Stjórnarskrárklúður 25

 

Um 61. grein.

Stjórnlagaráð leggur til að greinin verði eftirfarandi:

„Birta skal lög, stjórnvaldsfyrirmæli og þjóðréttarsamninga sem ríkið hefur fullgilt. Lögum og stjórnvaldsfyrirmælum má aldrei beita með íþyngjandi hætti fyrr en eftir birtingu þeirra. Um birtingarháttu og gildistöku fer að landslögum."

Athugasemd:

Vísað er til athugasemda við 1. gr. frumvarpsins um stöðu íslensku sem tungumáls lýðveldisins. Ef ekki eru í stjórnarskrá ákvæði 1. gr. tillagna minna þarf í þessari grein að kveða á um tungumál og birtingarfrest frá gildistöku fyriræla og laga.


Stjórnarskrárklúður 24

  Um  60. grein.

Stjórnlagaráð leggur til að greinin verði eftirfarandi:

„Er Alþingi hefur samþykkt lagafrumvarp undirritar forseti Alþingis það og leggur innan tveggja vikna fyrir forseta Íslands til staðfestingar, og veitir undirskrift hans því lagagildi. Forseti Íslands getur ákveðið innan viku frá móttöku frumvarps að synja því staðfestingar. Skal sú ákvörðun vera rökstudd og tilkynnt til forseta Alþingis. Frumvarpið fær þá engu að síður lagagildi, en bera skal lögin innan þriggja mánaða undir þjóðaratkvæði til samþykktar eða synjunar. Ræður einfaldur meirihluti hvort lögin halda gildi sínu. Atkvæðagreiðsla fer þó ekki fram felli Alþingi lögin úr gildi innan fimm daga frá synjun forseta. Um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu skal að öðru leyti mælt fyrir í lögum".

Breytingartillaga:

Greinin falli niður.

Athugasemd:

Greinin er óþörf. Vísast til breytingartillögu og athugasemda við 37. grein hér að framan á blogginu en sú grein kæmi alveg í stað 60. greinarinnar. Breytingartillagan  skýrir sig sjálf. Hún er ein af mörgum hugmyndum sem eru betri en tillögur Stjórnlagaráðs. Greinin og breytingartillagan er um mjög pólitísk ákvæði í stjórnskipaninni og getur því verið um margar gerðir af þessari grein að ræða.

Samsvarandi grein í núgildandi stjórnarskrá:

 26. gr. Ef Alþingi hefur samþykkt lagafrumvarp, skal það lagt fyrir forseta lýðveldisins til staðfestingar eigi síðar en tveim vikum eftir að það var samþykkt, og veitir staðfestingin því lagagildi. Nú synjar forseti lagafrumvarpi staðfestingar, og fær það þó engu að síður lagagildi, en leggja skal það þá svo fljótt sem kostur er undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar með leynilegri atkvæðagreiðslu. Lögin falla úr gildi, ef samþykkis er synjað, en ella halda þau gildi sínu.

 


Stjórnarskrárklúður 23

  Um 58. grein

Stjórnlagaráð leggur til að greinin verði eftirfarandi:

„Þingsályktunartillögur ríkisstjórnar eru teknar til athugunar og meðferðar í þingnefndum áður en þær eru ræddar á Alþingi. Tillögu til þingsályktunar má ekki samþykkja fyrr en eftir tvær umræður á Alþingi. Tillögur til þingsályktana sem hafa ekki hlotið lokaafgreiðslu falla niður við lok löggjafarþings. Tillögur um þingrof eða vantraust á ráðherra eru ræddar og afgreiddar við eina umræðu. Að öðru leyti skal kveðið á um meðferð þingmála í lögum."

Athugasemd: Óþörf grein í stjórnarskrá. Efni hennar á að vera í þingsköpum


Stjórnarskrárklúður 22

 

 Um 39. grein.

Stjórnlagaráð leggur til að greinin verði eftirfarandi:

„Á Alþingi eiga sæti 63 þjóðkjörnir þingmenn, kosnir leynilegri kosningu til fjögurra ára. Atkvæði kjósenda alls staðar á landinu vega jafnt. Heimilt er að skipta landinu upp í kjördæmi. Þau skulu flest vera átta. Samtök frambjóðenda bjóða fram lista, kjördæmislista eða landslista eða hvort tveggja. Frambjóðendur mega bjóða sig fram samtímis á landslista og einum kjördæmislista sömu samtaka. Kjósandi velur með persónukjöri frambjóðendur af listum í sínu kjördæmi eða af landslistum, eða hvort tveggja. Honum er og heimilt að merkja í stað þess við einn kjördæmislista eða einn landslista, og hefur hann þá valið alla frambjóðendur listans jafnt. Heimilt er að mæla fyrir um í lögum að valið sé einskorðað við kjördæmislista eða landslista sömu samtaka. Þingsætum skal úthluta til samtaka frambjóðenda þannig að hver þeirra fái þingmannatölu í sem fyllstu samræmi við heildaratkvæðatölu. Í lögum skal mælt fyrir um hvernig þingsætum skuli úthlutað til frambjóðenda út frá atkvæðastyrk þeirra. Í lögum má mæla fyrir um að tiltekinn fjöldi þingsæta sé bundinn einstökum kjördæmum, þó ekki fleiri en 30 alls. Tala kjósenda á kjörskrá að baki hverju bundnu sæti skal ekki vera lægri en meðaltalið miðað við öll 63 þingsætin. Í kosningalögum skal mælt fyrir um hvernig stuðla skuli að sem jöfnustu hlutfalli kvenna og karla á Alþingi. Breytingar á kjördæmamörkum, tilhögun á úthlutun þingsæta og reglum um framboð, sem fyrir er mælt í lögum, verða aðeins gerðar með samþykki 2/3 atkvæða á Alþingi. Slíkar breytingar má ekki gera ef minna en sex mánuðir eru til kosninga, og gildistaka þeirra skal frestast ef boðað er til kosninga innan sex mánaða frá staðfestingu þeirra."

Breytingartillaga: Greinin verði svohljóðandi:

Á Alþingi eiga sæti 53  þjóðkjörnir þingmenn, kosnir leynilegri hlutbundinni kosningu til fjögurra ára.
Kjördæmi skulu vera fæst sex en flest sjö. Mörk þeirra skulu ákveðin í lögum, en þó er heimilt að fela landskjörstjórn að ákveða kjördæmamörk í Reykjavík og nágrenni.
Í hverju kjördæmi skulu vera minnst sex kjördæmissæti sem úthluta skal á grundvelli kosningaúrslita í kjördæminu. Fjöldi þingsæta í hverju kjördæmi skal að öðru leyti ákveðinn í lögum.Öðrum þingsætum en kjördæmissætum skal ráðstafa í kjördæmi og úthluta þeim til jöfnunar milli stjórnmálasamtaka, sem buðu fram í viðkomandi kosningu, þannig að hver samtök fái þingmannatölu í sem fyllstu samræmi við heildaratkvæðatölu sín. Þau stjórnmálasamtök koma þó ein til álita við úthlutun jöfnunarsæta sem hlotið hafa minnst fimm af hundraði af gildum atkvæðum á landinu öllu.
Ef kjósendur á kjörskrá að baki hverju þingsæti, að meðtöldum jöfnunarsætum, eru eftir alþingiskosningar færri í einu kjördæmi en einhverju öðru kjördæmi skal landskjörstjórn breyta fjölda þingsæta í kjördæmum og jafna þannig fjölda atkvæða á hvern þingmann í kjördæmum. Setja skal nánari fyrirmæli um þetta í lög.
Breytingar á kjördæmamörkum og tilhögun á úthlutun þingsæta, sem fyrir er mælt í lögum, verða aðeins gerðar með samþykki 2/3 atkvæða á Alþingi.

Athugasemd:

Um þessa grein frumvarps ráðsins  má margt segja. Eins og hún er fram sett miðar hún að því að koma núverandi flokkakerfi í upplausn. Stjórnmálaflokkar bjóði ekki fram heldur „Samtök frambjóðenda bjóða fram lista, kjördæmalista eða landslista eða hvort tveggja". Væntanlega sjá flestir þá upplausn og rugling sem þetta ákvæði veldur. Og enn er bætt við ruglið í tillögunni: „Frambjóðendur mega bjóða sig fram á einum landslista og einum kjördæmalista sömu samtaka. Kjósandi velur með persónukjöri frambjóðendur af listum í sínu kjördæmi eða af landslistum eða hvort tveggja". Sjá menn fyrir sér hvernig þetta verður í framkvæmd? Síðan gerir tillaga ráðráðsins ráð fyrir að kjósandanum sé „og heimilt að merkja í stað þess við einn kjördæmalista eða einn landslista, og hefur hann þá valið alla frambjóðendur listans jafnt" . Ekki bætir þetta um betur. Það er augljóst að Stjórnlagaráðið er með tillögu sinni, ef það veit þá nokkuð hvað það er að gera, að ráðast gegn því flokkakerfi sem hér er og opna leið fyrir upplausn og ringulreið í stjórnmálum landsins sem er þó næg fyrir. Fyrir utan það að boða stórpólitíska breytingu á lýðræðishefð íslendinga er tillagan alltof flókin og yrði óviðráðanleg stórum hluta kjósenda.  Tillagan sem ég set fram er mun einfaldari og hún gerir ráð fyrir jöfnun á vægi atkvæða á bak við hvern þingmann. Þá legg ég til að þingmannafjöldi að vera 53 en ekki 63 eins og nú er. Ég er samt ekki sannfærður um að það yrði til bóta. En ef sú breyting væri gerð er nokkuð ljóst að auka yrði aðstoð við þingmenn með aðstoðarmönnum eða á annan hátt. Þingmenn, hversu snjallir sem þeir kunna að vera, geta hver um sig ekki sett sig inn í öll mál sem þingið þarf að afgreiða. Og enn síður ráða þeir við það ef umræðuhefðin í þinginu verður eins og hún hefur verið, mjög ómálefnaleg jafnvel í flóknustu og mikilvægustu málum.

 


Stjórnarskrárklúður 21

 

Um 37. grein.

Stjórnlagaráð leggur til að greinin verði eftirfarandi:

„Alþingi fer með löggjafarvald og fjárstjórnarvald ríkisins og hefur eftirlit með framkvæmdarvaldinu svo sem nánar er mælt fyrir um í stjórnarskrá þessari og öðrum lögum."

Breytingartillaga:

Greinin verði svohljóðandi:

„Alþingi starfar í einni málstofu. Alþingi fer með löggjafarvald og fjárstjórnarvald ríkisins og hefur eftirlit með framkvæmdarvaldinu svo sem nánar er mælt fyrir um í stjórnarskrá þessari og öðrum lögum

 Ef Alþingi hefur samþykkt lagafrumvarp, skal það lagt fyrir forseta lýðveldisins til staðfestingar eigi síðar en tveim vikum eftir að það var samþykkt, og veitir staðfestingin því lagagildi. Forseti lýðveldisins staðfestir eða synjar lagafrumvarpi staðfestingar innan tveggja vikna frá því það var lagt fyrir hann. Forseti lýðveldisins getur, án atbeina ráðherra, synjað lagafrumvarpi staðfestingar. Þó getur forseti ekki synjað lagafrumvarpi staðfestingar sem samþykkt hefur verið af 2/3 hluta atkvæða fullskipaðs Alþingis.

Nú synjar forseti lagafrumvarpi staðfestingar, og fær það þó engu að síður lagagildi, en leggja skal það þá svo fljótt sem kostur er undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar með leynilegri atkvæðagreiðslu. Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum í atkvæðagreiðslunni. Dómsmálaráðherra framkvæmir  þjóðaratkvæðagreiðslu um samþykkt eða synjum laga, sem forseti hefur synjað staðfestingar. Atkvæðagreiðsluna skal  framkvæma samkvæmt gildandi lögum um kosningar til Alþingis.

Lögin falla úr gildi, ef samþykkis er synjað, en ella halda þau gildi sínu. Forseti lýðveldisins getur ákveðið að lagafrumvarp sem Alþingi fellir í atkvæðagreiðslu sé lagt undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar. Einfaldur meirihluti ræður úrslitum í atkvæðagreiðslunni. Verði lagafrumvarpið samþykkt öðlast það lagildi með áritum forseta. Sé lagafrumvarpið fellt í atkvæðagreiðslunni gildir afgreiðsla Alþingis.

Lagafrumvarp um samninga við önnur ríki eða ríkjasambönd, sem samþykkt hafa verið á Alþingi, skal bera undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu krefjist minnihluti alþingismanna, sem í eru minnst 1/3 hluti fullskipaðs Alþingis þess. Um framkvæmd slíkrar atkvæðagreiðslu fer með sama hætti og um atkvæðagreiðslu um lög sem forseti lýðveldisins hefur synjað staðfestingar."

Athugasemd:

Breytingartillagan  skýrir sig sjálf. Hún er ein af mörgum hugmyndum sem eru betri en tillögur Stjórnlagaráðs. Breytingartillagan er um verulega pólitísk atriði í stjórnskipaninni og getur því verið um margar gerðir af þessari grein að ræða. En tillaga Stjórnlagaráðs er ekki nægjanlega skýr. Þessi er mun skýrari og nákvæmari.

 


Slæm ráðgjöf

 

Samtök fyrirtækja á fjármálamarkaði, SFF, skipuð þeim fyrirtækjum sem áður mynduðu Samtök banka og verðbréfafyrirtækja, SBV, eru komin á kreik á nýjan leik eftir „hrunið" með ráðgjöf og umsagnir til stjórnvalda. En eins og flestir vita voru það aðilar þessara samtaka og forverar þeirra sem mest orsökuðu „íslenska hrunið". Vit þeirra á fjármálastarfsemi dugði illa þá sem og tillögur þeirra og umsagnir. Það voru stjórnendur fjármálafyrirtækjanna sem stýrðu þeim í þrot. Fjárglæfrar þeirra koma betur í ljós eftir því sem rannsóknum miðar áfram. Þetta eru sömu aðilarnir og nú ráðleggja stjórnvöldum í umsögnum sínum um fjármál. Lítið virðist hafa breyst í kenningum þessa félagsskapar eftir hrunið eins og umsögn SFF til efnahags- og viðskiptaráðuneytis vegna skýrslu ráðherra til Alþingis um framtíðarskipan fjármálakerfisins sýnir. Þar er klifað á sömu tuggunni og fyrir hrun, þ.e. að engin ástæða sé til þess að ríkið, þ.e. Íbúðalánasjóður þurfi að annast íbúðalán. Þá voru rök samtakanna þau að lán Íbúðalánasjóðs væru niðurgreidd af ríkinu. Það er rangt. Ríkið hefur aldrei niðurgreitt Íbúðalánasjóðslán. Þá kalla samtökin lánveitingar lífeyrissjóða til sjóðfélaga „skuggabankastarfsemi". Því orðatiltæki er sýnilega ætlað að vekja tortryggni í garð sjóðanna. Starfsemin sé skuggaleg. Samtök  fjármálafyrirtækja hafa áður ráðist gegn lánveitingum lífeyrissjóðanna til sjóðsfélaganna og vildu banna hana. Þau vildu sölsa undir bankana alla lánastarfsemi í landinu og halda fákeppninni sem mestri. Lántökukostnaður hjá lífeyrissjóðunum og Íbúðalánasjóði var hins vegar mun lægri en hjá bönkunum. Þeirra kjara mátti almenningur ekki njóta. Þegar stofnað var til lánveitinga af forverum Íbúðalánasjóðs til íbúðarhúsnæðis var það vegna þess að þau lán fengust ekki hjá bönkunum. Og þannig var það til skamms tíma eða þangað til bankarnir hófu samkeppni við Íbúðalánasjóð og reyndu að kæfa hann. Og lífeyrissjóðirnir tóku að lána til íbúðarhúsnæðis fljótlega eftir stofnun þeirra til að bæta úr brýnni þörf sjóðfélaga fyrir lánsfé sem ekki fékkst annarsstaðar. Sú starfsemi sjóðanna hefur verið gríðarlega mikilvæg kjarabót sjóðfélaganna stuðlaði að því að þeir eignuðust húsnæði sem þeim hefði ella ekki verið kleyft. Höfuðtilgangur SFF er eins og „hrunfyrirtækjanna", sem mynda samtökin, hagsmunagæsla þeirra vegna. Hagsmunir þeirra eru oftast andstæðir hagsmunum viðskiptamanna fjármálafyrirtækjanna, sem er almenningur. Stefna samtakanna er að viðhalda og auka fákeppni á fjármálamarkaði og halda uppi háum vöxtum og þjónustugjöldum. Þetta staðfestir umsögn samtakanna með því að þau gagnrýna lánaþjónustu annarra en aðila að samtökunum og halda því fram að sú starfsemi sé beinlínis skaðleg þjóðfélaginu. Almenningur þarf að átta sig á hvað er skaðlegt í fjármálastarfsemi. Það er auðvitað margt en skaðlegast væri fyrir allan almenning ef fákeppni í fjármálastarfsemi mundi aukast að ráðum SFF, sömu aðilana og keyrðu hér allt í þrot. Þeirra ráð eru jafn slæm nú og þau reyndust fyrir hrunið. Þeir sem voru valdir að hruni fjármálastofnananna treysta því nú að þjóðin sé að gleyma þeim óförum sem þeir leiddu yfir hana og eru byrjaðir á áróðri sínum og þrýstingi á fákæna stjórnmálamenn um að fara að þeirra ráðum um að afhenda fjármálastofnunum Íbúðalánasjóð og banna lífeyrissjóðum að lána sjóðfélögum. Nú geta menn velt fyrir sér hversu gott það væri fyrir þjóðina ef Íbúðalánasjóður hefði verið kominn í hendur bankanna við hrunið eins og leiðtogar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks höfðu komið sér saman um undir lok ríkisstjórnarsamstarfs þeirra. Útlendir kröfuhafar á bankana hefðu áreiðanlega verið ánægðir með það.

Greinin birtist í Mbl. 7. ágúst 2012


Stjórnarskrárklúður 20

 

Um 35. grein.

Stjórnlagaráð leggur til að greinin verði eftirfarandi:

„Stjórnvöldum ber að upplýsa almenning um ástand umhverfis og náttúru og áhrif framkvæmda þar á. Stjórnvöld og aðrir skulu upplýsa um aðsteðjandi náttúruvá, svo sem umhverfismengun.

Með lögum skal tryggja almenningi aðgang að undirbúningi ákvarðana sem hafa áhrif á umhverfi og náttúru, svo og heimild til að leita til hlutlausra úrskurðaraðila.

Við töku ákvarðana um náttúru Íslands og umhverfi skulu stjórnvöld byggja á meginreglum umhverfisréttar."

Athugasemd :

Fella ber 1. mgr. niður. Varla hafa Stjórnlagaráðsmenn gert sér grein fyrir því hvað felst í greininni. Fyrsta mgr. tillögunnar gerir ráð fyrir gríðarlega miklum rannsóknum og skýrslugjöf til almennings. sem hefði nánast enga gagnsemi í för með sér. Þá gerir náttúruvá yfirleitt ekki boð á undan sér. Vitneskja um aðsteðjandi náttúruvá verður oftast aðeins ljós fáeinum mínútum eða í mesta klukkustundum áður en hún dynur yfir. Engin veit þá hve miklar afleiðingar verða. Það er því erfitt fyrir stjórnvöld að gefa aðvaranir um slíkt. Þetta á einnig við um umhverfismengun.Það eru í gildi lög í landinu um almannavarnir. Þau lög taka á því sem ráðið vill nú setja í stjórnarskrá. Stjórnvöld og aðrir er sagt í 1. mgr. Hverjir eru þessir aðrir? 1. mgr. er ótæk í stjórnarskrá.


Stjórnarskrárklúður 19

 

Stjórnlagaráð leggur til að greinin verði eftirfarandi:

 „Náttúra Íslands er undirstaða lífs í landinu. Öllum ber að virða hana og vernda.

Öllum skal með lögum tryggður réttur á heilnæmu umhverfi, fersku vatni, ómenguðu andrúmslofti og óspilltri náttúru. Í því felst að fjölbreytni lífs og lands sé viðhaldið og náttúruminjar, óbyggð víðerni, gróður og jarðvegur njóti verndar. Fyrri spjöll skulu bætt eftir föngum.

Nýtingu náttúrugæða skal haga þannig að þau skerðist sem minnst til langframa og réttur náttúrunnar og komandi kynslóða sé virtur.

Með lögum skal tryggja rétt almennings til að fara um landið í lögmætum tilgangi með virðingu fyrir náttúru og umhverfi."

Um 33. greinina.

 Greinin er almennt séð óhæf í stjórnarskrá. En út úr greininni þarf a.m.k. að fara „Fyrri spjöll skulu bætt eftir föngum"og réttur náttúrunnar og komandi kynslóða sé virtur."

Réttur náttúrunnar er óljóst hugtak. Hvaða rétt hefur náttúran og hver hefur sett henni einhvern rétt? Hvað er óspillt náttúra? Er það land þar sem ekkert hefur verið framkvæmt? Til að mynda þar sem ekki hefur verið virkjað fallvatn eða jarðhiti og slóð eða vegur ekki lagður? Margir álíta vegi, slóðir og virkjanir fallvatna og jarðhita náttúruspjöll. Og girðingar. Og yfirleitt allar breytingar á náttúru landsins í þágu atvinnu og efnahagslífs náttúruspjöll. „Fyrri spjöll skulu bætt eftir föngum" er sagt í frumvarpinu. Á t.m. að rífa Kárahnjúkavirkjun. Það er hægt og margir töldu virkjunina mestu náttúruspjöll íslandssögunnar. Þar á meðal einn af stjórnlagaráðsmönnum, sem vildi rífa Kárahnjúkastíflu þegar hún var hálfnuð í byggingu Þá er ekki hægt að tryggja rétt á heilnæmu umhverfi og svo frv. T.d. vegna náttúruhamfara.

Hver er réttur komandi kynslóða? Réttur komandi kynslóða er tiltölulega nýtt hugtak og  óútskýrt. Kynslóðirnar hafa hingað til fæðst inn í þann heim sem fyrir er þegar þær fæðast án sérstaks réttar til neins. Eðli málsins samkvæmt hafa kynslóðirnar erft heiminn sem hefur að mestu leyti farið batnandi, ríkari hluti þjóðanna. Með þessari  tillögu stjórnlagaráðsins er verið að koma inn í stjórnarskrá óleystu deiluefni sem alls ekki leystist við samþykkt greinarinnar. Fjölmargt annað er athugavert við þessa grein.

 


Stjórnarskrárklúður 18

 

Um 26. grein.

Stjórnlagaráð leggur til að greinin verði eftirfarandi:

„Allir skulu ráða búsetu sinni og vera frjálsir ferða sinna með þeim takmörkunum sem eru settar með lögum.

Engum verður meinað að hverfa úr landi nema með ákvörðun dómstóla. Stöðva má þó brottför manns úr landi með lögmætri handtöku.

Með lögum skal kveða á um rétt flóttamanna og hælisleitenda til réttlátrar og skjótrar málsmeðferðar."

Athugasemd:             

Fella á síðustu málgreinina niður. Í stjórnarskrá er ekki eðlilegt að hafa ákvæði um málefni útlendinga. Um réttindi þeirra er fjallað í lögum frá Alþingi og í alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að.


Stjórnarskrárklúður 17

 

Um 25. grein.

Stjórnlagaráð leggur til að greinin verði eftirfarandi:

„Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þau kjósa. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum ef almannahagsmunir krefjast.

Í lögum skal kveða á um rétt til mannsæmandi vinnuskilyrða, svo sem hvíldar, orlofs og frítíma. Öllum skal tryggður réttur til sanngjarnra launa og til að semja um starfskjör og önnur réttindi tengd vinnu."

Athugasemd:

Mjög umdeilanlegt er hvað eru mannsæmandi vinnuskilyrði. Enn umdeilanlegra er hvað séu sanngjörn laun og ósennilegt er að launþegahreyfingarnar í landinu fallist á að laun félaga í þeim séu yfirleitt sanngjörn þótt um þau hafi verið samnið. Seinni málsgrein þessarar greinar er óhæf í stjórnarskrá.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband