Stjórnarskrárklúður 16

 

Um 24. gr.

Stjórnlagaráð leggur til að greinin verði eftirfarandi:

„Öllum skal tryggður í lögum réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi. Öllum þeim, sem skólaskylda nær til, skal standa til boða menntun án endurgjalds. Menntun skal miða að alhliða þroska hvers og eins, gagnrýninni hugsun og vitund um mannréttindi, lýðræðisleg réttindi og skyldur."

Athugasemd:

 Að tryggja öllum rétt til menntunar og fræðslu við sitt hæfi er orðalag sem unnt er að teygja út og suður. Hvernig eiga lögin að vera til að þau standist stjórnarskrána? Þarna eiga aðeins vera ákvæði sem tryggja landsmönnum jafnan rétt samkvæmt þeim lögum sem gilda.


Stjórnarskrárklúður 15

 

Um 23. grein.

Stjórnlagaráð leggur til að greinin verði eftirfarandi:

„Allir eiga rétt til að njóta andlegrar og líkamlegrar heilsu að hæsta marki sem unnt er. Öllum skal með lögum tryggður réttur til aðgengilegrar, viðeigandi og fullnægjandi heilbrigðisþjónustu."

Breytingartillaga:

Fyrri setningin falli niður og í seinni setningunni verði orðinu „jafn" bætt inn fyrir framan réttur til... og orðið fullnægjandi falli niður.

Athugasemd :

Greinin eins og lagt er til að hún sé er ekki hæf í stjórnarskrá. Er ekki ávallt umdeilanlegt hvað unnt er að tryggja og  gera í heilbrigðismálum? Og að njóta að hæsta marki sem unnt er! Hvað merkir það í raun? Mikill munur er á því sem unnt er að gera og þess sem kleift er að gera kostnaðar vegna eða er skynsamlegt er af ýmsum ástæðum. Einnig er og verður ávallt deiluefni hvað sé fullnægjandi heilbrigðisþjónusta. Hver ákveður hvað sé fullnægjandi?


Stjórnarskrárklúður 14

 

Um 22. grein.

Stjórnlagaráð leggur til að greinin verði eftirfarandi:

„Öllum skal með lögum tryggður réttur til lífsviðurværis og félagslegs öryggis. Öllum, sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar, svo sem vegna atvinnuleysis, barneigna, elli, fátæktar, fötlunar, veikinda, örorku eða sambærilegra aðstæðna."

Athugasemd:

 Réttara er að bæta inn orðinu „jafn" inn fyrir framan „tryggður"vegna þess að ávallt verður það pólitískt umdeilanlegt hvernig almannatryggingum skuli háttað og getu þjóðfélagsins til slíkra trygginga.


Stjórnarskrárklúður 13

 

 Um 20. grein.

Stjórnlagaráð leggur til að greinin verði eftirfarandi:

„Öllum skal tryggður réttur til að stofna félög í löglegum tilgangi, þar með talin stjórnmálafélög og stéttarfélög, án þess að sækja um leyfi til þess. Félag má ekki leysa upp með ráðstöfun stjórnvalds

Engan má skylda til aðildar að félagi. Með lögum má þó kveða á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra."

Breytingartillaga: Í stað orðanna: „Félag má ekki leysa upp með ráðstöfun stjórnvalds." komi:

„ Félag má leysa upp ef dómstólar hafa úrskurðað að það eigi aðild að ólöglegri starfsemi".

Athugasemd:

Augljóst er að nauðsynlegt getur verið að heimilt sé að leysa upp félög sem eru sönn að því að stunda ólöglega starfsemi eða félagar þeim, sameiginlega eða í hópum stunda glæpastarfsemi.


Stjórnarskrárklúður 12

 

Um 14. grein

Stjórnlagaráð leggur til að greinin verði eftirfarandi:

„Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar og eiga rétt á að tjá hugsanir sínar.

Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða. Þó má setja tjáningarfrelsi skorður með lögum til verndar börnum, öryggi, heilsu, réttindum eða mannorði annarra, svo sem nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi. Stjórnvöld skulu tryggja aðstæður til opinnar og upplýstrar umræðu. Óheimilt er að skerða aðgang að netinu og upplýsingatækni nema með úrlausn dómara og að uppfylltum sömu efnisskilyrðum og eiga við um skorður við tjáningarfrelsi. Hver og einn ber ábyrgð á framsetningu skoðana sinna fyrir dómi."

Athugasemd:

Hvernig eiga stjórnvöld að tryggja aðstæður til opinnar og upplýstrar umræðu? Er það með því að reka ljósvakafjölmiðla, netfyrirtæki, prentsmiðjur og blaðaútgáfu? Eiga slíkar kvaðir um að tryggja eitthvað að vera í stjórnarskrá?


Stjórnarskrárklúður 11

 

Um 12. grein.

Stjórnlagaráð leggur til að 12. grein stjórnarskrárinnar verði eftirfarandi:

„Öllum börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.

Það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir í málum sem það varðar.

Barni skal tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í öllum málum sem það varðar og skal tekið réttmætt tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska."

Athugasemd:

Er ekki vafasamt að hafa ákvæði í stjórnarskrá sem ávallt hafa verið deiluefni og verða ávallt deiluefni svosem eins og hvað er barni fyrir bestu? Við framkvæmd eftirlits og aðhalds er engin ein og rétt aðferð eða kenning til.


Stjórnarskrárklúður 10

 

Um11. grein

Stjórnlagaráð leggur til að 11. grein frumvarps hennar verði eftirfarandi:

„Friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu skal tryggð. Ekki má gera líkamsrannsókn eða leit á manni, leit í húsakynnum hans eða munum, nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild. Það sama á við um rannsókn á skjölum og póstsendingum, símtölum og öðrum fjarskiptum, svo og hvers konar sambærilega skerðingu á einkalífi manns. Þrátt fyrir ákvæði fyrstu málsgreinar má með sérstakri lagaheimild takmarka á annan hátt friðhelgi einkalífs, heimilis eða fjölskyldu ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra."

Athugasemd:

Greinin er  nánast samhljóða 71. gr. stjórnarskrárinnar. Breytingartillaga ráðsins er óþörf. Ráðið leggur til að orðið „tryggja" komi í stað orðsins „njóta" í 71. grein. Hvernig á að tryggja friðhelgi...? Menn hafa ráðist inn á heimili og spillt friðhelgi þeirra. Einnig hafa menn ráðist inn á Alþingi og spillt friðhelgi þess.. Slíkir atburðir hefðu gerst þótt orðið „tryggja" hefði  verið í greininni í núgildandi stjórnarskrá Best er að hafa greinina óbreytta  eins og hún er í stjórnarskránni„  


Stjórnarskrárklúður 9

 

Um 10. gr. frumvarpsins

Stjórnlagaráð leggur til að 10. gr. stjórnarskrárinnar verði eftirfarandi:

„Öllum skal tryggð mannhelgi og vernd gegn hvers kyns ofbeldi, svo sem kynferðisofbeldi, innan heimilis og utan."

Breytingartillaga:

Greinin falli niður.

Athugasemd: Greinin er algerlega óþörf. Hvernig á að tryggja að menn verði ekki fyrir árásum innan heimila eða utan? Lög eru til um viðbrögð við slíku. Mannhelgi þ.e. persónulegt öryggi borgaranna er varið með fjölmörgum lögum og ákvæðum í stjórnarskrá. Vísast til aths. Við 9. gr.


Stjórnarskrárklúður 8

 

Um 9. gr. frumvarpsins.

Stjórnlagaráð leggur til að 9. gr. verði eftirfarandi:

„Yfirvöldum ber ætíð að vernda borgarana gegn mannréttindabrotum, hvort heldur sem brotin eru af völdum handhafa ríkisvalds eða annarra."

Breytingartillaga:

Fella greinina niður

Athugasemd:

Greinin er óþörf. Aðrar greinar fjalla um efni hennar. Er það rökrétt að setja það í stjórnarskrá að yfirvöld verndi borgana fyrir sjálfum sér? Hvernig á að vernda borgarana gegn slíkum brotum? Í stjórnarskránni og frumvarpinu eru ákvæði um mannréttindi. Fjölmörg lög eru í gildi sem verja margvísleg réttindi borgaranna og lögregla hefur það hlutverk að vernda borgarana og samfélagið fyrir lögbrotum og dómstólar dæma vegna slíkra brota.


Stjórnarskrárklúður 7

 

Um 8. grein frumvarps Stjórnlagaráðs

Ráðið leggur til að greinin verði eftirfarandi:

„Öllum skal tryggður réttur til að lifa með reisn. Margbreytileiki mannlífsins skal virtur í hvívetna."

Breytingartillaga:

Greinin verði svohljóðandi eins og hún er skv. 71. gr. núgildandi stjórnarskrár:

 „Allir skulu njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu."

Athugasemd:

Greinin eins og hún er orðuð í frumvarpinu virðist að mestu orðin tóm, orðagjálfur. Gert er ráð fyrir því í frumvarpsgreininni að „tryggður sé réttur til að lifa með reisn." Óskýrt er hvað er átt við. Hverjir hafa ekki rétt til að lifa með reisn? Erfitt er að sjá hvernig má tryggja má slíkan rétt samkvæmt venjulegum skilningi á orðinu að tryggja eitthvað. „Og margbreytileiki mannlífsins skal virtur í hvívetna." Mjög óljóst. Eins og greinin er í tillögu ráðsins er greinin orðin tóm og tilgangslaus.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband