22.7.2012 | 19:36
Stjórnarskrárklúður 2
Flestar breytingartillögur í frumvarpi Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland eru þýðingarlitlar, merkingarlausar, orðin tóm og orðagjálfur. Ég ætla að fjalla um nokkrar þessar breytingartillögur Stjórnlagaráðsins hér á blogginu á næstunni. Úr því farið er út í þetta stjórnarskrárklúður ætla ég að birta mínar tillögur til breytinga sem ég tel mun betri en tillögur Stjórnlagaráðs.
Um 1. gr.
1. gr. stjórnarskrárinnar er svohljóðandi:
Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn"
Frumvarp Stjórnlagaráðs gerir ráð fyrir því að greinin verði:
Ísland er lýðveldi með þingræðisstjórn"
Breytingartillaga mín: Greinin verði svohljóðandi:
Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn. Íslenska er tungumál lýðveldisins. Á Alþingi skal aðeins töluð íslenska. Öll þingskjöl, lög, reglugerðir, tilskipanir og opinberar tilkynningar frá stjórnvöldum eru á íslensku og öllum aðgengilegar. Lýðveldið tekur til Íslands alls, hafsbotns landgrunnsins umhverfis Ísland og hafsins á landgrunninu. Allar námur sem eru á hafsbotninum eða kunna að verða þar og undir honum ásamt dýrum í hafinu innan 200 mílna efnahagslögsögu Íslands, eru eign lýðveldisins Íslands. Eign, eða umráð yfir landinu og hafinu innan 200 mílna lögsögu, og réttindi utan þeirrar lögsögu, má aldrei láta úr eigu eða umráðum lýðveldisins. Rétti til nýtingar sjávardýra í hafinu innan 200 mílna lögsögu lýðveldisins eða réttinda á hafi og hafsbotni utan þeirrar lögsögu eða náma undir eða á hafsbotninum er ráðstafað með lögum frá Alþingi."
Athugasemd:
Ekki er ljóst hvað Stjórnlagaráðið meinar með því að breyta þessu eina orði í 1. greininni þingbundinni" í þingræðisstjórn. Orðin hafa í huga flestra sömu merkingu, þ.e. að ríkisstjórn sé bundin af ákvörðunum Alþingis. Við breytingu á stjórnarskrá væri rétt að skýra eignarhald á náttúruauðlindum til lands og sjávar. Það er ekki gert í frumvarpinu. Þá er nauðsynlegt að tryggja stöðu íslensku sem opinbers tungumáls þjóðarinnar. Fjölmargar ástæður eru til þess. M. a. sífelld aukning samskipta við útlönd og fjölgum íslendinga af erlendum uppruna. Einnig er nauðsynlegt að umráðasvæði lýðveldisins sé markað í stjórnarskrá.