Ásókn fjárfesta í samfélagseigur

Sífellt er verið að reyna að mynda hjá þjóðinni jákvæð viðhorf til sölu á verðmætum og arðsömum innviðafyrirtækjum samfélagsins til einkafjárfesta. Til þess er beitt margskonar áróðursbrögðum. Til að mynda var í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins 13. mars sl., opnan lögð undir umfjöllun um kosti einkavæðingar Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og Keflavíkurflugvallar undir fyrirsögninni „Evrópskum völlum í einkaeigu fjölgað hratt“. Umfjöllunin er að mestu byggð á viðtali við forstjóra Gamma fjármálafyrirtæki og fólk úr fjármálageiranum, sem lýsir jákvæðum viðhorfum sínum til fjárfestingum einkaaðila í innviðum samfélagsins.
Lymskulegur áróður
Umfjöllunin er lymskulegur áróður fyrir því að ríkið selji Flugstöð Leifs Eiríkssonar að hluta eða öllu leyti. Sagt er frá því að nú sé ríflega helmingur allra flugvalla innan Evrópusambandslandanna í eigu annarra en stjórnvalda. Til samanburðar var hlutfallið árið 2010 aðeins 22 prósent. Þetta á að sýna að ríki Evrópusambandsins séu að forða sér frá rekstri tengdum flugfélögum sem sé mjög áhættusamur. Það hljóti einnig að eiga við rekstur Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar því rekstur flugfélaga í heiminum sé erfiður. Þar á meðal íslensku flugfélaganna. Því þurfi stjórnvöld að draga sig út úr þeim áhætturekstri, allavega að hluta.
Gylla fjárfestingarmöguleika á Íslandi
Fjármálafyrirtækið Gamma hefur árum saman unnið að því að koma útlendendum innviðafjárfestum í verkefni hér á landi. Árið 2016 gaf Gamma út skýrslu sem lýsir hluta af starfsemi fyrirtækisins. Í því sambandi sagði forstjóri Gamma: Vextir í heiminum hafa verið í sögulegu lágmarki sem þýðir að lánsfé er sögulega ódýrt. Fjárfestar þurfa því að hafa talsvert fyrir því að finna fjárfestingar sem skila viðunandi ávöxtun og ennfremur sagði forstjórinn: Við höfum fundað með stórum innviðafjárfestum beggja vegna Atlantshafsins og finnum fyrir miklum áhuga þeirra á að fjárfesta í innviðaverkefnum hér á landi. Samkvæmt þessu virðist Gamma vera að gylla fyrir útlendum fjárfestum að vænlegt sé að hagnast á Íslendingum. Mögulegt væri að græða meira hér en víða annars staðar.
Hinir vænlegu fjárfestingarkostir
Í áðurnefndri skýrslu sem Gamma gaf út handa útlendum fjárfestum eru tilgreind, sem vænleg innviðaverkefni svo sem Sundabraut, stækkun Hvalfjarðarganga, breikkun vega, orkufyrirtæki, Landsnet, Isavia (alþjóðaflugvöllur), sæstrengur til Bretlands, landspítali, léttlestakerfi á höfuðborgarsvæðinu, lest milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar. Nú segir í Markaðnum: Fjárfestar, innlendir sem erlendir, hafa á síðustu árum rætt við stjórnvöld um hugsanlega aðkomu að uppbyggingu Keflavíkurflugvallar en ríkisfyrirtækið Isavia, sem rekur flugvöllinn, áformar að fjárfesta fyrir liðlega 91 milljarð króna á næstu þremur árum til stækkunar á vellinum. Þrátt fyrir jákvæð viðbrögð af hálfu ráðamanna hafa þær þreifingar, sem hafa einkum verið á óformlegum nótum, enn sem komið er ekki borið árangur. Fjárfestar eru óánægðir.
Þrýstingur frá fjárfestum
Það er ljóst að mikill þrýstingur er frá fjárfestum að komast inn í fyrirtæki innviða samfélagsins með fjármagns sitt. Fjárfestar sækjast ekki eftir fjárfestingum nema það séu verulega meiri líkur á hagnaði en tapi. Því sækjast þeir eftir að komast yfir fyrirtæki sem samfélagið getur ekki verið án. Þar geta þeir verið öruggir með fjárfestingu sína því þeir ráða verðlagningu þeirrar þjónustu sem fyrirtækin veita. Fjárfestar sækjast eftir fyrirtækjum sem mest hagnaðarvon er í og minnst áhætta. Áhættan í eign samfélagsins í Ísavia er ekki það mikil að hún réttlæti það að afsala sér fyrirtækinu til einkafjárfesta. Flugstöð Leifs Eiríkssonar og Keflavíkurflugvöllur er vel statt fyrirtæki sem skilar arði sem fer í uppbyggingu og eignaaukningu. Ríkið þarf ekki að leggja fé í framkvæmdir við stækkun Flugstöðvarinnar sem hefur fjármagnað framkvæmdir án beinnar ríkisábyrgðar. Flugstöðin á skilyrðislaust að vera í fullri eign og umráðum ríkisins um alla framtíð. Gleymum því ekki að Ísland er eyja sem hefur ekki landvegi við umheiminn eins og Evrópusambandslöndin.
Árni Þormóðsson
Birt í Mbl. 1. apríl 2019


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband