Slæm ráðgjöf

 

Samtök fyrirtækja á fjármálamarkaði, SFF, skipuð þeim fyrirtækjum sem áður mynduðu Samtök banka og verðbréfafyrirtækja, SBV, eru komin á kreik á nýjan leik eftir „hrunið" með ráðgjöf og umsagnir til stjórnvalda. En eins og flestir vita voru það aðilar þessara samtaka og forverar þeirra sem mest orsökuðu „íslenska hrunið". Vit þeirra á fjármálastarfsemi dugði illa þá sem og tillögur þeirra og umsagnir. Það voru stjórnendur fjármálafyrirtækjanna sem stýrðu þeim í þrot. Fjárglæfrar þeirra koma betur í ljós eftir því sem rannsóknum miðar áfram. Þetta eru sömu aðilarnir og nú ráðleggja stjórnvöldum í umsögnum sínum um fjármál. Lítið virðist hafa breyst í kenningum þessa félagsskapar eftir hrunið eins og umsögn SFF til efnahags- og viðskiptaráðuneytis vegna skýrslu ráðherra til Alþingis um framtíðarskipan fjármálakerfisins sýnir. Þar er klifað á sömu tuggunni og fyrir hrun, þ.e. að engin ástæða sé til þess að ríkið, þ.e. Íbúðalánasjóður þurfi að annast íbúðalán. Þá voru rök samtakanna þau að lán Íbúðalánasjóðs væru niðurgreidd af ríkinu. Það er rangt. Ríkið hefur aldrei niðurgreitt Íbúðalánasjóðslán. Þá kalla samtökin lánveitingar lífeyrissjóða til sjóðfélaga „skuggabankastarfsemi". Því orðatiltæki er sýnilega ætlað að vekja tortryggni í garð sjóðanna. Starfsemin sé skuggaleg. Samtök  fjármálafyrirtækja hafa áður ráðist gegn lánveitingum lífeyrissjóðanna til sjóðsfélaganna og vildu banna hana. Þau vildu sölsa undir bankana alla lánastarfsemi í landinu og halda fákeppninni sem mestri. Lántökukostnaður hjá lífeyrissjóðunum og Íbúðalánasjóði var hins vegar mun lægri en hjá bönkunum. Þeirra kjara mátti almenningur ekki njóta. Þegar stofnað var til lánveitinga af forverum Íbúðalánasjóðs til íbúðarhúsnæðis var það vegna þess að þau lán fengust ekki hjá bönkunum. Og þannig var það til skamms tíma eða þangað til bankarnir hófu samkeppni við Íbúðalánasjóð og reyndu að kæfa hann. Og lífeyrissjóðirnir tóku að lána til íbúðarhúsnæðis fljótlega eftir stofnun þeirra til að bæta úr brýnni þörf sjóðfélaga fyrir lánsfé sem ekki fékkst annarsstaðar. Sú starfsemi sjóðanna hefur verið gríðarlega mikilvæg kjarabót sjóðfélaganna stuðlaði að því að þeir eignuðust húsnæði sem þeim hefði ella ekki verið kleyft. Höfuðtilgangur SFF er eins og „hrunfyrirtækjanna", sem mynda samtökin, hagsmunagæsla þeirra vegna. Hagsmunir þeirra eru oftast andstæðir hagsmunum viðskiptamanna fjármálafyrirtækjanna, sem er almenningur. Stefna samtakanna er að viðhalda og auka fákeppni á fjármálamarkaði og halda uppi háum vöxtum og þjónustugjöldum. Þetta staðfestir umsögn samtakanna með því að þau gagnrýna lánaþjónustu annarra en aðila að samtökunum og halda því fram að sú starfsemi sé beinlínis skaðleg þjóðfélaginu. Almenningur þarf að átta sig á hvað er skaðlegt í fjármálastarfsemi. Það er auðvitað margt en skaðlegast væri fyrir allan almenning ef fákeppni í fjármálastarfsemi mundi aukast að ráðum SFF, sömu aðilana og keyrðu hér allt í þrot. Þeirra ráð eru jafn slæm nú og þau reyndust fyrir hrunið. Þeir sem voru valdir að hruni fjármálastofnananna treysta því nú að þjóðin sé að gleyma þeim óförum sem þeir leiddu yfir hana og eru byrjaðir á áróðri sínum og þrýstingi á fákæna stjórnmálamenn um að fara að þeirra ráðum um að afhenda fjármálastofnunum Íbúðalánasjóð og banna lífeyrissjóðum að lána sjóðfélögum. Nú geta menn velt fyrir sér hversu gott það væri fyrir þjóðina ef Íbúðalánasjóður hefði verið kominn í hendur bankanna við hrunið eins og leiðtogar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks höfðu komið sér saman um undir lok ríkisstjórnarsamstarfs þeirra. Útlendir kröfuhafar á bankana hefðu áreiðanlega verið ánægðir með það.

Greinin birtist í Mbl. 7. ágúst 2012


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband