Ásóknin í eigur samfélagsins

Ásóknin í eigur samfélagsins.
Það er alvarlegt umhugsunarefni fyrir íslenskan almenning hve góðar undirtektir mikil ásókn einkafjármagnsins í eigur samfélagsins fær hjá stjórnmálamönnum. Margir þeirra virðast reiðubúnir til að færa verðmæt fyrirtæki í grunnþjónustu úr eigu samfélagsins að hluta eða að öllu leyti í hendur einkafjármagnsins. Fyrirtæki eins og orku- og veitufyrirtæki, samgöngumannvirki og ýmis þjónustufyrirtæki sem sækja tekjur sínar beint og óbeint til almennings eru eftirsóknarverðust. Hvers vegna er fjárfesting í slíkum eignum samfélagsins girnileg? Það er einfaldlega vegna þess að þannig fyrirtæki eru samfélaginu nauðsynleg og því einhver öruggasta fjárfesting sem völ er á. Án þeirra gengur nútíma þjóðfélag ekki. Eigendur ráða verði þjónustunnar. Notendur hennar neyðast til að greiða uppsett verð. Ríki og sveitarfélög byggðu upp orku- og veitufyrirtækin á áratugum til framþróunar atvinnulífs og menningar í landinu og rekstur þeirra á mestan þátt í þeirri velmegun sem íslendingar búa við í dag. Einkafjármagnið kom ekki að uppbyggingu þessara innviða samfélagsins. Það hafði ekki áhuga á því eða frumkvæði í byrjun þegar áhættan var mest. En þegar fyrirtækin eru orðin gríðarlega verðmæt samfélaginu og verðmæti þeirra hraðvaxandi og skila miklum arði til samfélagsins, beint og óbeint, þá vill einkafjármagnið eignast þau og hirða arðinn af þeim. Orku- og veitufyrirtækin í smásölu hafa verið rekin þannig að verð á þjónustu þeirra standi undir reksturskostnaði og endurnýjun. Hagnaður af raforkusölu til stórnotenda rennur til eigandans. Óbeini arður samfélagsins er er einkum ódýr orka, ódýrari en margar nágrannaþjóðir okkar búa við. Enginn hagnaður fyrirtækjanna fer til einkafjármagns hluthafa. Hann er allur hjá eigandanum, þjóðinni fólgin í verðmætari eignum og arðgreiðslum í ríkissjóð. Þessu vill einkafjármagnið breyta. Það vill koma sér inn í innviði samfélagsins með kaupum á þessum fyrirtækjum. Væntanlega á „góðum verðum“. Komist einkafjármagnið inn í orku- og veitufyrirtæki í smásölu hækkaði það verð þjónustunnar til þess að tekjur verði verulega umfram það sem þarf til reksturs og viðhalds fyrirtækjanna. Þannig fengist arður sem greiddur væri til nýrra hluthafa en ekki til samfélagsins eins og nú er. Arðurinn, ávöxtun hlutafjárins, verður aðeins sóttur í vasa hins almenna notenda rafmagns og heits vatns. Er almenningur tilbúinn til þess að færa svokölluðum fjárfestum mikla fjármuni með því að selja að þarflausu í hendur þeim að hluta eða öllu leyti mjög arðvænleg fyrirtæki sín? Samtök, svo sem Viðskiptaráð og Samtök iðnaðarins, sem virðist stjórnað af fjárfestum sem sækjast mjög eftir að eignast að hluta eða öllu orku- og veitufyrirtæki í eigu samfélagsins, hafa verið áberandi í pólitískum áróðri fyrir hugsjónum sínum byggðum á þeim trúarbrögðum frjálshyggjunnar að samfélagið eigi ekki neitt sem hægt er að græða á. Í þessum tilgangi hefur verið rekinn öflugur áróður. Nú síðast hafa Samtök iðnaðarins birt aðkeypta skýrslu dansks hagfræðings um að best væri að einkavæða orkufyrirtæki í ríkiseigu, sem eru til að mynda Landsvirkjum og Landsnet, og skipta upp í mörg smærri fyrirtæki. Andvirðið yrði lagt í auðlindasjóð sem greiddi síðan sérhverjum íslendingi arð af ávöxtun sjóðsins. Allt er þetta hluti af þeim pólitíska blekkingaleik fjármagnseigenda sem beint er að almenningi og stjórnmálamönnum í þeim tilgangi að fá þá til að afsala í sínar hendur verðmætustu eignum samfélagsins. Einkafjármagnið kaupir ekki fyrirtæki án þess að sjá það fyrir að ná kaupverðinu til sín á sem skemmstum tíma með vænum arði. Fyrirsjáanlegur er mikill hagnaður Landsvirkjunar á næstu árum og þar með verulega auknar arðgreiðslur í ríkissjóð. Þess vegna leggja samtök fjármagnseigenda mikið í að blekkja almenning og stjórnmálamenn til fylgis við hugmyndir þeirra um sölu á Landsvirkjun til fjárfesta sem þannig kæmust í mikinn arð sem ella færi til samfélagsins. Í þessu sambandi er hollt að hugsa til einkavæðingar síðustu áratuga. Hvernig fór hún fram og hvernig endaði hún? Hvernig endaði einkavæðing fjármálafyrirtækjanna? Með hruni sem þjóðin geldur fyrir. Hefur siðferði einkafjármagnsins eitthvað breyst? Almenningur þarf að fylgjast með afstöðu stjórnmálamanna til þessara mála. Gríðarlegar eignir orku- og veitufyrirtækjanna ásamt náttúrugæðum til lands og sjávar eru í raun auðlindasjóður þjóðarinnar sem þjóðin, samfélagið, hefur vaxandi arð af. Að afsala einhverju af þessum verðmætum til fjármagnseigenda er í raun að afsala hluta af sjálfstæði þjóðarinnar í hendur einkafjármagns.
Árni Þormóðsson
Birt í Mbl. 30.06.16

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband