Inga Sæland vill afnema samtrygginguna


Eftir Árna Þormóðsson Árni Þormóðsson »

Inga Sæland, Guðmundur Ingi Kristinsson og Flokkur fólksins vilja afnema samtryggingu sjóðfélaga í lífeyrissjóðum verkalýðshreyfingarinnar. Inga Sæland kynnir í pistli í Mbl. 24.11. sl. þingsályktunartillögu sem þau hafa lagt fram á Alþingi um að skora á fjármálaráðherra að leggja fram frumvarp, sem feli í sér eftirtaldar breytingar:
A. -Í fyrsta lagi sé það tryggt að fólk geti valið á milli þess að greiða skyldubundinn lífeyrissparnað í sjóð sem veitir hlutfallslega réttindaávinnslu eða að greiða inn á sérgreindan reikning þar sem hægt er að velja hvernig lífeyrir er ávaxtaður.
B. -Í öðru lagi viljum við að lífeyrisréttindi gangi að erfðum til lögerfingja að fullu þegar lífeyrisþeginn fellur frá. Erfingjar geti valið hvort lífeyrir verði greiddur út til þeirra beint eða hvort réttindin flytjist til erfingja innan kerfisins.

Eðlisbreyting á lífeyrissjóðunum

Samþykki Alþingi breytingar á lögum um lífeyrissjóði samkvæmt þessum tillögum þarf jafnframt að fella niður samtryggingu sjóðfélaga í lífeyrissjóðunum. Við það yrði alger eðlisbreyting á starfsemi lífeyrissjóðanna sem þá væru orðnir eingöngu vörslustofnanir sparifjár til greiðslu ellilífeyris á meðan greidd iðgjöld sjóðfélagans entust. Mjög mikilvægum öryggisþætti í kjörum launafólks væri eytt.

Gegn hagsmunum launafólks

Tillaga Ingu Sæland, Guðmundar Inga og Flokks fólksins beinist því gegn hagsmunum launafólks sem verður fyrir áföllum og þarf að njóta þeirrar tryggingar sem felst í örorku- og maka- og barnalífeyri lífeyrissjóðanna. Það er launafólkið sem þau og flokkurinn þykjast bera fyrir brjósti. Tillögurnar eru líklega settar fram vegna þess að þau sem samið hafa þær og greinargerðina fyrir þeim fjalla í fljótfærni um mál sem þau virðast ekki hafa þekkingu á, auk þess að vera illa haldin af ranghugmyndum um lífeyrissjóðina og starfsemi þeirra. Inga Sæland og ónefndir verkalýðsleiðtogar hafa lengi alið á tortryggi um starfsemi lífeyrissjóðanna og dreift þannig um þá ósannindum.

Rangar fullyrðingar

Það sem Inga Sæland skrifar í ofangreindum pistli er að hluta til samhljóða greinargerðinni með þingsályktunartillögunni, sem reyndar inniheldur, eins og pistillinn, rangfærslur og ósannindi, m.a. eftirfarandi:
-Stjórnir lífeyrissjóða ráða ferðinni. Kaldhæðnislegt en satt að stjórnirnar eru að meirihluta skipaðar fulltrúum atvinnurekenda.- Þetta er rangt og sýnir hve litla þekkingu höfundurinn hefur á því sem hún fjallar um. Stjórnir almennu lífeyrissjóðanna eru til jafns skipaðar fulltrúum verkalýðsfélaga sem aðild eiga að viðkomandi lífeyrissjóði og fulltrúum atvinnurekenda. Þannig hefur það verið frá 1970 og gefist vel.
Rétt er að geta þess að almennt greiðir fólk í lífeyrissjóði sem veita hlutfallslega réttindaávinnslu miðað við greidd iðgjöld og hefur verið svo frá upphafi. Það er engin nýjung í tillögu Ingu Sæland um að tryggja að fólk greiði í þannig lífeyrissjóð.
Varðandi þann hluta tillögu Ingu sem snýr að greiðslu iðgjalda inn á sérgreindan reikning, sem hægt væri að velja um hvernig iðgjöld væru ávöxtuð, er það ljóst að mjög væri aukið á áhættu sjóðfélaga um ávöxtun iðgjalda sinna frá því sem nú er. Fjármálafyrirtæki myndu keppast við að auglýsa ýmiss konar ávöxtunarmöguleika sem oft stæðust ekki skoðun og væru aðallega í þágu fjármálabraskara. Rekstrarkostnaður lífeyrissjóðanna myndi stóraukast. Þessi hluti tillögu Ingu er því sniðinn fyrir fjársýslubraskara en ekki hagsmuni sjóðfélaganna.
Höfundur er eldri borgari.

Birt í Mbl. 04.12.20


Ásókn fjárfesta í samfélagseigur

Sífellt er verið að reyna að mynda hjá þjóðinni jákvæð viðhorf til sölu á verðmætum og arðsömum innviðafyrirtækjum samfélagsins til einkafjárfesta. Til þess er beitt margskonar áróðursbrögðum. Til að mynda var í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins 13. mars sl., opnan lögð undir umfjöllun um kosti einkavæðingar Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og Keflavíkurflugvallar undir fyrirsögninni „Evrópskum völlum í einkaeigu fjölgað hratt“. Umfjöllunin er að mestu byggð á viðtali við forstjóra Gamma fjármálafyrirtæki og fólk úr fjármálageiranum, sem lýsir jákvæðum viðhorfum sínum til fjárfestingum einkaaðila í innviðum samfélagsins.
Lymskulegur áróður
Umfjöllunin er lymskulegur áróður fyrir því að ríkið selji Flugstöð Leifs Eiríkssonar að hluta eða öllu leyti. Sagt er frá því að nú sé ríflega helmingur allra flugvalla innan Evrópusambandslandanna í eigu annarra en stjórnvalda. Til samanburðar var hlutfallið árið 2010 aðeins 22 prósent. Þetta á að sýna að ríki Evrópusambandsins séu að forða sér frá rekstri tengdum flugfélögum sem sé mjög áhættusamur. Það hljóti einnig að eiga við rekstur Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar því rekstur flugfélaga í heiminum sé erfiður. Þar á meðal íslensku flugfélaganna. Því þurfi stjórnvöld að draga sig út úr þeim áhætturekstri, allavega að hluta.
Gylla fjárfestingarmöguleika á Íslandi
Fjármálafyrirtækið Gamma hefur árum saman unnið að því að koma útlendendum innviðafjárfestum í verkefni hér á landi. Árið 2016 gaf Gamma út skýrslu sem lýsir hluta af starfsemi fyrirtækisins. Í því sambandi sagði forstjóri Gamma: Vextir í heiminum hafa verið í sögulegu lágmarki sem þýðir að lánsfé er sögulega ódýrt. Fjárfestar þurfa því að hafa talsvert fyrir því að finna fjárfestingar sem skila viðunandi ávöxtun og ennfremur sagði forstjórinn: Við höfum fundað með stórum innviðafjárfestum beggja vegna Atlantshafsins og finnum fyrir miklum áhuga þeirra á að fjárfesta í innviðaverkefnum hér á landi. Samkvæmt þessu virðist Gamma vera að gylla fyrir útlendum fjárfestum að vænlegt sé að hagnast á Íslendingum. Mögulegt væri að græða meira hér en víða annars staðar.
Hinir vænlegu fjárfestingarkostir
Í áðurnefndri skýrslu sem Gamma gaf út handa útlendum fjárfestum eru tilgreind, sem vænleg innviðaverkefni svo sem Sundabraut, stækkun Hvalfjarðarganga, breikkun vega, orkufyrirtæki, Landsnet, Isavia (alþjóðaflugvöllur), sæstrengur til Bretlands, landspítali, léttlestakerfi á höfuðborgarsvæðinu, lest milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar. Nú segir í Markaðnum: Fjárfestar, innlendir sem erlendir, hafa á síðustu árum rætt við stjórnvöld um hugsanlega aðkomu að uppbyggingu Keflavíkurflugvallar en ríkisfyrirtækið Isavia, sem rekur flugvöllinn, áformar að fjárfesta fyrir liðlega 91 milljarð króna á næstu þremur árum til stækkunar á vellinum. Þrátt fyrir jákvæð viðbrögð af hálfu ráðamanna hafa þær þreifingar, sem hafa einkum verið á óformlegum nótum, enn sem komið er ekki borið árangur. Fjárfestar eru óánægðir.
Þrýstingur frá fjárfestum
Það er ljóst að mikill þrýstingur er frá fjárfestum að komast inn í fyrirtæki innviða samfélagsins með fjármagns sitt. Fjárfestar sækjast ekki eftir fjárfestingum nema það séu verulega meiri líkur á hagnaði en tapi. Því sækjast þeir eftir að komast yfir fyrirtæki sem samfélagið getur ekki verið án. Þar geta þeir verið öruggir með fjárfestingu sína því þeir ráða verðlagningu þeirrar þjónustu sem fyrirtækin veita. Fjárfestar sækjast eftir fyrirtækjum sem mest hagnaðarvon er í og minnst áhætta. Áhættan í eign samfélagsins í Ísavia er ekki það mikil að hún réttlæti það að afsala sér fyrirtækinu til einkafjárfesta. Flugstöð Leifs Eiríkssonar og Keflavíkurflugvöllur er vel statt fyrirtæki sem skilar arði sem fer í uppbyggingu og eignaaukningu. Ríkið þarf ekki að leggja fé í framkvæmdir við stækkun Flugstöðvarinnar sem hefur fjármagnað framkvæmdir án beinnar ríkisábyrgðar. Flugstöðin á skilyrðislaust að vera í fullri eign og umráðum ríkisins um alla framtíð. Gleymum því ekki að Ísland er eyja sem hefur ekki landvegi við umheiminn eins og Evrópusambandslöndin.
Árni Þormóðsson
Birt í Mbl. 1. apríl 2019


Rætin ummæli

Rætin ummæli.
Mjög ósönn og rætin ummæli um SÁÁ eru höfð eftir Kristínu Pálsdóttur, talskonu Rótarinnar, félags kvenna með áfengis- og fíknivanda, í Fréttablaðinu 11. apríl sl. M.a. er haft er eftir talskonunni að SÁÁ „standi þróun og breytingum í meðferðarstarfi fyrir þrifum“, og „staðið í vegi fyrir þróun í meðferðarstarfi hérlendis, meðal annars vegna ríkra rekstrarhagsmuna samtakanna“ Þarna fer talskonan með sérstaklega ósvífnar ósannar ásakanir á hendur samtökunum. Með ósannindum sínum snýr talskonan staðreyndum á haus. SÁÁ hefur frá upphafi samtakanna, fyrir rúmum 40 árum, þróað og bætt meðferðarstarfið sem var nánast ekkert í landinu fyrir stofnun samtakanna. Á ráðstefnu sem haldin var í tilefni af 40 ára afmæli samtakanna sl. haust komu margir af fremstu fíknarlæknum heims sem báru lof á meðferðarstarf og árangur SÁÁ. Þetta vita allir sem vilja vita og bera ekki annarlegar hvatir í brjósti til samtakanna, eins og augljóslega birtast í ummælum talskonunnar í viðtalinu. Meðferðarstarf SÁÁ var lengst af leitt af Þórarni Tyrfingssyni, lækni og menntuðum áfengis- og vímuefnaráðgjöfum og nú af Valgerði Rúnarsdóttur, sérfræðingi í fíknarlækningum. Um 25.000 manns hafa þegið meðferð á Vogi og öðrum meðferðarstofnunum samtakanna og flestir hafa fengið góðan bata. Árangurinn hefur vakið athygli í örðum löndum. Talskonan gagnrýnir menntun áfengis- og vímuefnaráðgjafa SÁÁ og líkir henni saman við eina önn í framhaldsskóla. Þessi samanburður er algjörlega út í hött og sýnir einungis hvað talskonan veit lítið um það sem hún er að tala um. Líklegra er þó að hún viti betur en kjósi að halda hinu ranga fram í viðleitni sinni til að skaða samtökin. Talskonur Rótarinnar hafa frá upphafi þeirra félags haldið uppi ósönnum og rakalausum óhróðri gegn SÁÁ í stað þess að beita sér fyrir því að ríkið geri skyldu sína í því að fjármagna þennan þátt heilbrigðisþjónustunnar sem áfengis- og vímuefnameðferð er. Það væri auðvitað hægt að gera mun betur í meðferðarstarfi SÁÁ fengjust nægir peningar til starfsins. Fjárskortur hefur alltaf takmarkað starfsgetu SÁÁ sem þó hefur unnið þrekvirki með gríðarlega góðum stuðningi almennings í landinu.
Árni Þormóðsson, félagi í SÁÁ
Birt í Fréttablaðinu 2018-04-19

Á að taka RÚV af auglýsingamarkaði?

Atlaga einkarekinna fjölmiðla, einkum ljósvakafjölmiða, að Ríkisútvarpinu, sem hófst fyrir allmörgum árum með því að þeir kröfðust þess að RÚV yrði tekið af auglýsingamarkaði heldur áfram. Nú með stuðningi nefndar sem menntamálaráðherra skipaði. Rökin eru þau að samkeppnisstaða einkareknu fjölmiðlana gagnvart RÚV væri mjög veik. Þeir berðust í bökkum og væru reknir með tapi. Nú er það svo að allir ljósvakafjölmiðlar, sem eru með daglega starfsemi, eru stofnaðir áratugum eftir að RÚV hóf starfsemi sína. Sama á við um prentmiðla, aðra en Morgunblaðið, sem er eldra en RÚV. Þessi ítrekaða krafa einkareknu fjölmiðlanna er einfaldlega krafa þeirra um ríkisstyrk. Krafa um að þeim verði færðar tekjur sem RÚV hefur haft af auglýsingum frá upphafi. Þetta er ekki einungis krafa um að svipta RÚV tekjum og færa þær til þeirra. Þetta er einnig krafa um að svipta notendur RÚV, sem er meirihluti þjóðarinnar, þeirri þjónustu og dagskrárefni, sem tilkynningar og auglýsingar eru.

Sjöfalt áskriftargjald RÚV

Greiðendur útvarpsgjalds, sem er þorri landsmanna, eru í raun áskrifendur að RÚV, hljóta að eiga rétt á að njóta auglýsinga og þeirra upplýsinga, sem í þeim felast, í dagskrá sinna miðla. Ljósvakafjölmiðlarnir, sem ekki selja sig í áskrift, hafa væntanlega reiknað með því í upphafi að afla auglýsingatekna í þeirri samkeppni, sem þeir stofnuðu til við RÚV og Stöð 2. Stöð 2, sem er áskriftarfjölmiðill, býður ódýrasta „áskriftarpakkann“ á kr. 9.990,- á mánuði eða kr. 119.880 á ári á meðan útvarpsgjald er á einstakling kr. 17.100,- á ári, sem RÚV fær reyndar ekki allt. Áskrifendur Stöðvar 2 greiða sjöfalt áskriftargjald RÚV fyrir að horfa á auglýsingar í dagskrá í þess sjónvarps. RÚV hefur á undanförnum árum orðið að draga úr starfsemi sinni vegna þess að pólitískir ráðamenn hafa viljað takmarka getu RÚV til dagskrárgerðar og því tekið hluta útvarpsgjaldsins til annarra þarfa ríkisins.

Auglýsendur þvingaðir

Takmörkun á starfsemi RÚV er að sjálfsögðu til hagsbóta fyrir einkareknu fjölmiðlana. Ljósvakafjölmiðlar, sem ekki eru í áskrift, ættu að leita annarra leiða en að sækja í tekjur RÚV til að tryggja starfsemi sína. Þeir stofnuðu til samkeppni við RÚV, sem fyrirsjáanlega yrði erfið, og eiga því að að sýna yfirburði einkareksturs með því taka áhorfið frá RÚV með betri dagskrá. Það væri heilbrigð samkeppni. Auglýsendur fara þangað sem áhorfið er mest. Nú er áhorf og hlustun mest á RÚV og því væntanlega mestur árangur af því að auglýsa þar. Talsmönnum einkareknu fjölmiðlanna virðist þykja það réttlátt gagnvart auglýsendum, sem þeir sækjast eftir viðskiptum við, að takmarka val þeirra á fjölmiðlum til að birta í auglýsingar sínar og þvinga þá til að auglýsa ekki þar sem áhorf og hlustun er mest. Slíkt er undarlegt réttlæti og furðuleg túlkun á anda hinnar frjálsu samkeppni, en það eru einmitt þeir, sem í stjórnmálum eru, og telja sig hina einu sönnu talsmenn frjálsrar samkeppni og viðskiptafrelsis, sem ákafast vilja taka RÚV af auglýsingamarkaði. Nefndin var ekki einhuga Nefndin, sem mennta- og menningarmálaráðherra skipaði til að fjalla um bætt rekstarumhverfi einkarekinna fjölmiðla, skilaði í janúar skýrslu um umfjöllunarefni sitt og tillögum til úrbóta á rekstrarumhverfi fjölmiðla.

Nefndin var ekki einhuga.

Meirihluti nefndarinnar lagði til að RÚV færi hið fyrsta af auglýsingamarkaði og lagðist þar með á sveif með hagsmunum einkareknu fjölmiðlana gegn hagsmunum almennings og auglýsenda. Ef einkareknir fjölmiðlar þurfa ríkisaðstoð við að auka umfang sitt á það ekki að þýða að þeir fái að ganga í tekjustofna RÚV með þeim hætti sem stjórnendur einkastöðvanna, og talsmenn þeirra í stjórnmálunum leggja til. En á ríkið að styrkja einkarekna fjölmiðla? Já það getur verið æskilegt og jafnvel nauðsynlegt til að stuðla að málefnalegri umræðu um þjóðmál og landshlutabundin málefni ásamt margskonar menningarlegri starfsemi, sem héraðsfréttablöð og minni sjónvarpsstöðvar gera í dag. Þannig styrkir ættu að ákvarðast í fjárlögum samkvæmt reglum um slíkar styrkveitingar án þess að leiða til beinnar skerðingar á starfsemi RÚV. Árni Þormóðsson

Birt í Mbl. 2018-03-03


Óhagkvæm einkavæðing

Einn ötulasti talsmaður einkavæðingarinnar í landinu, Óli Björn Kárason, alþingismaður, skrifar í grein í Mbl. 5. apríl sl. að fjárfestingar í innviðum sé forsenda þess að hægt sé að standa undir kröfum um góð lífsskilyrði í landinu. Þetta er auðvitað rétt en meginefni greinarinnar er hins vegar að ítreka þá hugsjón hans að selja Flugstöð Leifs Eiríkssonar, sem er ein mikilvægasta stoð innviða samfélagsins, til einkafjárfesta. Um það segir hann m.a.:

„Sá er þetta skrifar er sannfærður um að hagsmunum almennings og fyrirtækja er betur borgið með því að nýta fjármuni í umfangsmiklar umbætur í samgöngum en að binda þá í flugstöð, sem aðrir en ríkið eru betur færir um að reka“.

Þetta eru fremur kaldar kveðjur til þeirra sem reka Flugstöðina nú eða hvaðan kemur þingmanninum sú vissa að aðrir séu betur færir um að reka hana en þeir sem það hafa gert hingað til? Er það Fjármálafyrirtækið Gamma sem hann á við að sé betur fært um að reka Flugstöðina en núverandi eigandi? Gamma gaf á sl. ári út skýrslu, ætlaða fyrir útlendinga, um vænleg fjárfestingarverkefni á Íslandi. Isavia (Keflavíkurflugvöllur Flugstöð) var eitt af mörgum vænlegum verkefnum sem Gamma taldi upp í skýrslunni sem vænlegan kost fyrir fjárfestingu útlendinga í innviðum og grunnstoðum samfélagsins.

Reynslan af einkavæðingu

Er það reynslan af einkavæðingu bankanna sem hann á við með fullyrðingu sinni um að aðrir en ríkið (Isvia) séu betur færir um reksturinn? Rétt er eð minna á að áður en bankarnir voru einkavæddir klifaði viðskiptalífið og fulltrúar þess á Alþingi á því að ríkið ætti ekki að vasast í bankastarfsemi. Því fylgdi svo mikil spilling. Það yrði að selja bankana einkafjárfestum. Og það var gert. Hver varð svo reynslan af einkavæðingu bankanna? Stórkostlegasta spilling og mesti skaði sem samfélagið á Íslandi hefur orðið fyrir og ekki sér fyrir endann á þeim málum þótt margir gerendur í því spili hafi endað í fangelsi.

Vanhugsuð áform

Litlu munaði að Íbúðalánasjóður yrði einkavæddur 2006 og afhentur bönkunum að kröfu samtaka fjármálafyrirtækja. Þáverandi ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hafði komist að samkomulagi um það í taumlausri þjónkun sinni við fjármálafyrirtækin. Hefðu þau áform tekist væri sá sjóður í eigu kröfuhafa bakanna. Að sú einkavæðing tókst ekki var einkum vegna andstöðu almennra félaga í Framsóknarflokknum.

Hverju skilar einkavæðing samfélaginu

Hverju skilaði sala og einkavæðing Símans samfélaginu? Hvað varð um söluandvirðið 66,7 miljarða? Það átti að byggja sjúkrahús fyrir þá milljarða. Þá má minna á nýlega ályktun Viðskiptaráðs sem leggur til að nánast allar fasteignir ríkisins verði seldar einkafjárfestum. Væri það gert þyrfti ríkið að leigja af fjárfestunum fasteignirnar undir starfsemina sem í þeim er. Fjárfestar kaupa ekki fasteign til annars en að ná andvirði þeirra fljótt aftur ásamt ríflegum arði til hluthafa.

Gamalkunnur áróður

Skrif þingmannsins er gamalkunnur áróður þeirra sem vilja koma öllum arðberandi verðmætum samfélagsins í hendur einkafjárfesta. Sérstaklega grunnstoðum innviðanna svo sem orku- og veitufyrirtækjum og samgöngumannvirkjum. Þar yrðu tekjur fjárfestanna öruggastar vegna þess að án þeirra fyrirtækja getur samfélagið ekki verið. Almenningur er háður þjónustu þeirra og verður að borga uppsett verð. Flugstöð Leifs Eiríkssonar og Keflavíkurflugvöllur, sem er hlið fólksflutninga til og frá landinu, er vel statt fyrirtæki sem skilar arði sem fer í uppbyggingu og eignaaukningu. Ríkið þarf ekki að leggja fé í framkvæmdir við stækkun Flugstöðvarinnar sem hefur fjármagnað framkvæmdir án beinnar ríkisábyrgðar. Það fyrirtæki á skilyrðislaust að vera í fullri eign og umráðum ríkisins þannig að tekjur af starfseminni gangi óskiptar til samfélagsins.

Þrýstingur á stjórnmálamenn

Fésýsluöflin leggjast með miklum þunga á stjórnmálamenn og telja sig nú eiga hollvini frjálshyggjunnar á Alþingi. Auk Óla Björns hefur m.a. forsætisráðherra, fjármálaráðherra og ferðamála- og iðnaðarráðherra lýst jákvæðri afstöðu til sölu Flugstöðvarinnar, Keflavíkurflugvallar, Landsnets og Landsvirkjunar. Almenningur þarf að átta sig á að sala ríkisins, á fasteignum og fyrirtækjum til einkafjárfesta er að færa fjármuni frá ríkinu, almenningi, í vasa fjárfestanna. Fjárfesta sem nú sjá helstu gróðamöguleika sína í að komast yfir verðmætar eigur samfélagsins. Fjárfesta sem virðast ekki geta fundið fjármagni sínu farveg í nýsköpun verðmæta. Þeim hentar betur er að komast yfir fyrirtæki sem samfélagið hefur byggt upp á áratugum og borið alla áhættu frá upphafi.

Birt í Mbl. 20.04.17


Um lýðræði í lífeyrissjóðum

Umræða um málefni lífeyrissjóða hefur verið áberandi á síðum blaðanna síðustu mánuði. Hún hefur að mestu verið neikvæð í garð sjóðanna og einkum snúist snúist um lýðræði eða skort á lýðræði í lífeyrissjóðunum. Fullyrt er að sjóðfélagar hefðu engin áhrif á það hvernig fé þeirra væri ráðstafað og ávaxtað eða hverjir skipuðu stjórnir sjóðanna Hönnuð atburðarás Umræðan er það fyrirferðamikil á skömmum tíma frá fólki sem ekki er þekkt fyrir að vera sérstakir talsmenn hagsmuna almenns launafólks. Hún hefur öll einkenni þess að vera hönnuð af þeim sem vilja hafa áhrif á fjárfestingar sjóðanna í anda þeirra aðila sem vilja selja allar grunnstoðir innviða samfélagsins í hendur einkafjárfesta. Meðal þeirra sem hafa skrifað um valfrelsi og lýðræði í lífeyrissjóðunum er formaður Efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis Óli Björn Kárason, ötull talsmaður einkavæðingar ríkiseigna. Hann vill íhlutun Alþingis um aðferðir við stjórnarkjör í lífeyrissjóðunum að sögn til aukins lýðræðis. Því er haldið fram af þeim sem vilja afskipti löggjafans af stjórnarfyrirkomulagi í lífeyrissjóðunum að sjóðfélagarnir hafi ekki aðkomu að stjórnarkjöri. Það er misskilningur. Á aðalfundum stéttarfélaganna eru kjörnir fulltrúar félaganna í stjórnir lífeyrissjóðanna. Gallinn er sá að fáir mæta á þá fundi og því fela þeir sem heima sitja fundarmönnum í raun umboð sitt. Nákvæmlega sama mundi gerast á aðalfundum lífeyrissjóða eða í póstkosningum til stjórna. Því yrði auðvelt fyrir þá sem hefðu þekkingu og tækni, sem fjárfestar hafa yfirleitt, að skipuleggja áróður fyrir framboðum þóknanlegra fulltrúa í stjórnir sjóðanna og fá þá kosna og ná þar fram þeim áhrifum sem þeir stefna að. Aukið valfrelsi og afnám samtryggingar Eins og einhverjir muna, sem fylgjast nú með umræðu um málefni lífeyrissjóða, fluttu, þau Hjálmar Árnason, Pétur Blöndal, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Jónína Bjartmarz, frumvarp á Alþingi árið 2001 til breytinga á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Með frumvarpinu var lagt til að fullt valfrelsi verði hjá launþegum í hvaða lífeyrissjóði þeir greiða iðgjöld sín. Það var grundvallarbreyting frá því sem nú er. Önnur grundvallarbreyting sem þau lögðu til var afnám samtryggingar sem sjóðirnir veita félögum sínum. Í greinargerðinni með frumvarpinu er sagt: "Valfrelsið, sem hér er lagt til, mun flýta þeirri þróun, sem þegar er hafin, að lífeyrissjóðir veiti réttindi háð kyni, aldri og jafnvel fjölskyldustöðu“. Með flutningi þessa frumvarps gengu þingmennirnir þvert á stefnu samtaka atvinnurekenda og verkalýðshreyfingar, sem sömdu um stofnum lífeyrissjóða stéttarfélaga innan ASÍ, um samtryggingu, jafnræði og samfélagslega ábyrgð. Það gekk eins langt frá félagslegum stefnumiðum og unnt er. Hugmyndir að valfrelsi að lífeyrissjóðunum hafa oft komið fram frá stofnun almennu lífeyrissjóðanna en sjaldnast frá sjóðfélögum. Þær hugmyndir hafa yfirleitt lotið að því að þeir sem eru skyldir til að vera í lífeyrissjóði gætu valið sér sjóði. Þeir hugmyndasmiðir hafa almennt verið mjög tengdir viðskiptalífinu og bent á að tryggingafélög, bankar og fjárvörslufélög gætu starfað sem fullgildir lífeyrissjóðir. Kostnaður mun stóraukast Við valfrelsi að sjóðunum myndi kostnaður lífeyrissjóðakerfisins stóraukast. T.d. myndi kapphlaup lífeyrissjóða, banka, sparisjóða, verðbréfafyrirtækja og tryggingafélaga um að ná lífeyrissparnaðinum til sín kosta stórfé í auglýsingum og áróðri. Flóðbylgja slíkra auglýsinga myndi skella yfir þjóðina með allskonar gylliboðum, sem sjaldnast stæðust nánari skoðun. Sá auglýsingakostnaður sem fjármálafyrirtæki hafa í dag eru smámunir miðað við það hvað hann yrði í því kapphlaupi. Auglýsingakostnaður er reksturskostnaður og dregst því frá ávöxtun þess fjár sem viðkomandi fjárvörslusjóður, banki eða tryggingafélag hefur með höndum fyrir sjóðsfélagana. Núverandi lífeyrissjóðakerfi er litið öfundaraugum af öðum þjóðum. Kerfið byggist á skylduaðild að lífeyrissjóðum verkalýðsfélaga og fulltrúalýðræði við val í sjóðstjórnir. Sjóðfélagar lífeyrissjóðanna hafa því enga hagsmuni af því að breyta aðferðum við stjórnarkjör sjóðanna eða valfrelsi um lífeyrissjóði. Birt í Mbl. 17.03.17


Glapræði að selja fasteignir ríkisins


Viðskiptaráð Íslands birti nýlega úttekt á fasteignum ríkissjóðs. Úttektin á að sýna almenningi og stjórnmálamönnum að það sé mjög óhagkvæmt fyrir ríkið að eiga fasteignir sem hýsa stofnanir samfélagsins. Nær væri að selja fjárfestum nánast allt húsnæði ríkisstofnana og leigja það síðan af fjárfestunum, væntanlega undir sömu starfsemi og í þeim er t.m. skóla. Fasteignarekstur eigi heima hjá einkaaðilum segir í úttektinni sem telur það sóun og áhættu hjá ríkinu að eiga húsnæði til eigin nota. Úttektin er áróður ætlaður til að blekkja stjórnmálamenn og almenning í þágu fjárfesta sem ásælast nú verðmætar eigur samfélagsins með auknum þunga. Áróðurinn er m.a. fólginn í því að útlista hve óhagkvæmt sé að ríkið eigi fasteignirnar sem það notar. Því til rökstuðnings segir m.a. í úttektinni: â€žÍ þriðja lagi skapar opinber fasteignarekstur hagsmunaárekstra. Þannig leigir ríkið sjálfu sér húsnæði sitt og situr því beggja megin borðsins í samningaviðræðum“ Það var og. Hvernig ætli sé að semja við sjálfan sig? Í hverju eru hagsmunaárekstrarnir fólgnir? Margar mótsagnir eru í þessari úttekt VÍ og langt frá því að hún sýni fram á hagkvæmi þess að „stjórnmálamenn leiti leiða til að lágmarka eignarhald ríkisins á fasteignum“ eins og sagt er í úttektinni. Úttekt sem þessi gæti hins vegar dugað til að blekkja stjórnmálamenn til að selja fjárfestum húsnæði ofan af stofnunum samfélagsins og leigja það síðan af þeim undir sömu starfsemi. Stjórnmálamönnum hafa oft verið mislagðar hendur við stjórn fjármála ríkis og sveitarfélaga vegna blindrar trúar sinnar á einkareksturinn og andfélagslegra viðhorfa. Í því sambandi má nefna einkavæðingu bankanna og fjárhag sveitarfélaga eins og t.m. Hafnarfjarðar og Reykjanesbæjar sem seldu frá sér verðmætar eigur sem sveitarfélögin leigðu síðan undir sömu starfsemi. Ekki er í úttekt VÍ minnst á þá áhættu sem fólgin væri í því að afhenda einkaaðilum ráð á öllu húsnæði sem hið opinbera þarf að nota eða þau völd sem þeim væru fengin með slíkri eignasöfnun frá samfélaginu. Einkaaðilarnir réðu leiguverðinu. Samningsaðstaða ríkisins væri þröng þar sem það hefði selt ofan af stofnunum sínum. Ekki er í úttektinni minnst á þann arð sem einkaaðilar tækju sér af leigu fasteigna sem þeir keyptu af ríkinu og leigðu því aftur. Arðs sem nú er hjá ríkinu sem eiganda fasteignanna, fólginn í lægri útgjöldum ríkisins vegna fasteignanna sem það á og notar undir starfsemi.Samtök eins og Viðskiptaráð Íslands hafa það hlutverk að gæta hagsmuna viðskiptalífsins og efla „skilning“ almennings á frjálsræði í viðskiptum. VÍ og önnur svipuð samtök svo sem Samtök fjármálafyrirtækja og einstök fyrirtæki tengd þeim hafa ítrekað lagt til að samfélagið selji fjárfestum öll helstu verðmæti samfélagsins svo sem Landsvirkjun, Keflavíkurflugvöll og mikilvæg veitu- og samgöngumannvirki. Fjármálafyrirtækið Gamma upplýsti nýlega í fjölmiðlum að það hefði fundað með fjárfestum beggja vegna Atlantshafsins til að kynna þeim að hér á landi væri hægt að græða meira á samfélaginu en víða annarsstaðar. Öll starfsemi samtaka fyrirtækja og einstaklinga í fjármálastarfsemi miðar að því að efla og verja hagsmuni þeirra. Ekki hagsmuni almennings. Almenningur þarf að vera vel á verði gagnvart „fínum“ skýrslum og úttektum fjármálafyrirtækja og skyldum félögum sem eiga að sýna hagkvæmni þess að fjarfestar eignist innviði samfélagsins. Engar niðurgreiðslur skulda ríkisins eða framkvæmdir á þess vegum eru svo nauðsynlegar og aðkallandi að verjandi sé að selja eitthvað af grunnstoðum og innviðum samfélagsins þeirra vegna. Slíkt væri glapræði og afsal á hluta sjálfstæðis þjóðarinnar í hendur fjárfesta. Almenningur þarf að fylgjast með því hvaða stjórnmálamenn og samtök taka undir áróður VÍ og fjármálafyrirtækja. Öllum ætti að vera ljóst að innviðir samfélagsins, þ.e. fasteignir sem notaðar eru til samfélagslegra þarfa, orku- og veitufyrirtæki, samgöngumannvirki og ýmis þjónustufyrirtæki sem sækja tekjur sínar beint eða óbeint til almennings eiga að vera í eigu og stjórn samfélagsins. Sé þessum þáttum samfélagsins ekki stjórnað á viðunandi hátt verður að skipta um stjórnendur en ekki láta fyrirtækin af hendi til fjárfesta.
Birt í Mbl. 11.02.17

Gamma kallar á innviðina


Fjármálafyrirtækið Gamma hefur gefið út skýrslu sem á að sýna útlendingum hagkvæmni þess að festa fé sitt í grunnstoðum og innviðum íslensks samfélags. Áróður fyrir aðkomu einkafjármagns, þ.e. fjármálafyrirtækja, að nýbyggingu og rekstri nauðsynlegra grunnstoða samfélagsins hefur aukist mjög að undanförnu. Fjármálafyrirtæki leggja talsvert í að reka áróður fyrir hagkvæmi þess að samfélagið selji til þeirra fyrirtæki sem eru innviðir samfélagsins. Skýrslur þeirra um þetta fá mikla auglýsingu í fjölmiðlum. Vafasömum málflutningi er beitt við að útbreiða boðskap fjárfestanna um hagkvæmi þess að þeir eigi og reki helstu innviði samfélagsins. Til að gera boðskapinn trúverðugan í augum almennings er skýrslunum gefið fræðilegt yfirbragð af fræðimönnum, gjarnan tengdum fjármálafyrirtækjunum, sem rita jákvætt um efni þeirra. Skýrslurnar eiga ekki síst að sýna stjórnmálamönnum Alþingis og sveitarstjórna fram á hagkvæmi þess að ríki og sveitarfélög losi sig frá rekstri sem flestra mikilvægustu grunnstoða samfélagsins og fái þær fjárfestum í hendur. Allt á þetta á við fyrirtæki sem samfélagið getur ekki verið án svo sem orku- og veitufyrirtæki, samgöngumannvirki og ýmis þjónustufyrirtæki, sem sækja tekjur sínar beint og óbeint til almennings. Fyrirtæki og mannvirki sem samfélagið hefur byggt upp á löngum tíma til framþróunar samfélagsins og án aðkomu fjárfesta. Fjárfesta sem nú sjá mikla möguleika á hagnaði orkufyrirtækja vegna hækkandi orkuverðs í heiminum. Rekstur vatnsveitna og holræsa sveitarfélaga sem yrðu í eigu fjárfesta verðlegðu þjónustu þeirra með öðrum hætti en nú er gert þar sem eigendurnir krefðust arðs af hlutafé sínu. Tekjur slíkra fyrirtækja er öruggar. Almenningur verður að greiða uppsett verð og samkeppni er engin. Þá er fyrirsjáanlegur mikill hagnaður Landsvirkjunar á næstu árum af raforkusölu til stóriðju. Í þann hagnað vilja fjárfestar komast með því að kaupa sig inn í eða kaupa allt fyrirtækið. Orkufyrirtæki sem eru í opinberri eigu og dreifa og selja orku til almennra nota eru rekin þannig að rekstartekjur standi undir kostnaði og skili hóflegum arði til eigandans sem er samfélagið. Ekki til hluthafa fjárfestingarfélaga, sem að hluta eða öllu leyti væru í eigu útlendinga sem flyttu arðinn úr landi. Í skýrslunni sem Gamma fjármálafyrirtæki gaf nýlega út, og ætluð er til að benda útlendum fjárfestum á möguleika á hagkvæmum fjárfestingum í innviðum samfélagsins á Íslandi eru tilgreind, samkvæmt frétt sem birtist í Markaðnum, fylgirti Fréttablaðsins, „vænleg innviðaverkefni svo sem Sundabraut, Stækkun Hvalfjarðarganga, Breikkun vega, Orkufyrirtæki, Landsnet, Isavia (alþjóðaflugvöllur), Sæstrengur til Bretlands, Landspítali, Léttlestakerfi á höfuðborgarsvæðinu, Lest milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar“. Gísli Hauksson, forstjóri Gamma segir m.a. í viðtali í Markaðnum: „Vextir í heiminum hafa verið í sögulegu lágmarki sem þýðir að lánsfé er sögulega ódýrt. Fjárfestar þurfa því að hafa talsvert fyrir því að finna fjárfestingar sem skila viðunandi ávöxtun.“ Og síðar segir Gísli: „Við höfum fundað með stórum innviðafjárfestum beggja vegna Atlantshafsins og finnum fyrir miklum áhuga þeirra á að fjárfesta í innviðaverkefnum hér á landi.“ Samkvæmt þessu virðist Gamma vera að gylla fyrir útlendum fjárfestum að vænlegt sé að hagnast á íslendingum. Hér væri mögulegt að fá meiri arð af fé þeirra en fáist með þeim lágu vöxtum, sem Gísli segir að séu í sögulegu lágmarki, með því að kaupa fyrirtæki sem eru innviðir samfélagsins á Íslandi. Arður fjárfestanna fengist aðeins með hækkun allra þjónustugjalda fyrirtækjanna. Með því væru lagðar byrðar á almenning í þágu fjárfesta. Ekki vegna hagsmuna samfélagsins. Engin framkvæmd vegna innviða samfélagsins er svo nauðsynleg og aðkallandi að verjandi sé að selja eitthvað af grunnstoðum og innviðum samfélagsins hennar vegna. Öllum ætti að vera ljóst hve mikið glapræði það væri að selja þær og þar með hluta sjálfstæðis þjóðarinnar í hendur fjárfesta. Eru íslenskir stjórnmálamenn tilbúnir til að láta teyma sig í slík viðskipti?
Árni Þormóðsson
Birt Mbl. 17.11.16

Verður Ríkisútvarpið eyðilagt

Verður Ríkisútvarpið eyðilagt?
Enn er sóknin að Ríkisútvarpinu hert. Það hefur lengi verið krafa margra sem reka fjölmiðla, einkum þeirra sem reka ljósvakamiðla, að Ríkisúrvarpið verði tekið af auglýsingamarkaði. Nýlega skoruðu fimm stjórnendur einkarekinna ljósvakamiðla, þ.e. Símans, 365 fjölmiðla, sjónvarpsstöðvarinnar ÍNN, Útvarps Sögu og miðla Hringbrautar, á stjórnvöld að taka Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði eigi síðar en um næstu áramót. Jafnframt leggja þessir aðilar til að útvarpsgjald verði hækkað til fyrra horfs og þannig verði tryggð áframhaldandi starfsemi RÚV. Greiðendur útvarpsgjalds eiga samkvæmt þessari kröfu að bæta upp það sem frá RÚV er tekið og fært þeirra fölmiðlum. Þetta kalla stjórnendurnir að gera „nauðsynlegar, málefnalegar og tímabærar breytingar á íslenskri löggjöf til þess að jafna samkeppnisstöðu félaga á íslenskum fjölmiðlamarkaði“. Þessi krafa fjölmiðlanna er einfaldlega krafa einkarekinna fjölmiðla um ríkisstyrk. Krafa um að þeim verði færðar tekjur sem Ríkisútvarpið hefur haft af auglýsingum frá upphafi. Skattborgarar verði látnir borga tekjutap RÚV. Þannig á almenningur beinlínis að borga fyrir starfsemi þessara einkareknu miðla sem allir urðu til áratugum seinna en RÚV. Þessi einkafyrirtæki hafa væntanlega reiknað með í rekstraráætlunum sínum við stofnun að afla tekna á auglýsingamarkaði í samkeppni sem þau stofnuðu til við RÚV. Eða hafa þessi félög alltaf reiknað með að þeim yrðu færðar auglýsingatekjur RÚV á kostnað skattborgaranna? Greiðendur útvarpsgjalds hljóta að eiga rétt á að njóta auglýsinga í dagskrá sinna miðla. Stöð 2 selur dagskrá sína í áskrift og þar eru auglýsingar hluti af dagskránni. Líta verður á RÚV sjónvarp sem það sé í áskrift vegna útvarpsgjaldsins sem þorri landsmanna greiðir og eru auglýsingar hluti dagskrárinnar. Verði RÚV tekið af auglýsingamarkaði á að sjálfsögðu að taka Stöð 2 ásamt öðrum áskriftarstöðvun, ef til eru, af auglýsingamarkaði. Einkareknu sjónvarpsstöðvarnar, sem ekki selja dagskrá sína í áskrift, sóma sér vel í fjölmiðaflórunni og hafa staðið sig ágætlega í að framleiða og sýna innlent efni. En það á ekki að þýða að þegar þær stöðvar vilja auka umfang sitt eigi þær að ganga í tekjustofna RÚV með þeim hætti sem stjórnendur einkastöðvanna leggja til og fjármagna þannig starfsemi sína. Það sama á við um einkareknu útvarpsstöðvarnar. Þessir ljósvakafjölmiðlar verða að leita annarra leiða til að auka umfang starfsemi sinnar. Þeir eiga að sjálfsögðu að sýna yfirburði sína í einkarekstri og taka áhorfið frá RÚV með því að sýna betra og fjölbreyttara efni. Það væri heilbrigð samkeppni. Auglýsendur fara þangað sem áhorfið er mest. Nú er áhorf og hlustun mest á RÚV og því væntanlega mestur árangur af því að auglýsa þar. Áskorendum ofnagreindra fjölmiðla virðist þykja það réttlátt gagnvart auglýsendum að takmarka val þeirra á fjölmiðlum til að birta í auglýsingar sínar. Það er undarlegt réttlæti og getur varla verið í anda hinnar frjálsu samkeppni. Það er augljóst að ef kröfur ljósvakamiðlana ná fram að ganga verður RÚV að skerða dagskrá sína enn frekar en orðið er. RÚV hefur á undanförnum árum látið undan síga í starfsemi sinni vegna þess að pólitískir ráðamenn hafa gefið eftir og viljað takmarka getu RÚV til dagskrárgerðar og því tekið hluta útvarpsgjaldsins til annarra þarfa ríkisins. Ljósvakamiðlar sem vissu við stofnun þeirra að þeir yrðu í samkeppni við RÚV eiga að spjara sig án ríkisstyrks en ekki ganga fyrir tekjum sem teknar eru frá RÚV með valdi. Að taka RÚV af auglýsingamarkaði er eyðilegging þessarar mikilvægu menningarstofnunar.

Birt í Mbl. 23.07.16


Ásóknin í eigur samfélagsins

Ásóknin í eigur samfélagsins.
Það er alvarlegt umhugsunarefni fyrir íslenskan almenning hve góðar undirtektir mikil ásókn einkafjármagnsins í eigur samfélagsins fær hjá stjórnmálamönnum. Margir þeirra virðast reiðubúnir til að færa verðmæt fyrirtæki í grunnþjónustu úr eigu samfélagsins að hluta eða að öllu leyti í hendur einkafjármagnsins. Fyrirtæki eins og orku- og veitufyrirtæki, samgöngumannvirki og ýmis þjónustufyrirtæki sem sækja tekjur sínar beint og óbeint til almennings eru eftirsóknarverðust. Hvers vegna er fjárfesting í slíkum eignum samfélagsins girnileg? Það er einfaldlega vegna þess að þannig fyrirtæki eru samfélaginu nauðsynleg og því einhver öruggasta fjárfesting sem völ er á. Án þeirra gengur nútíma þjóðfélag ekki. Eigendur ráða verði þjónustunnar. Notendur hennar neyðast til að greiða uppsett verð. Ríki og sveitarfélög byggðu upp orku- og veitufyrirtækin á áratugum til framþróunar atvinnulífs og menningar í landinu og rekstur þeirra á mestan þátt í þeirri velmegun sem íslendingar búa við í dag. Einkafjármagnið kom ekki að uppbyggingu þessara innviða samfélagsins. Það hafði ekki áhuga á því eða frumkvæði í byrjun þegar áhættan var mest. En þegar fyrirtækin eru orðin gríðarlega verðmæt samfélaginu og verðmæti þeirra hraðvaxandi og skila miklum arði til samfélagsins, beint og óbeint, þá vill einkafjármagnið eignast þau og hirða arðinn af þeim. Orku- og veitufyrirtækin í smásölu hafa verið rekin þannig að verð á þjónustu þeirra standi undir reksturskostnaði og endurnýjun. Hagnaður af raforkusölu til stórnotenda rennur til eigandans. Óbeini arður samfélagsins er er einkum ódýr orka, ódýrari en margar nágrannaþjóðir okkar búa við. Enginn hagnaður fyrirtækjanna fer til einkafjármagns hluthafa. Hann er allur hjá eigandanum, þjóðinni fólgin í verðmætari eignum og arðgreiðslum í ríkissjóð. Þessu vill einkafjármagnið breyta. Það vill koma sér inn í innviði samfélagsins með kaupum á þessum fyrirtækjum. Væntanlega á „góðum verðum“. Komist einkafjármagnið inn í orku- og veitufyrirtæki í smásölu hækkaði það verð þjónustunnar til þess að tekjur verði verulega umfram það sem þarf til reksturs og viðhalds fyrirtækjanna. Þannig fengist arður sem greiddur væri til nýrra hluthafa en ekki til samfélagsins eins og nú er. Arðurinn, ávöxtun hlutafjárins, verður aðeins sóttur í vasa hins almenna notenda rafmagns og heits vatns. Er almenningur tilbúinn til þess að færa svokölluðum fjárfestum mikla fjármuni með því að selja að þarflausu í hendur þeim að hluta eða öllu leyti mjög arðvænleg fyrirtæki sín? Samtök, svo sem Viðskiptaráð og Samtök iðnaðarins, sem virðist stjórnað af fjárfestum sem sækjast mjög eftir að eignast að hluta eða öllu orku- og veitufyrirtæki í eigu samfélagsins, hafa verið áberandi í pólitískum áróðri fyrir hugsjónum sínum byggðum á þeim trúarbrögðum frjálshyggjunnar að samfélagið eigi ekki neitt sem hægt er að græða á. Í þessum tilgangi hefur verið rekinn öflugur áróður. Nú síðast hafa Samtök iðnaðarins birt aðkeypta skýrslu dansks hagfræðings um að best væri að einkavæða orkufyrirtæki í ríkiseigu, sem eru til að mynda Landsvirkjum og Landsnet, og skipta upp í mörg smærri fyrirtæki. Andvirðið yrði lagt í auðlindasjóð sem greiddi síðan sérhverjum íslendingi arð af ávöxtun sjóðsins. Allt er þetta hluti af þeim pólitíska blekkingaleik fjármagnseigenda sem beint er að almenningi og stjórnmálamönnum í þeim tilgangi að fá þá til að afsala í sínar hendur verðmætustu eignum samfélagsins. Einkafjármagnið kaupir ekki fyrirtæki án þess að sjá það fyrir að ná kaupverðinu til sín á sem skemmstum tíma með vænum arði. Fyrirsjáanlegur er mikill hagnaður Landsvirkjunar á næstu árum og þar með verulega auknar arðgreiðslur í ríkissjóð. Þess vegna leggja samtök fjármagnseigenda mikið í að blekkja almenning og stjórnmálamenn til fylgis við hugmyndir þeirra um sölu á Landsvirkjun til fjárfesta sem þannig kæmust í mikinn arð sem ella færi til samfélagsins. Í þessu sambandi er hollt að hugsa til einkavæðingar síðustu áratuga. Hvernig fór hún fram og hvernig endaði hún? Hvernig endaði einkavæðing fjármálafyrirtækjanna? Með hruni sem þjóðin geldur fyrir. Hefur siðferði einkafjármagnsins eitthvað breyst? Almenningur þarf að fylgjast með afstöðu stjórnmálamanna til þessara mála. Gríðarlegar eignir orku- og veitufyrirtækjanna ásamt náttúrugæðum til lands og sjávar eru í raun auðlindasjóður þjóðarinnar sem þjóðin, samfélagið, hefur vaxandi arð af. Að afsala einhverju af þessum verðmætum til fjármagnseigenda er í raun að afsala hluta af sjálfstæði þjóðarinnar í hendur einkafjármagns.
Árni Þormóðsson
Birt í Mbl. 30.06.16

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband