Um lýðræði í lífeyrissjóðum

Umræða um málefni lífeyrissjóða hefur verið áberandi á síðum blaðanna síðustu mánuði. Hún hefur að mestu verið neikvæð í garð sjóðanna og einkum snúist snúist um lýðræði eða skort á lýðræði í lífeyrissjóðunum. Fullyrt er að sjóðfélagar hefðu engin áhrif á það hvernig fé þeirra væri ráðstafað og ávaxtað eða hverjir skipuðu stjórnir sjóðanna Hönnuð atburðarás Umræðan er það fyrirferðamikil á skömmum tíma frá fólki sem ekki er þekkt fyrir að vera sérstakir talsmenn hagsmuna almenns launafólks. Hún hefur öll einkenni þess að vera hönnuð af þeim sem vilja hafa áhrif á fjárfestingar sjóðanna í anda þeirra aðila sem vilja selja allar grunnstoðir innviða samfélagsins í hendur einkafjárfesta. Meðal þeirra sem hafa skrifað um valfrelsi og lýðræði í lífeyrissjóðunum er formaður Efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis Óli Björn Kárason, ötull talsmaður einkavæðingar ríkiseigna. Hann vill íhlutun Alþingis um aðferðir við stjórnarkjör í lífeyrissjóðunum að sögn til aukins lýðræðis. Því er haldið fram af þeim sem vilja afskipti löggjafans af stjórnarfyrirkomulagi í lífeyrissjóðunum að sjóðfélagarnir hafi ekki aðkomu að stjórnarkjöri. Það er misskilningur. Á aðalfundum stéttarfélaganna eru kjörnir fulltrúar félaganna í stjórnir lífeyrissjóðanna. Gallinn er sá að fáir mæta á þá fundi og því fela þeir sem heima sitja fundarmönnum í raun umboð sitt. Nákvæmlega sama mundi gerast á aðalfundum lífeyrissjóða eða í póstkosningum til stjórna. Því yrði auðvelt fyrir þá sem hefðu þekkingu og tækni, sem fjárfestar hafa yfirleitt, að skipuleggja áróður fyrir framboðum þóknanlegra fulltrúa í stjórnir sjóðanna og fá þá kosna og ná þar fram þeim áhrifum sem þeir stefna að. Aukið valfrelsi og afnám samtryggingar Eins og einhverjir muna, sem fylgjast nú með umræðu um málefni lífeyrissjóða, fluttu, þau Hjálmar Árnason, Pétur Blöndal, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Jónína Bjartmarz, frumvarp á Alþingi árið 2001 til breytinga á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Með frumvarpinu var lagt til að fullt valfrelsi verði hjá launþegum í hvaða lífeyrissjóði þeir greiða iðgjöld sín. Það var grundvallarbreyting frá því sem nú er. Önnur grundvallarbreyting sem þau lögðu til var afnám samtryggingar sem sjóðirnir veita félögum sínum. Í greinargerðinni með frumvarpinu er sagt: "Valfrelsið, sem hér er lagt til, mun flýta þeirri þróun, sem þegar er hafin, að lífeyrissjóðir veiti réttindi háð kyni, aldri og jafnvel fjölskyldustöðu“. Með flutningi þessa frumvarps gengu þingmennirnir þvert á stefnu samtaka atvinnurekenda og verkalýðshreyfingar, sem sömdu um stofnum lífeyrissjóða stéttarfélaga innan ASÍ, um samtryggingu, jafnræði og samfélagslega ábyrgð. Það gekk eins langt frá félagslegum stefnumiðum og unnt er. Hugmyndir að valfrelsi að lífeyrissjóðunum hafa oft komið fram frá stofnun almennu lífeyrissjóðanna en sjaldnast frá sjóðfélögum. Þær hugmyndir hafa yfirleitt lotið að því að þeir sem eru skyldir til að vera í lífeyrissjóði gætu valið sér sjóði. Þeir hugmyndasmiðir hafa almennt verið mjög tengdir viðskiptalífinu og bent á að tryggingafélög, bankar og fjárvörslufélög gætu starfað sem fullgildir lífeyrissjóðir. Kostnaður mun stóraukast Við valfrelsi að sjóðunum myndi kostnaður lífeyrissjóðakerfisins stóraukast. T.d. myndi kapphlaup lífeyrissjóða, banka, sparisjóða, verðbréfafyrirtækja og tryggingafélaga um að ná lífeyrissparnaðinum til sín kosta stórfé í auglýsingum og áróðri. Flóðbylgja slíkra auglýsinga myndi skella yfir þjóðina með allskonar gylliboðum, sem sjaldnast stæðust nánari skoðun. Sá auglýsingakostnaður sem fjármálafyrirtæki hafa í dag eru smámunir miðað við það hvað hann yrði í því kapphlaupi. Auglýsingakostnaður er reksturskostnaður og dregst því frá ávöxtun þess fjár sem viðkomandi fjárvörslusjóður, banki eða tryggingafélag hefur með höndum fyrir sjóðsfélagana. Núverandi lífeyrissjóðakerfi er litið öfundaraugum af öðum þjóðum. Kerfið byggist á skylduaðild að lífeyrissjóðum verkalýðsfélaga og fulltrúalýðræði við val í sjóðstjórnir. Sjóðfélagar lífeyrissjóðanna hafa því enga hagsmuni af því að breyta aðferðum við stjórnarkjör sjóðanna eða valfrelsi um lífeyrissjóði. Birt í Mbl. 17.03.17


Bloggfærslur 20. mars 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband