta stjórnarskrárrugl, sem ég kalla svo, er nú nálgast lokastig fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna, sem leiðbeina á Alþingi, er upprunnið hjá ýmsum einstaklingum sem gjarnan hafa getið sér nafn á allt öðrum sviðum en stjórnmálum, illa höldnum af ranghugmyndum um stjórnskipunarlög og síðan stjórnmálamönnum, sem vantar athygli. Flestir, sem komu umræðunni um stjórnarskrárbreytingu af stað ræddu um að semja nýja stjórnarskrá frá grunni án þess þó að skýra frekar hvað við er átt.
Nýja stjórnarskrá frá grunni! Hvað áttu menn við? Hvað vildu menn út úr stjórnarskránni og hvað vildu menn inn í hana sem ekki er þar? Telja menn sig hafa fengið það sem þeir vildu með frumvarpi Stjórnlagaráðs? Einhverjir töluðu um nýtt lýðveldi í þessu sambandi, einnig án þess að skýra frekar við hvað er átt. Fengu þeir frumvarp að stofnskrá nýs lýðveldis frá Stjórnlagaráðinu? Nei aldeilis ekki. Það sem frumvarpið breytir frá núgildandi stjórnarskrá er mest vandræðalegt og óskýrt kák og orðagjálfur.
Nýtt lýðveldi! Hvað er það? Yrði ekki sama fólkið í landinu með sömu hefðirnar, hugsunarháttinn og þjóðareinkennin? Yrði rótgróinni landlægri spillingu og hefðbundnu svindli þjóðarinnar, t.d. skattsvikum, útrýmt með nýrri stjórnarskrá? Ekkert frumvarpi Stjórnlagaráðs bendir til að breytinga á slíku sé að vænta með samþykkt frumvarpsins.
Þá hafa margir þeirra sem tala um nauðsyn nýrrar stjórnarskrár, slegið um sig með því að tala niðrandi um stjórnarskrána sem danska stjórnarskrá, sem hafi verið þýdd á íslensku í flýti fyrir lýðveldisstofnunina og troðið upp á íslendinga. Og stjórnarskráin sé úrelt. Þetta er fjarri því að vera rétt. Það sjá allir sem lesa og skilja texta stjórnarskrárinnar. Stjórnarskrárnefnd, skipuð helstu stjórnmálamönnum landsins á þeim tíma, samdi stjórnarskrána að vel yfirveguðu ráði. Einkum var hlutverk forsetans og þar með vel íhuguð 26. greinin um synjunarvald forseta. Þá virðast flestir gleyma því að í 2. gr. stjórnarskrárinnar mælt fyrir um það að forsetinn og Alþingi fari saman með löggjafarvaldið. Sú setning er ekki í stjórnarskránni út í loftið. Þessi grein var sett að vel athuguðu máli og ber að skilja hana samkvæmt orðanna hljóðan. Menn geta hins vegar af ýmsum ástæðum viljað breyta því. Þjóðin hefur vanist því að hafa áhrifalitla forseta til vera gestgjafar og halda skálaræður í samkvæmum.
Uppruni hugmyndanna um breytingar á 26. greininni til að veikja hana eða afnema synjunarvaldið urðu til í fjandskap við núverandi forseta vegna þess að hann hefur þrívegis beitt synjunarvaldinu samkvæmt vilja þjóðarinnar, en gegn hagsmunum forystumanna tiltekinna stjórnmálaflokka.
Það má breyta 26. greininni en ekki til að afnema synjunarvaldið. Heldur styrkja það. Að mínu áliti á forsetinn ekki að vera vilja- eða skoðanalaust ,,sameiningartákn" þjóðarinnar. Hann á ekki að vera sameiningartákn, hvað svo sem það er nú. Hann á að vera, eins og gert var ráð fyrir við samningu stjórnarskrárinnar fyrir lýðveldisstofnunina, eins konar vörður stjórnarskrárinnar og hafa vald til að skipa málum í þjóðaratkvæði þegar (lítill) meirihluti Alþingis færi fram með mál sem þjóðin væri almennt mótfallin. Þar með samþykkir hann ekki lagafrumvörp sem hann telur fara í bág við stjórnarskrána eða vilja þjóðarinnar. Þá á þjóðkjörinn forseti, þjóðhöfðingi, að hafa takmarkað pólitískt vald sem ákveðið er í stjórnarskrá.
Og eitt er algjörlega ljóst. Það er að stjórnarskráin, eða hugsanlegir gallar á henni, á engan þátt í þeim vanda sem íslenska þjóðin rataði í með hruni fjármálakerfis hennar. Það eru lögbrot og siðbrot bankamanna og tiltölulega fámenns hóps fjárglæframanna sem eiga sök á vandanum ásamt almennri spillingu í stjórnkerfinu og skipulegu sinnuleysi eftirlitsstofnana og æðstu stjórnvalda. Stjórnvöld, ríkisstjórnir og Alþingi undanfarinna ára eiga þar alla sök. Gömul stjórnarskrá átti þar engan hlut að máli. Aðeins fólkið, sem einhverjir segja að stofna eigi nýtt lýðveldi, ber þar alla ábyrgð. Frumvarpi stjórnlagaráðs verður þjóðin að hafna í þjóðaratkvæðagreiðslunni.
20.07.12