Stjórnarskrárklúður 34

 

Um 90. grein.

Stjórnlagaráð leggur til að greinin verði eftirfarandi:

„Alþingi kýs forsætisráðherra. Eftir að hafa ráðfært sig við þingflokka og þingmenn gerir forseti Íslands tillögu til þingsins um forsætisráðherra. Er hann rétt kjörinn ef meirihluti þingmanna samþykkir tillöguna. Að öðrum kosti gerir forseti Íslands nýja tillögu með sama hætti. Verði sú tillaga ekki samþykkt fer fram kosning í þinginu milli þeirra sem fram eru boðnir af þingmönnum, þingflokkum eða forseta Íslands. Sá er flest atkvæði hlýtur er rétt kjörinn forsætisráðherra. Hafi forsætisráðherra ekki verið kjörinn innan tíu vikna skal Alþingi rofið og boðað til nýrra kosninga. Forsætisráðherra ákveður skipan ráðuneyta og tölu ráðherra og skiptir störfum með þeim, en ráðherrar skulu ekki vera fleiri en tíu. Forseti Íslands skipar forsætisráðherra í embætti. Forseti veitir forsætisráðherra lausn frá embætti eftir alþingiskosningar, ef vantraust er samþykkt á hann á Alþingi, eða ef ráðherrann óskar þess. Forsætisráðherra skipar aðra ráðherra og veitir þeim lausn. Ráðherrar undirrita eiðstaf að stjórnarskránni er þeir taka við embætti."

Breytingartillaga:

Greinin verði svohljóðandi:

 „Forseti lýðveldisins skipar ráðherra og veitir þeim lausn. Hann ákveður tölu þeirra og skiptir störfum með þeim. Ráðherrar mega ekki vera alþingismenn og gegna jafnframt embætti ráðherra. Forseti lýðveldisins felur að jafnaði þeim sem tilnefndur er af þeim samtökum eða stjórnmálaflokki sem flesta alþingismenn nýkjörins Alþingis hefur, umboð til myndunar ríkisstjórnar. Ríkisstjórn skal hafa stuðning meirihluta alþingismanna eða njóta hlutleysis þeirra og þannig varin vantrausti. Verði, að mati forseta, tafir á myndun ríkisstjórnar veitir hann öðrum umboð til ríkisstjórnarmyndunar eða skipar ríkisstjórn. Ríkisstjórn fer þegar frá ef meirihluti alþingismanna samþykkir á hana vantraust. Verði ekki ný ríkisstjórn mynduð innan viku frá því vantraust var samþykkt á sitjandi ríkisstjórn skipar forseti lýðveldisins ríkisstjórn og boðar til alþingiskosninga sem fram fari innan tíu vikna frá því vantraust á ríkisstjórn var samþykkt."

Athugasemd :

Það er hægt að rökstyðja þetta í löngu máli en það á að vera óþarfi. Tillagan skýrir sig sjálf.


Ný tillaga að stjórnarskrá

 

Ágúst Þór Árason og Skúli Magnússon hafa kynnt tillögu sem þeir hafa samið að nýrri stjórnarskrá íslenska lýðveldisins á vefnum stjornskipun.is

Tillaga þeirra er mjög góð á heildina litið og skýringar þeirra ágætar. Þarna eru menn á ferðinni sem vita hvað þeir eru að tala um. Þar er ekkert orðagjálfur eða hálfgert bull eins og er í tillögum Stjórnlagaráðs. Hugsanlega mætti breyta einhverju smávegis í tillögu þeirra en það er ekkert afgerandi. Þarna er heilstætt verk til samanburðar við núverandi stjórnarskrá og tillögu Stjórnlagaráðs. Ég hvet alla sem hafa áhuga á stjórnarskrármálinu að kynna sér þessar nýju tillögur.

 


Stjórnarskrárklúður 33

 

Um 84. grein.

Stjórnlagaráð leggur til að greinin verði eftirfarandi:

„Forseti verður ekki sóttur til refsingar nema með samþykki Alþingis. Forseta má leysa frá embætti áður en kjörtímabili er lokið, ef það er samþykkt með meirihluta atkvæða við þjóðaratkvæðagreiðslu sem til er stofnað að kröfu Alþingis, enda hafi hún hlotið fylgi 3/4 hluta þingmanna. Þjóðaratkvæðagreiðslan skal þá fara fram innan tveggja mánaða frá því að krafan um hana var samþykkt á Alþingi, og gegnir forseti ekki störfum, frá því að Alþingi gerir samþykkt sína, þar til úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar eru kunn."

Breytingartillaga:

Greinin verði svohljóðandi;

„Forseti lýðveldisins er ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum. Svo er og um þá, er störfum hans gegna. Forseti verður ekki sóttur til refsingar, nema með samþykki Alþingis. Forseti verður leystur frá embætti, áður en kjörtíma hans er lokið, ef það er samþykkt með 2/3 hluta atkvæða við þjóðaratkvæðagreiðslu, sem til er stofnað að kröfu Alþingis, enda hafi hún hlotið fylgi 3/4 hluta alþingismanna.  Þjóðaratkvæðagreiðslan skal þá fara fram innan tveggja mánaða, frá því að krafan um hana var samþykkt á Alþingi, og gegnir forseti eigi störfum, frá því að Alþingi gerir samþykkt sína, þar til er úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar eru kunn. Nú hlýtur krafa Alþingis eigi samþykki við þjóðaratkvæðagreiðsluna, og skal þá Alþingi þegar í stað rofið og efnt til nýrra kosninga. „ 

 Athugasemd:

Óeðlilegt er að Alþingi geti samþykkt að þjóðkjörinn forseti víki en það sitji áfram óbreytt þó þjóðin felli samþykkt Alþingis úr gildi og láti forsetann sitja áfram. Það á að vera erfitt að bola þjóðkjörnum forseta úr starfi og ógerlegt nema yfirgnæfandi meirihluti telji að sakir séu miklar.

 


Stjórnarskrárklúður 32

 

Um 79. grein.

Stjórnlagaráð leggur til að greinin verði eftirfarandi:

„Kjörtímabil forseta hefst 1. ágúst og endar 31. júlí að fjórum árum liðnum. Forsetakjör fer fram í júní- eða júlímánuði það ár, er kjörtímabil endar. Forseti skal ekki sitja lengur en þrjú kjörtímabil".

Breytingartillaga:

 Niður falli: Forseti skal ekki sitja lengur en þrjú kjörtímabil.

Athugasemd:

Allar skerðingar á lýðræði eru slæmar. Það verða að vera mjög sterk rök fyrir því að hafa hömlur á því hve mörg kjörtímabil menn sem eru kosnir í almennum kosningum mega sitja í embætti eða á Alþingi. Það er erfitt að sýna fram á að það sé nauðsynlegt lýðræðinu að kjósa ekki sama forseta fleiri en þrjú kjörtímabil ef kjósendur vilja að hann sitji lengur. Sé forseti það vinsæll meðal borgaranna að þeir vilji hafa hann lengi á ekki að hamla því með ákvæðum í stjórnarskrá. Sé hann óvinsæll verður hann að sjálfsögðu felldur í kosningum.

Um langtímasetu ráðherra gegnir öðru máli en um setu forseta. Ráðherrar eru í daglegri stjórnun stofnana sem undir þá heyra. Deila út embættum og fjármunum og hafa áhrif á afgreiðslu mála á Alþingi. Þeir hafa gjarnan hagsmuni í einu kjördæmi fremur en öðrum, Forsetinn er þjóðkjörinn og störf hans eru af allt öðrum toga en störf ráðherra og þingmanna Hann hefur ekki áhrif á gang einstakra mála á Alþingi og hefur tæplega hagsmuni í einu kjördæmi fremur en öðrum.Ráðherrar eru kjörnir af þingmönnum, flokkssystkinum sínum og þeir fara með framkvæmdavald. Það er því eðlilegt að takmörk séu á setu þeirra í sama ráðuneyti.

 


Stjórnarskrárklúður 31

 

Um 78. grein.

Stjórnlagaráð leggur til að greinin verði eftirfarandi:

„Forseti er kosinn í leynilegri atkvæðagreiðslu þeirra er kosningarrétt hafa til Alþingis. Forsetaefni skal hafa meðmæli minnst eins af hundraði kosningarbærra manna og mest tveggja af hundraði. Kjósendur skulu raða frambjóðendum, einum eða fleirum að eigin vali, í forgangsröð. Sá er best uppfyllir forgangsröðun kjósenda, eftir nánari ákvæðum í lögum, er rétt kjörinn forseti. Ef aðeins einn maður er í kjöri, er hann rétt kjörinn án atkvæðagreiðslu. Að öðru leyti skal ákveða með lögum um framboð og kosningu forseta."

Athugasemd:

Ekki er ljóst hvað er átt við með því að hafa þetta ákvæði í stjórnarskrá:Kjósendur skulu raða frambjóðendum, einum eða fleirum að eigin vali, í forgangsröð. Sá er best uppfyllir forgangsröðun kjósenda, eftir nánari ákvæðum í lögum, er rétt kjörinn forseti."

Séu frambjóðendur fleiri en einn kjósa kjósendur þann sem þeir styðja til embættisins eins og verið hefur. Þannig fer forgangsröðun fram og sama niðurstaða fæst. Bara á einfaldari hátt.


Stjórnarskrárklúður 30

 

Um 70. grein.

Stjórnlagaráð leggur til að greinin verði eftirfarandi:

„Fjárlaganefnd Alþingis getur krafið stofnanir ríkisins, ríkisfyrirtæki og þá aðra, sem fá framlög úr ríkissjóði, um upplýsingar sem tengjast ráðstöfun þess fjár."

Breytingartillaga: Fella greinina niður

Athugasemd:

Ákvæði þessarar greinar er óþarfi að hafa í stjórnarskrá. Efni hennar á einfaldlega að vera í lögum og er það líklega þar sem ríkið fer með eigendavald í stofnunum ríkisins.


Stjórnarskrárklúður 29

 

Um 67. grein

Stjórnlagaráð leggur til að greinin verði eftirfarandi:

„Mál sem lagt er í þjóðaratkvæðagreiðslu að kröfu eða frumkvæði kjósenda samkvæmt ákvæðum 65. og 66. gr. skal varða almannahag. Á grundvelli þeirra er hvorki hægt að krefjast atkvæðagreiðslu um fjárlög, fjáraukalög, lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum né heldur um skattamálefni eða ríkisborgararétt. Þess skal gætt að frumvarp að tillögu kjósenda samrýmist stjórnarskrá. Rísi ágreiningur um hvort mál uppfylli framangreind skilyrði skera dómstólar þar úr. Í lögum skal kveðið á um framkvæmd málskots eða frumkvæðis kjósenda, svo sem um form og fyrirsvar fyrir kröfunni, tímalengd til söfnunar undirskrifta og um fyrirkomulag þeirra, hverju megi til kosta við kynningu, hvernig afturkalla megi kröfuna að fengnum viðbrögðum Alþingis svo og um hvernig haga skuli atkvæðagreiðslu."

Athugasemd:

Fjallar Alþingi um eitthvað sem ekki varðar almannahag? Öll lög hljóta að varða almannahag. Vísað til athugasemda við 66. gr.


Stjórnarskrárklúður 28

 

Um 66. grein.

Stjórnlagaráð leggur til að greinin verði eftirfarandi:

„Tveir af hundraði kjósenda geta lagt fram þingmál á Alþingi. Tíu af hundraði kjósenda geta lagt frumvarp til laga fyrir Alþingi. Alþingi getur lagt fram gagntillögu í formi annars frumvarps. Hafi frumvarp kjósenda ekki verið dregið til baka skal bera það undir þjóðaratkvæði svo og frumvarp Alþingis komi það fram. Alþingi getur ákveðið að þjóðaratkvæðagreiðslan skuli vera bindandi. Atkvæðagreiðsla um frumvarp að tillögu kjósenda skal fara fram innan tveggja ára frá því málið hefur verið afhent Alþingi."

Breytingartillaga:

Greinin í heild falli niður.

Athugasemd:

Að tveir af hundraði kjósenda geti lagt fram þingmál hlýtur að vera mjög vafasamt af mörgum ástæðum. T.m. væri möguleiki á því að svo lítill hópur kjósenda gæti hrúgað inn fjölda grínmála í þeim tilgangi að trufla með því eðlilegt starf þingsins. Þá er erfitt að sjá einhverja lýðræðisumbót leiða af slíku. Er eðlilegt að 2% geti lagt fram frumvarp á Alþingi þegar gert er ráð fyrir að 5% atkvæða þurfi að lágmarki til að koma manni á þing? Síðan er það framkvæmdin. Í greininni er gert ráð fyrir að hægt sé að draga slíkt kjósendafrumvarp til baka. Hvernig á að gera það? Þurfa þá ekki allir í tveggja prósenta hópnum sem lögðu slíkt frumvarp fram með undirskrift sinni að samþykkja að draga það til baka? Margt fleira má taka til. Ætli þurfi ekki að hugsa þetta aðeins betur?


Stjórnarskrárklúður 27

 

Um 65. grein.

Stjórnlagaráð leggur til að greinin verði eftirfarandi:

„Tíu af hundraði kjósenda geta krafist þjóðaratkvæðis um lög sem Alþingi hefur samþykkt. Kröfuna ber að leggja fram innan þriggja mánaða frá samþykkt laganna. Lögin falla úr gildi, ef kjósendur hafna þeim, en annars halda þau gildi sínu. Alþingi getur þó ákveðið að fella lögin úr gildi áður en til þjóðaratkvæðis kemur. Þjóðaratkvæðagreiðslan skal fara fram innan árs frá því að krafa kjósenda var lögð fram."

Athugasemd:

Ekki ættu færri en 20% atkvæðisbærra manna að geta krafist þjóðaratkvæðis um lög sem Alþingi hefur samþykkt. Eitt ár væri alltof langur tími til að hafa frumvarp frá almenningi í biðstöðu. Slíkt frumvarp ætti að hafa a.m. k. sama afgreiðslutíma og t.d. stjórnarfrumvörp, eða þrjá mánuði


Stjórnarskrárklúður 26

 

Um 62, grein.

Stjórnlagaráð leggur til að greinin verði eftirfarandi:

„Alþingi kýs í Lögréttu fimm menn til fimm ára. Þingnefnd eða fimmtungur alþingismanna getur óskað eftir áliti Lögréttu um hvort frumvarp til laga samrýmist stjórnarskrá og þjóðréttarlegum skuldbindingum ríkisins. Ekki má afgreiða frumvarpið fyrr en álit Lögréttu liggur fyrir. Um störf Lögréttu skal mælt fyrir í lögum."

Athugasemd: 

Ef ákvæði á að vera um Lögréttu í stjórnarskránni þurfa að vera nánari ákvæði um hvernig lög um hana skuli vera. Skíra þarf nánar hvað lögrétta verður.Er t.d. átt við að Lögrétta sé stjórnlagadómstóll?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband